15.03.1957
Efri deild: 70. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Hér hafa nú komið fram við þessa umr. ýmis þau atriði, sem rétt er að víkja að, þó að margt hafi vitanlega flotið inn í þessar umr., sem ekki tekur að vera að elta ólar við.

Hér ræddi fyrst á þessum fundi um frv. hv. þm. V-Sk. (JK). Hann vék hér sérstaklega að því atriði, að ég hefði farið hér með rangt mál, siðast þegar mál þetta var til umr., varðandi þær reglur, sem almennt hefðu verið í gildi í Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda varðandi tilkynningarskyldu einstakra aðila í þeim samtökum fyrir 1. marz hvert ár um það, hvort þeir ætluðu að fela samtökunum umboð til þess að selja sína framleiðslu eða hvort þeir ætluðu að ganga úr samtökunum. Og í sambandi við þetta sagði hann hér frá því, að hann hefði kynnt sér, að Samband íslenzkra samvinnufélaga hefði nú um nokkurra ára skeið sagt sig allt af úr samtökunum, en þó þannig, að ef þeir hefðu ekki tilkynnt aftur fyrir 1. marz, þá mætti líta svo á, að þeir ætluðu að vera áfram. Þetta atriði kemur fyllilega heim og saman við það, sem ég sagði einmitt í þessum umr. Ég minntist þá á það, að nú um nokkurt skeið hefði verið uppi verulegur ágreiningur í þessum samtökum, m.a. um það, hvort Samband ísl. samvinnufélaga vildi vera áfram aðili að þessum saltfisksölusamtökum. Og þegar, eins og ég skýrði frá, Sambandið eitt árið, ég hygg að það hafi verið 1952, tilkynnti, að það vildi vera laust úr samtökunum, þá tókst svo samkomulag innan samtakanna um það, að saltfisksölusamtökin, S.Í.F., veittu S.Í.S. fullnaðarumboð til sölu á saltfiski í nokkrum löndum, m.a. í Danmörku, eins og ég minntist hér á. Þetta hafði skapað Sambandi ísl. samvinnufélaga nokkra sérstöðu þarna meðal annarra saltfiskútflytjenda, þar sem það hafði náð býsna sérkennilegum samningi. Þrátt fyrir þá einkaútflutningsaðstöðu, sem S.Í.F. hefur, hafði það framselt þennan rétt til Sambandsins á tilteknum svæðum. En eftir stóð það, sem ég sagði um þetta atriði, að saltfisksölusamlagið hefur aldrei gengið eftir því við einstaka meðlimi sína, að þeir þyrftu að tilkynna um það, hvort þeir ætluðu að halda áfram veru sinni í samtökunum, fyrir 1. marz. Þetta er mér mjög vel kunnugt um, þar sem ég hef haft þarna hagsmuna að gæta um margra ára skeið, að stjórnendur þessara samtaka hafa aldrei snúið sér til einstakra félagsmanna og óskað eftir því, að þeir segðu til samkvæmt þessum ákvæðum laganna um veru sina í samtökunum fyrir 1. marz, enda reynir hv. þm. V-Sk. ekki að halda því fram, því að ég vænti, að hann hafi ekki fengið neinar upplýsingar um slíkt. Hann rifjar hér aðeins upp það, sem ég minntist á, að Samband ísl. samvinnufélaga hefur nú um nokkurn tíma verið með slíka óánægju bundið í þessum samtökum, að það hefur verið að endurnýja úrsögn sína úr samtökunum. Þetta atriði hv. þm. afsannar því ekkert af því, sem ég hafði sagt hér um þetta atriði. Það stendur enn óbreytt, að þó að einstakir saltfiskframleiðendur hafi ekki tilkynnt, að þeir ætluðu að hverfa úr þessum samtökum fyrir 1. marz, þá er það engin sönnun fyrir því, að þeir óski annars eftir að vera í samtökunum, ef saltfisksalan væri orðið frjálsari en hún hefur verið, vegna þess að þetta hefur mestmegnis verið dauður lagabókstafur í samtökunum og kannske í því einu tilfeili komið til greina, þar sem aðili beinlínís var óánægður og var að búa sig undir að ganga endanlega úr samtökunum.

