15.03.1957
Efri deild: 70. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. úr þessu. Ég veit, að hv. dm. hafa veitt því eftirtekt, að hæstv. ráðh. viðurkennir enn það, sem hann sagði í upphafi, þegar hann lagði þetta mál fram, að hann teldi sig hafa í gildandi lögum óskorað vald til að setja sérhverjar þær reglur, sem þyrfti varðandi útflutning sjávarafurða. En ráðh. bætti því við nú, að hann kvaðst ekki vilja einn hafa svona mikið vald. Þetta voru hans orð. Hann vildi sem sé dreifa valdinu. Þetta væri nú gott og blessað út af fyrir sig, ef ráðh. sýndi í verki, að þetta væri hans meining.

Í frv. sjálfu kemur ekkert fram, sem bendir til þessa, annað en það, að mennirnir, sem eiga að vera ráðh. til aðstoðar, verða þrír í staðinn fyrir einn nú. En ráðherra getur samkv. gildandi lögum haft þá þrjá án breytinga samkv. þessum lögum. Hann getur það auðveldlega. Ef ráðh. vildi létta af sér einhverju valdi í sambandi við þetta mál, þá er nær að spyrja: Hví í ósköpunum lagðist hann gegn brtt. á þskj. 333, sem fram kom í hv. Nd., þar sem lagt var til, að Sþ. kysi hlutbundinni kosningu menn í þessa n., sem eigi að hafa þetta mikla vald, í stað þess í frv., að ráðh. vill einn skipa þá? Hvers vegna gerir hann ekki þetta, ef hann vill létta af sér einhverju af þessu valdi?

Ég saknaði þess í hinni löngu ræðu hæstv. ráðh., að hann ræddi ekki þá afstöðu Sambands ísl. samvinnufélaga, sem það hefur tekið nú til þessa máls. Ég benti á það í minni fyrri ræðu, að aðstaða Sambandsins hefði verið með þeim hætti að þessu sinni, að það gat að sjálfsögðu treyst því að geta fengið löggildingu fyrst allra aðila til sölu sjávarafurða í stærra mæli en það nú hefur. En hvað gerir Sambandið og það eftir að frv. hæstv. ráðh. kom fram? Það beinlínis skrifaði Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda og óskaði að vera áfram í samtökum þess. Hvernig ber að skilja þetta? Er hægt að skilja þetta á annan veg en að S.Í.S. treystir ekki hæstv. ráðh. til þess að fara með þessi mál, þannig að vel fari? Ég get ekki skilið það öðruvísi. Það væri æskilegt, að hv. þm. Framsfl. hér í þessari hv. d. leggi sér á minni þessa afstöðu Sambandsins, því að hún er skýrt og glöggt merki þess, að Sambandið hefur ekkert traust á þessu brölti hæstv. ráðh.

Ég skal svo af minni hálfu láta útrætt um málið að þessu sinni.