Þá kom hv. þm. V-Sk. að því, að hann teldi, að frv. væri óþarft, þar sem sjútvmrh. hefði beinlínis samkvæmt gildandi lögum aðstöðu til þess að setja hvaða reglur sem hann vildi varðandi útflutning á sjávarafurðum. Ég hafði vikið að þessu atriði hér í framsögu minni um málíð og vil enn á ný undirstrika það, að hér geta menn vitanlega haft skiptar skoðanir. Ef það er bundið í lögum, að einn ráðherra megi setja hvaða reglur sem honum sýnist viðvíkjandi framkvæmd einhverra tiltekinna mála, ef þannig er gengið frá þessu og slik ákvæði hafa jafnvel verið sett á stríðstímum, er þá þar með sagt, að ekki sé lengur ástæða til þess að setja neina löggjöf framar um slík málefni? Mundi t.d. sjálfstæðismönnum finnast það víðeigandi, ef ég notaði mitt vald í sambandi við þessi mál þannig, að ég löggilti einn aðila, einhvern aðila — ja, við skulum segja Samband ísl. samvinnufélaga — sem einkaútflytjanda að öllum sjávarafurðum Íslendinga? Ég hef til þess heimild samkvæmt þessu víðtæka valdi, sem ráðh. er þarna veitt. Mín skoðun er sú, að þetta ákvæði sé í eðli sínu mjög óeðlilegt, að láta ráðherra hafa þetta ótakmarkaða vald, miklu eðlilegra sé, að Alþingi setji í löggjöf fram þau meginatriði um framkvæmd málanna, sem Alþingi telur eðlilegt að farið sé eftir. Og það er vegna þess, að ég hef þessa skoðun, sem ég hef lagt til, að þetta frv. yrði gert að lögum, þar sem því yrði slegið föstu, hvert skal vera skipulagið í afurðasölumálunum í aðalatriðum, en frv. er ekki flutt til þess að óska eftir viðtækari heimild en nú þegar er fyrir hendi.

Ég hafði lýst því hér, að ég teldi eðlilegt, að hinar einstöku greinar sjávarútvegsins byggju við sama söluskipulag, þannig að þau framleiðendasamtök, sem selja frosinn fisk, hefðu sömu aðstöðu við sölu á sinni framleiðslu og t.d. þau samtök hafa, sem selja saltfisk. Þetta er ekki nú í dag. Nú er á þessu verulegur mismunur. Annar aðilinn hefur sérréttindi, hefur einkaaðstöðu, hinn hefur það ekki. Það er einmitt eitt meginákvæði, sem felst í þessu frv.; að nú er gert ráð fyrir því að taka upp samræmt skipulag í þessum efnum, sömu framkvæmdina í öllum greinum, en ekki að láta einn aðila hafa nein sérréttindi.

Ég kem þá að ræðu hv. þm. N-Ísf., en hún var nú nokkuð sérstaks eðlis. Það, sem hann vék hér fyrst að, var það, að alveg væri furðulegt, að ég hefði haldið hér fram beinlínis röngum fullyrðingum í sambandi við útflutning á fiski á s.l. ári og reynt á þann hátt, með því að segja þar ranglega til um, að halda fram þeirri skoðun eða rökstyðja þá fullyrðingu mína, að fundur sá, sem saltfiskframleiðendur héldu hér fyrir skemmstu í bænum, hafi raunverulega verið fremur fáskipaður en hitt, eða þar hafi vantað mjög verulega marga aðila af hinum eiginlegu saltfiskútflytjendum. Ég lét hér orð falla um það, að útflutningurinn á s.l. ári af saltfiski hefði verið um það bil 50 þús. tonn, en samkv. því, sem fram hefði komið í fréttum frá þessum fundi, hefðu þar komið fram atkvæði fyrir um það bil 25 þús. tonn af saltfiski og hefðu þeir aðilar mælt gegn samþykkt þessa frv. og því skorti hér allverulega á, að öll atkv. kæmu fram.

Nú þóttist hv. þm. N-Ísf. sanna það, að útflutningurinn hefði ekki verið þessi, sem ég hafði hér látið orð um falla, heldur miklum mun minni. Hvað er nú rétt í þessu? Það er eflaust ekki gott fyrir menn að trúa neinu um það, þegar hann fullyrðir ákveðna tölu og ég enn aðra. En ég hef hér fyrir framan mig nýjasta heftið af tímariti Fiskifélagsins, Ægi, sem gefur upp nákvæmar tölur um útflutninginn á saltfiski á s.l. ári. Ég þykist að vísu alveg sjá það strax, í hverju þessi mismunur liggur hjá mér og hv. þm. N-Ísf., og ég flokka hann einfaldlega undir það, að ég þekki miklu betur til þessara mála en hann og hann skilji ekki þessar tölur. Það er rétt, að út var flutt á s.l. ári rúmlega 33 þús. tonn og 28 kg betur af óverkuðum saltfiski, en það er líka til annað, sem heitir verkaður saltfiskur, og hann mælist í talsvert öðrum þunga en óverkaður saltfiskur. Sé þetta umreiknað á eðlilegan hátt og eftir þeim tölum, sem um það gilda, þá sýnir það sig, að þar hafa verið flutt út 8260 tonn af fullverkuðum fiski og aðallega Brazilíu-verkuðum fiski, — þá kemur líka í ljós, sé þetta reiknað út eftir þeim tölum, sem Fiskifélagið gefur upp, að hér er um útflutning að ræða, sem er mjög nærri því að vera 49 þús. tonn. Og þá ætla ég, að ég hafi ekki mikið sagt rangt, þegar ég sagði, að útflutningurinn mundi hafa verið mjög nærri því að vera um 50 þús. tonn, eða um það bil 50 þús. tonn, eins og ég orðaði það. En auk þessa er svo enn annar saltfiskútflutningur, sem venjulega hefur verið talinn með í saltfiski, a.m.k. hafa þessi saltfisksölusamtök mjög gengið fast eftir að telja undir sín yfirráð, en það er útflutningur á söltuðum þunnildum, sem nema 2421 tonni, þar að auki.

Þegar ég nefndi mína tölu, hafði ég sem sagt athugað þessa skýrslu, og ég er alveg fullviss um það, að hún er rétt. En þær tölur, sem hann er með, eru rangar. Hann hefur í bezta falli hlaupið í þá töluna, sem tilgreindi aðeins upphæðina á útflutningi óverkaðs saltfisks.

Það stendur því hér alveg í fullu gildi, að einnig á þessum skyndifundi, sem hér var boðað til af Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, skorti stórkostlega á það, að þar væru samankomnir allir saltfiskútflytjendur. Og það gefur alveg auga leið, að þar vantaði fyrst og fremst allan þann mikla fjölda af saltfiskframleiðendum, sem heima eiga úti á landi og höfðu enga aðstöðu til þess að sækja þennan fund um þetta leyti.

Þá gerði hv. þm. N-Ísf. allmikið úr því, að ég hafði hér minnzt á það, að Sölusamband ísl. fiskframleiðenda hefði þegar fengið nokkra sérstöðu í uppbyggingu sinni og skipulagningu sem framleiðendafélag frá því, sem önnur framleiðendafélög hafa hér meðal sjávarútvegsmanna, sem kæmi meðal annars fram í því, að ýmsir af helztu forustumönnum þessara sölusamtaka eru löngu hættir að vera framleiðendur, og ég minntíst þar á það, að formaður S.Í.F., Richard Thors, og það fyrirtæki, sem hann var þarna fulltrúi fyrir, hefur ekki verið eigandi að saltfiski hér um 15 ára skeið a.m.k. Þetta er alveg rétt, þessu verður ekki neitað, enda reyndi hv. þm. N-Ísf. ekki að neita því. Ég hef einnig minnzt á það, að í forustu þessara samtaka væri m.a. bankastjóri, — það væri væntanlega ekki heldur hægt að neita því, en vegna þess að einn af bankastjórum Landsbankans, sem nú er látinn fyrir mörgum árum, hafi verið áhugamaður um sölu saltfisks og hafi komizt inn í þessi samtök á sínum tíma, þá á það að vera hneykslunarheila, að á það sé minnzt, að nú sé í staðinn fyrir venjulegan fiskframleiðenda bankastjóri í stjórn þessara samtaka. Það, sem ég sagði í þessum efnum, var fullkomlega rétt. Þarna hafa þeir menn verið í forustu nú um nokkurra ára skeið, sem ekki hafa haft hagsmuni sem beinir framleiðendur. Það er rétt, og það er öfugt við það, sem er í hinum öðrum samtökum fiskframleiðenda hér á landi. En það hefur líka margt verið með S.Í.F. verulega á annan veg en um önnur samtök framleiðenda, og það hefur t.d. alltaf krafizt þess að fá að njóta ýmiss konar sérréttinda um söluaðstöðu, sem önnur venjuleg framleiðendasamtök hafa ekki fengið.

Hv. þm. N-Ísf. byrsti sig hér talsvert, þegar hann minntist á þau orð mín úr síðustu umr., að mér hefði fundizt að lítið hefði komið til skilnings og stuðnings Sjálfstfl. við vandamál sjávarútvegsins, þegar þau lágu hér til úrlausnar dagana fyrir síðustu jól. Og hann spurði af miklum þjósti: Hvaða lausn var þetta á vandamálum sjávarútvegsins, hvaða lausn var þetta eiginlega? Voru það skattarnir, sem hérna voru lagðir á? segir hann. Ja, það er von, að sá þm., sem svona spyr og svona talar, telji sig vera sjálfkjörinn til þess að tala hér um málefni sjávarútvegsins á Alþingi, tala hér um frv., sem hér liggur fyrir. Hann veit ekki til þess, að hér hafi legið fyrir á Alþingi neitt af vandamálum sjávarútvegsins til úrlausnar nú fyrir síðustu áramót. Hann vissi af því, að það var verið að leggja hér á einhverju skatta, en hann vissi ekki um það, að hér var verið að staðfesta samkomulag, samning, sem gerður var við allar helztu greinar sjávarútvegsins, öll hans helztu félagasamtök, og þessi félagasamtök lýstu yfir, að það væri sjávarútveginum hagstæðarí samningur en þau hefðu nokkurn tíma átt kost á á undanförnum árum. En hv. þm. N-Ísf. þekkir þetta ekki, hann veit ekkert um þetta. En það mætti kannske spyrja þennan hv. þm. um það, hverjar voru till. hans til þess að leysa vandamál sjávarútvegsins nú um síðustu áramót og hverjar voru till. Sjálfstfl. Hvað vildi Sjálfstfl. gera fyrir útvegsmenn til þess að greiða fram úr þeirra vandamálum nú um síðustu áramót? Hvað vildi Sjálfstfl. gera? Hann vildi, vænti ég, ekki leggja á skatta. En hvernig ætlaði hann að leysa vandann? Vill nú ekki hv. þm. N-Ísf., næst þegar hann kemur hérna upp, skýra frá því, hvað Sjálfstfl. og hann sérstaklega vildu gera til þess að leysa vandamál sjávarútvegsins, þannig að sjávarútvegurinn gæti haldið áfram sínum eðlilega rekstri? Vill hann ekki skýra frá því? Hann minntist hér á það, sem helzt hefði þá mátt líklega taka sem skýringu á því, hvað hann og hans flokkur hefðu viljað í þessum efnum, að árið 1950 hefði verið samþ. gengislækkun, sem hefði verið mjög til stuðnings sjávarútveginum og ég og aðrir þeir, sem voru hér á Alþingi og þá í stjórnarandstöðu, þegar það var samþ., hefðum þá beitt okkur gegn, og þó hefði ég sem fulltrúi sjávarútvegsmanna átt að vita það, að hér var sérstaklega verið að leysa vandamál sjávarútvegsins. Ef til vill má skilja þessi orð hv. þm. N-Ísf. á þá leið, að enn hafi það verið hugmynd Sjálfstfl., að það ætti að lækka gengi íslenzkrar krónu og leysa þannig vanda útvegsins. En það væri mjög þakkarvert, ef hann vildi lýsa því yfir, að það hafi verið stefna Sjálfstfl., það hafi verið það, sem þurfti að gera sjávarútveginum til aðstoðar.

En svo að maður minnist á gengislækkunina frá 1950 og afstöðuna til hennar, þá hefur mín afstaða til gengislækkunarinnar þá og til annarra till., sem hér hafa komið fram á undanförnum árum varðandi málefni sjávarútvegsins, verið mjög skýr í þeim efnum. Ég sagði, þegar till. lágu hér fyrir um gengislækkunina, að það væri alveg augljóst, eins og reyndar flestir sjávarútvegsmenn sögðu þá líka, að eins og sú gengisbreyting var framkvæmd, hlyti hún að koma þannig út, að hún hlyti aðeins að gera erfiðan rekstur sjávarútvegsins verri. Og hvernig fór? Hvernig fór með þessa framkvæmd? Ég skal nefna eitt dæmi, sem lýsir þessu nægilega skýrlega, án þess að það sé verið að fara út í flóknari hliðar þess máls. Fiskverðið, sem bátarnir í landinu bjuggu . þá við, áður en gengisbreytingin kom, var 75 aura verð fyrir hvert kg af fiski upp úr sjó. Það var það fiskverð, sem bátaflotinn okkar bjó við. Hvað breyttist fiskverðið mikið við gengislækkunina 1950? Hvað var fiskverðið á árinu 1950? Veit hv. þm. N-Ísf. það? Fiskverðið hækkaði ekki um einn einasta eyri. En hvað gerðist við gengislækkunina? Vitanlega hækkaði allt það, sem útgerðin þurfti til sinna nota, stórkostlega í verði. Olían stórhækkaði, veiðarfæri stórhækkuðu, og allt, sem þurfti til viðhalds skipa, útgerðarrekstrarins, það stórhækkaði í verði. Útkoman varð auðvitað sú, að eftir fyrsta gengislækkunarárið komu útvegsmenn og sögðu við stjórnarvöldin: Nú hefur allt alveg endastungizt, nú er allt orðið hálfu verra en það var áður. Nú fyrst höfum við stórkostlega tapað, og nú verðum við að fá nýjar stórfelldar uppbætur. —– Þá varð að grípa til nýrra ráða, og þá var bátagjaldeyriskerfið sett á, sem þýddi þá strax um 100 millj. í tekjuyfirfærslum til útgerðarinnar eftir þeirri leið.

Það er svo sem von, að hv. þm. N-Ísf. og aðrir. sem að þessari löggjöf stóðu, hælist nú um á eftir yfir því, hvað þeir hafi verið að gera útveginum mikinn greiða með þessari lagasetningu. Það var öllum vitað, að þessi lagasetning, eins og hún kom fram, var þannig úr garði gerð, að hún hlaut að verða ýmsum aðilum í landinu til stuðnings, en hún gat ekki orðið sjávarútveginum til stuðnings, eins og málin þá orðið lágu.

Þegar hér hafa legið fyrir á Alþingi till. frá ríkisstj. á undanförnum árum til þess að mæta vandræðum sjávarútvegsins og greiða úr þeim vandamálum, hefur mín afstaða alltaf verið sú, að ég hef ekki dregið í efa, að sjávarútvegurinn hafi þurft a.m.k. á því að halda, sem þar hefur verið gert ráð fyrir að styðja hann með. Hins vegar hefur verið uppi ágreiningur um það, og hann var eins til á þessu ári, hvernig ætti að afla fjár til stuðnings sjávarútveginum. Þegar t.d. fyrir rúmu ári þáverandi ríkisstj. ákvað að leggja á rúmlega 2d10 millj. kr. í nýjum tollum og sköttum, þá var ég algerlega andvígur því, hvernig þeirra tekna var aflað. Ég taldi, að það ætti að afla þeirra tekna á allt annan veg, og ég flutti um það brtt. hér á Alþingi, sem auðvitað þm. N-Ísf. og aðrir fleiri felldu. Þeir vildu afla teknanna á enn annan veg. Þeir vildu t.d. fara þá leið, sem þá var farin, að hækka innflutningstolla á yfirleitt öllum vörum, þörfum og óþörfum, að jöfnum hluta. Sú leið var valin fyrir rúmu ári. Vitanlega hlaut hún að þýða það, að allar vörur í landinu hækkuðu óðfluga, og af því leiddi síðan, að vísitalan hækkaði, kaupgjald hækkaði, og afleiðingar af því skullu svo aftur á framleiðslunni rétt strax á eftir.

En að þessu sinni voru farnar talsvert mikið aðrar leiðir í þessum efnum. Nú þurfti að vísu að afla allmikilla tekna til stuðnings sjávarútveginum, og það var ekki nema eðlilegt, að það yrði enn þá ágreiningur um það, hvernig teknanna ætti að afla. Við því var í rauninni ekkert að segja. Það var ekkert við því að segja, þó að t.d. fulltrúar Sjálfstfl. væru á móti því, að þessara tekna yrði aflað til stuðnings sjávarútveginum m.a. með því að lækka álagningu heildsala og láta þá á þann hátt bera verulegan hluta af þessari skattlagningu. Við því var í rauninni ekkert að segja, það var vitanlega frjálst af sjálfstæðismönnum að hafa þá afstöðu. Þeir hafa hins vegar falið sig mjög á bak við það að viðurkenna, að þetta hafi verið þeirra afstaða. Ég taldi hins vegar fyrir mitt leyti, að þessi leið, að koma verulegum hluta af þessum álögum yfir á verzlunarstéttina, væri eðlileg. Það var líka mín skoðun, að það færi vel á því, að bankar landsins, sem höfðu grætt mjög verulega á undanförnum árum, m.a. á skiptum sínum við útveginn, yrðu látnir leggja fram nokkra fjárhæð í sambandi við aukna tekjuþörf sjávarútvegsins. Það var alveg vitað mál, að Sjálfstfl. var á móti því að leggja þetta á bankana. Við vorum hins vegar ýmsir á annarri skoðun, og ég er reyndar á þeirri skoðun, að það hefði mátt leggja mun meira á bankana en gert var. Ég var líka alveg sannfærður um, að það var réttmætt að reyna að koma verðlagsmálunum þannig fyrir, að t.d. olíufélögin í landinu og ýmsir aðrir tækju á sig miklu stærri hlut en þau hafa verið látin taka á sig á undanförnum árum í sambandi við þessa tekjumillifærslu. Það hefur verið gert nú, en það hefur svo sem ekki hlotið neitt lof Sjálfstfl., nema síður sé.

Það er rétt að viðurkenna það, eins og það er, að þegar menn standa frammi fyrir þeim vanda, að það þarf að auka tekjur sjávarútvegsins, ef hann á að geta starfað með eðlilegum hætti, þá er ekkert óeðlilegt, að það séu uppi skiptar skoðanir um, hvar eigi að taka þetta viðbótarfé, sem sjávarútvegurinn þarf. Og um það hafa deilurnar staðið á undanförnum árum, hvar ætti að taka þetta fé, og um það standa þær raunverulega í dag. Ég býst við því, að ágreiningur minn við hv. þm. N-Ísf. og fleiri sjálfstæðismenn sé ekki um það í sjálfu sér, að sjávarútvegurinn hafi ekki þurft á því aukna fé að halda, sem honum var ætlað nú, með þeim ráðstöfunum, sem samþykktar voru hér fyrir áramótin. En ágreiningurinn er um hitt, hver áttí að leggja fram féð, hvernig átti að afla þess. Sjálfstfl. þorði ekki að birta neina till. um það, hvernig átti að útvega það fé, sem hann taldi þó að sjávarútvegurinn þyrfti að fá, og hann hefur ekki enn þá fengizt til þess að segja, hvernig átti að afla þessa fjár.

En ef til vill vill nú hv. þm. N-Ísf., fyrst hann hefur nú farið að ræða um þessi mál, skýra frá því hér í þessum umr., hver hans leið var og hvernig hann vildi standa að þeim málum.

Það er svo vitanlega mikill misskilningur og vægilega til orða tekið að halda því fram, að ríkisstj. hafi í þessum ráðstöfunum sínum til stuðnings sjávarútveginum komið hér fram ú Alþ. með nákvæmlega ekki neitt. Hið rétta er það, að hún kom fram með till., sem þýddu stórauknar tekjur fyrir hinar ýmsu greinar sjávarútvegsins. Það hafði verið metíð svo, að miðað við meðalafla togara mundu tekjur togarans aukast á ári um í kringum 1 millj. kr. við þessar ráðstafanir, og það hefði mátt búast við því, ef eðlilegt fiskirí hefði verið á togurum, að þá hefði togarareksturinn átt að geta borið sig eftir þessar auknu bætur, sem þarna voru samþykktar, að öllu eðlilegu. Svipað var þetta með bátaflotann, að þar voru lögfestar bætur, sem voru allverulega miklar.

Þetta atriði, að staglast svo sí og æ á því, að ríkisstj. hafi verið að leggja á þjóðina svona og svona miklar álögur, — vitanlega þýðir ekki að neita því, að ef á að færa sjávarútveginum viðbótartekjur, sem nema 160–180 millj. kr. á ári, þá verður að taka þessar tekjur einhvers staðar. Það er ekki verið að leggja þær neitt sérstaklega á þjóðina. Þarna er um greinilega millifærslu að ræða. Það er verið að færa þetta yfir til sjávarútvegsins og einhverjir verða að borga. Sjónarmið Sjálfstfl. hefur alltaf verið það: Almenningur í landinu verður að borga, verkamenn, sjómenn og aðrir slíkir, þeir hafa pressað út of hátt kaup, þeir verða að skila þessu aftur. Þetta hefur verið sjónarmið Sjálfstæðisfl. Þeir hafa viljað ná þessu aftur, ef ekki með beinni kauplækkun, þá a.m.k. með því að hækka almennt vöruverð í landinu og ná þessu þannig aftur.

Við margir höfum verið á móti þessari skoðun og talið, að þessara tekna ætti að afla með talsvert öðrum hætti, m.a. þeim hætti, sem nú var farið eftir og Sjálfstfl. ætlar alveg að ærast út af.

Svo segir hv. þm. N-Ísf., að meira að segja Alþýðusamband Íslands hafi mótmælt alveg þessum álögum, það hafi verið búið að lýsa því yfir, að það samþykkti engar nýjar álögur. Hv. þm. hefði nú mátt muna, að það var einmitt Alþýðusamband Íslands og mjög fjölmenn ráðstefna á vegum verkalýðssamtakanna í landinu, sem beinlínis samdi við ríkisstj. um, að svona skyldi málið leyst, fór yfir allar till. frá grein til greinar og samþykkti alveg þær aðgerðir, sem þarna voru síðan samþykktar.

Þá endurtók hv. þm. N-Ísf. það, að ríkisstj. hefði hafið stríð með flutningi þessa frv. á hendur framleiðendum í landinu og að ríkisstj. stæði nú í stríði við framleiðendur með því að hugsa sér að breyta nokkuð um skipulagshætti í afurðasölumálunum. Þetta er mesti misskilningur. Ríkisstj. hefur ekki átt í stríði við nokkurn framleiðanda. En hinu skal ekki neitað, að hér hefur verið uppi nokkur styrjöld, svona eins og gengur í málþófi og skrifum á milli flokka, en stríðið hefur verið milli mín annars vegar og hverra? Morgunblaðsins hins vegar, Vísis og nokkurra helztu foringja Sjálfstfl. hér á Alþ. Þetta eru aðilarnir, sem stríðið hefur staðið við. Það hefur ekkert stríð verið við framleiðendur, það er mesti misskilningur. Mér er ekki kunnugt um, að nokkur framleiðandi hafi nokkurs staðar komið hér fram með skrif um þessi mál eða flutt neinar ræður, og ekki hafa þeir komið á minn fund á nokkurn hátt til þess að mótmæla því, sem hér er gert, enda eins og ég hef sagt hér áður í umr. um málið, að þegar samningar voru gerðir um áramótin við samtök útvegsmanna um rekstrargrundvöll þeirra á þessu árí, þá kynntu þeir sér það frv. um breytingu á afurðasölulögunum, sem hér liggur fyrir, þeir lásu það yfir frá orði til orðs, og eftir að hafa kynnt sér það, neituðu þeir foringjum Sjálfstfl. um að setja fram skilyrði fyrir samkomulagi um áramótin um það, að þetta frv. yrði ekki lagt fram.

Þetta liggur allt saman fyrir. Það stendur því alveg fyllilega, sem ég hef sagt, að foringjar Sjálfstfl. hafa verið óþreytandi í því frá því í haust og þangað til nú, þeir hafa barist um á hæl og hnakka að reyna að fá framleiðendur út í stríð við ríkisstj., neita eðlilegu samkomulagi við ríkisstj. um lausn á vandamálum sjávarútvegsins nú um áramótin, ef það ætti að láta saltfisksölufyrirtæki það, sem sjálfstæðismenn hafa mjög hreiðrað um sig í, búa við sömu reglur varðandi afurðasöluna og önnur framleiðendasamtök hafa þurft að búa við. En þessar tilraunir sjálfstæðismanna hafa sem sagt ekki borið neinn árangur, og ég er ekki með neinn kviða út af því, að það hefjist út af þessum málum neitt stríð á milli mín og samtaka framleiðenda, nema ég veit það, að Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, sem selt hefur saltfiskinn, eða forustuliðið þar er óánægt, það vill halda í sín sérréttindi, og ég skil það mætavel. En ég held hara, að þeir verði að sætta sig við það að lúta sömu reglum og aðrir.

Það er því alger blekking að halda því fram, að með þessu frv. sé verið að gera tilraun til þess að hrjóta niður það söluskipulag, sem framleiðendur hafa byggt upp hjá sér sjálfir. Hér er ekki á neinn hátt verið að brjóta niður það skipulag, sem framleiðendur hafa byggt upp hjá sér sjálfir með eðlilegum hætti. Hér er einmitt verið að gera ráð fyrir því, að framleiðendasamtök geti tekið eðlilegan þátt í sölu afurðanna, en þau verða að sætta sig við það að lúta opinberu eftirliti, öll eins og öll sömu reglum.

Ég hafði farið hér nokkrum orðum áður um þau mótmæli, sem borizt hafa frá nokkrum samtökum gegn þessu frv., og hirði nú ekki að fara út í það frekar. En hér hafði hv. þm. N-Ísf. farið að endurtaka það, að Fiskifélagið hefði raunverulega mótmælt frv. í umsögn sinni. Þetta er vitanlega algerlega rangt, það gerir Fiskifélagið ekki, það hefur ekki mótmælt þessu. Það getur hver sá séð, sem les umsögn þeirra. En lokaorðin í umsögn Fiskifélagsins eru á þessa leið, svo að þau séu öll lesin og undandráttarlaust: „Svo sem segir í athugasemdunum, er meginhluti útflutnings fiskafurðanna í höndum samtaka framleiðenda sjálfra“, — það stendur beinlínis í athugasemdum frv., þeir eru að vitna í það, — „eða aðila, sem studdir eru af þeim, og hefur svo verið um langa hríð. Telja verður, að þetta fyrirkomulag hafi sannað gildi sitt, enda er ekki kunnugt um annað en framleiðendur yfirleitt hafi talið það henta sér bezt. En hvergi nokkurs staðar er að finna í umsögninni bein mótmæli gegn frv.

Ég hef bent á það hér áður, og hv. þm. N-Ísf. hefur hins vegar ekki vikið að því einu einasta orði, að þegar þessir sömu framleiðendur áttu að byggja sér upp nýtt söluskipulag nú fyrir skemmstu í sambandi við skreiðina, í sambandi við sölu á skreið, þá óskuðu þeir alls ekki eftir því að byggja það upp á sama hátt og Sölusamband ísl. fiskframleiðenda hefur verið varðandi saltfiskútflutninginn. Þeir óskuðu ekki eftir því, að samlag skreiðarframleiðenda yrði gert að einkaútflytjanda. Og formaður Sjálfstfl., Ólafur Thors, sem einna mest hefur barizt gegn þessu frv., játaði í umr. í Nd., að hann hefði boðið framleiðendum upp á það að fá einkaréttaraðstöðu fyrir skreiðarsamlagið til útflutnings á allri skreið, en hann sagði, að framleiðendur hefðu ekki viljað það; og þá gat hann ekki, eins og hann orðaði það,farið að þvinga slíkt skipulag upp á framleiðendur. Framleiðendur höfðu sem sagt kynnzt því af reynslunni, að það var mjög eðlilegt, að það gæti komið til fleiri en einn útflytjandi að sömu vörum, og það væri heilbrigt að hafa þar nokkurt aðhald með takmarkaðri samkeppni, slíkt væri aðeins heilbrigt, og það er einmitt það skipulag, sem hér er lagt til að taka upp með þessu frv. Það er einmitt það, sem framleiðendur sjálfir hafa kosið sér varðandi útflutning á skreið.

Hvernig stendur nú á þessu? Vill ekki hv. þm. N-Ísf. skýra þetta fyrirbæri? Hvernig stóð á því, að skreiðarframleiðendur töldu ekki alveg nauðsynlegt að fenginni reynslu frá saltfisksölunni að óska eftir einkaréttaraðstöðu varðandi útflutning og sölu á skreið? Hvernig stóð á því?

Að því hefur ekki verið vikið hér nánar í umr., en ég hef á það minnzt, að það verður að teljast mjög óeðlilegt, að aðeins einn maður fari með það mikla vald að veita útflutningsleyfi, eins og nú er gert, og ráða um sölu á hinum einstöku útflutningsvörum sjávarútvegsins fyrir útflutning, sem nemur mörg hundruð millj. kr. En núna eru allar þessar leyfisveitingar í höndum eins manns varðandi útflutning á öllu mjöli, öllum frosnum fiski og allri skreið. Ég hygg, að það séu flestir á þeirri skoðun, að það sé miklu eðlilegra að skipa þessu á fastari hátt, ákveða þarna fasta þriggja manna nefnd, sem stjórni þessum málum, gefi út þessi útflutningsleyfi og setji þau skilyrði, sem n. telur eðlilegt að setja varðandi hverja einstaka sölu um sig.

Hvernig stendur á því, að hv. þm. N-Ísf. minnist ekki á þetta atriði, en þetta er þó eitt af meginatriðum frv.?

Ég skal svo að lokum aðeins draga saman það, sem ég tel vera höfuðatriði varðandi efni frv., eins og það liggur hér fyrir.

Sú skipulagsbreyting, sem hér er gert ráð fyrir að taka upp, er í því fólgin í fyrsta lagi að skipa sérstaka þriggja manna nefnd, sem hafi yfirstjórn útflutningsmálanna með höndum, sem verður bæði ríkisstj. til ráðuneytis varðandi afurðasöluna sem heild, veiti öll útflutningsleyfi og kynni sér, eftir því sem aðstæður leyfa, horfur og útlit í markaðslöndunum. Á þessu er núna ekkert fast skipulag, það hefur verið settur einn maður til þess að stjórna þeim þættinum, sem lýtur að því að gefa út útflutningsleyfi, en engin föst stjórn er á þessum þætti þessara mála.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að allar greinar sjávarútvegsins skuli búa við sams konar reglur varðandi útflutning og sölu á sínum afurðum, að engin grein búi við sérréttindi, að t.d. félag saltfiskframleiðenda hafi ekki einkaréttaraðstöðu, á sama tíma sem félag skreiðarframleiðenda eða félagssamtök annarra fiskframleiðenda hafa ekki slík réttindi, að samræma reglurnar, láta eitt gilda yfir alla.

Í þriðja lagi, sem einnig er mjög mikilvægt atriði, séu allar þessar greinar háðar því meginskilyrði að verða að lúta opinberu eftirliti um framkvæmd afurðasölumálanna, að þessi opinbera n. geti krafizt þess af þeim samtökum, sem fara með afurðasölumálin, að þau leggi sína reikninga á borðið, sé þess óskað, gefi upplýsingar um það, hvernig afurðasölumálunum hefur verið háttað í framkvæmd. Þetta eftirlit er vissum samtökum mjög illa við. Þau vilja fá fyrir fram til eins árs í senn einkaleyfisaðstöðu og vera án alls eftirlits, þó að síðan haldi áfram þrotlausar deilur í blöðum og flokka á milli um það, hvernig hefur verið haldið á framkvæmd málanna. Ég held, að þetta opinbera eftirlit sé eðlilegt og það sé réttmætt að taka það upp, og það ætti að tryggja betur framkvæmd þessara mála en verið hefur og tryggja almenningshag.

Ég vil svo að lokum geta þess, að það skipulag, sem hér er lagt til að taka upp, er tekið alveg nákvæmlega upp eftir þeim reglum, sem gilda í Noregi um sölu sjávarafurða þar. Þetta er norska kerfið tekið upp hér; það er ákveðið að fara inn á það í öllum meginatriðum. Var stuðzt við samningu þessa frv. við norska löggjöf og tekin þar upp öll meginatriði, nema í norsku l. eru þó öll ákvæði enn harðari og sterkari varðandi hið opinbera eftirlit með framkvæmd laganna.

Þetta er nú það efni, sem frv. rannverulega snýst um. Það er ekki verið að fara fram á það að gefa ráðh. í hendur neitt aukið vald við það, sem hann hefur nú. Ráðh. gæti sett upp þetta skipulag án þess að sýna þetta frv. En ég taldi, að það væri miklu eðlilegra að láta Alþ. segja til um það, hvort það er samþykkt því að breyta skipulagi þessara mála frá því, sem verið hefur, á þá lund, sem ég hef nú hér gert grein fyrir, en notfæra mér ekki það ótakmarkaða vald, sem er þó til í l., frá því að lög voru um þetta sett í skyndi á stríðsárunum.

Hver sem athugar þessi atriði út af fyrir sig, sér svo, að það er vitanlega algerlegur útúrsnúningur að reyna að halda því fram, að hér sé á ferðinni löggjöf, sem miði að því að brjóta niður samtök framleiðenda. Þvert á móti gera lögin á allan hátt ráð fyrir því og um það hafa verið gefnar hér margar og endurteknar yfirlýsingar á Alþ., að tilætlunin er sú, að samtök framleiðenda, sem vilja vinna að sölu afurðanna, geti starfað áfram með eðlilegum hætti. Og ef framleiðendur í einni grein eru svo samtaka um sín félagssamtök, að þeir vilji þar allir vera, og vilja allir fela þeim samtökum að selja sínar framleiðsluvörur, þá kemur það af sjálfu sér, að það verða þessi framleiðendasamtök, sem ein fá útflutningsleyfi, en lúta hins vegar opinberu eftirliti.

Ég læt svo mínu máli lokið um þetta. Hitt getur svo vitanlega haldið áfram lengi, að þreyta kapp við þá Morgunblaðsmenn um ýmis almenn atriði stjórnmálalegs eðlis, þau sem þeir vilja nú vefja inn í þetta mál í allri baráttu sinni fyrir því að reyna að halda áfram þeim sérstöku fríðindum, sem þeir hafa á vissan hátt náð undir sig í víssum samtökum í sambandi við afurðasöluna.