15.03.1957
Efri deild: 70. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Ég sé, að hv. þm. N-Ísf. (SB) hefur gaman af orðaleikjum, og verður hann vitanlega að halda áfram við það, svo lengi sem hann vill. Ég sagði um afstöðu Alþýðusambandsins, að Alþýðusambandið hefði beinlínis samþ. þá löggjöf, sem hér var sett. Þetta er rétt. Hv. þm. getur ekki borið á móti því.

En hitt var svo aftur það, sem ég hafði líka greinilega fram tekið, að í sambandi við þá tekjuöflun, sem fram þurfti að fara til stuðnings sjávarútveginum, voru vitanlega uppi mismunandi skoðanir á því, hvaðan tekjurnar ættu að koma.

Þegar Alþýðusambandið hafði kynnt sér það, hvernig teknanna átti að afla að þessu sinni, þá féllst það á þessa tekjuöflun og taldi, að hér væri ekki um lífskjaraskerðingu að ræða, og vildi samþykkja þetta, en hins vegar hafa forustumenn Sjálfstfl. ekki viljað una við þessa tekjuöflunarleið, og það skilur á milli, annað ekki.

Viðvíkjandi svo þessum einkennilega reikningi hv. þm. N-Ísf. um hið útflutta saltfiskmagn, þá er það alveg augljóst mál, hvað á milli ber. Það sé ég nú. Hann leggur nefnilega einfaldlega saman útflutningsmagnið á óverkuðum saltfiski, sem hv. þm. hlýtur að vita alveg full skil á hvað er, og á verkuðum fiski, þurrum, Brazilíu-hertum saltfiski, en þetta er ekki eitt og hið sama. Það þarf nefnilega að breyta kílóaþunganum, sem upp er gefinn í sambandi við Brazilíu-verkaða fiskinn. Þegar reiknað er með 8600 tonnum af Brazlíuverkuðum fiski, þá jafngildir það á milli 15 og 16 þús. tonnum af óverkuðum fiski, og það er slík tala, sem á að leggjast við óverkaða fiskinn, því að svona er ekki hægt að reikna eins og hv. þm. gerir. Hans samlagning á þessu er byggð á miklum misskilningi, en þær tölur, sem ég gaf hér upp, eru fullkomlega réttar.

Þá minntist hv. þm. á, að það væri ekki lengra siðan en nú 28. febr., að Landssamband ísl. útvegsmanna hefði boðað hér til fundar út af vandamálum sjávarútvegsins og þar m.a. samþ. áskorun á ríkisstj. um að reyna að sjá um, að útflutningssjóður fengi nægilegar tekjur nú strax til þess að standa við allar skuldbindingar sínar.

Mér hefur vitanlega aldrei komið til hugar að halda því fram, hvorki fyrr né síðar, að öll vandamál sjávarútvegsins hafi verið leyst með því samkomulagi, sem gert var við útvegsmenn nú um áramótin, síður en svo, og okkur var það fyllilega ljóst, að það mátti búast við því, að sá stóri og mikli skuldahali, sem myndazt hafði frá því skipulagi, sem ríkt hafði á undanförnum árum varðandi stuðninginn við sjávarútveginn, yrði ekki allur greiddur upp á samri stundu og þessi lög höfðu tekið gildi. Þetta var öllum ljóst, sem eitthvað þekktu til þessara mála. Ég veit líka, að útvegsmenn viðurkenna, að á þeim tveimur mánuðum, sem liðnir eru, síðan lögin tóku gildi, hefur verið vel að því unnið að greiða upp gömlu skuldirnar, sem safnazt höfðu með því kerfi, sem í gildi var áður, en útflutningssjóður hefur borgað útvegsmönnum hverja eina og einustu krónu, sem þeir áttu að fá samkvæmt lögunum, hverja einustu krónu vegna útflutnings, sem tilheyrði þessu ári. Og þegar þessi fundur var haldinn, hafði sjóðurinn borgað rétt rúmlega 40 millj. kr. upp í gamla skuldahalann, sem var frá tíð fyrrv. ríkisstj., sem hljóp frá þessu öllu á þá lund, að stórar skuldir stóðu þar eftir, og útvegsmenn vitanlega kvörtuðu undan því að fá það ekki greitt. Á þessum tveimur mánuðum hafði útflutningssjóður greitt sem sagt allar sínar skuldbindingar tilheyrandi útflutningi þessa árs og rúmlega 40 millj. upp í gamla skuldahalann. En eigi að síður voru þó eftir um þetta leyti liggjandi kröfur upp á nærri 14 millj. kr. Og vitanlega hefði verið ákaflega æskilegt, að tekjur útflutningssjóðs hefðu verið svo miklar, að hægt hefði verið í febrúarlok að borga upp allar gömlu vanskilaskuldirnar.

En ég ætla að segja það, að hv. þm. N-Ísf. og aðrir þeir, sem meir bera ábyrgð á því kerfi, sem hér var ríkjandi áður, heldur en ég ber, varðandi bátagjaldeyrisfyrirkomulagið og framleiðslusjóðinn, ættu að ásaka einhvern annan um það fremur en mig, að þessi skuldahali er ekki að fullu upp greiddur strax á eftir. Þeir mega sjálfum sér um kenna að hafa haft í gildi þau lagaákvæði, sem lofuðu útvegsmönnum verulegum greiðslum, sem tekjur voru ekki útvegaðar á móti til þess að standa undir, og því höfðu þarna safnazt verulegar skuldir.

Landssamband ísl. útvegsmanna þurfti ekki undan því að kvarta á neinn hátt og hefur ekki heldur gert við mig, að það hafi ekki verið að öllu leyti staðið við það, eftir því sem þessi lög gáfu tilefni til, að reyna að borga upp þessar vanskilaskuldir. Hitt var svo annað mál, að vegna þess, að tveir fyrstu mánuðir af þessu ári hafa verið erfiðir fyrir sjávarútveginn í rekstri, hlutu þeir vitanlega að leggja enn meiri áherzlu á það, að ríkisstj. útvegaði fé nú þegar til þess að greiða upp þessar gömlu vanskilaskuldir til viðbótar við það, sem útflutningssjóður þegar hefur gert.

Enn fremur var þetta svo nátengt því, að það hefur ekki í tíð þessarar stjórnar frekar en annarrar verið neitt auðveldur hlutur að koma því svo fram, að bankar landsins, þar sem sjálfstæðismenn ráða þó meiri hluta í, vildu fallast á sjónarmið útvegsmanna um lánveitingar út á þá framleiðslu, sem til er fallin hverju sinni. Og hefðu bankarnir orðið við óskum ríkisstj. og útvegsmanna í þeim efnum, þá hefði vitanlega verið hægt að borga þessar gömlu skuldir upp að fullu fyrir þennan fund, svo að í þeim efnum geta sjálfstæðismenn líka sjálfum sér um kennt fremur en öðrum.

Og svo kemur þessi merkilega afsökun, sem þeir sjálfstæðismenn alltaf hafa á reiðum höndum í sambandi við það, þegar lýst er eftir till. þeirra varðandi lausn á vandamálum sjávarútvegsins, að þeir geti ekkert sagt um það, hvað átti að gera fyrir bátaútveginn, togaraflotann í landinu og aðrar framleiðslugreinar, vegna þess að þeir hafi ekki fengið að sjá einhver rannsóknarskjöl, sem tveir erlendir hagfræðingar, sem hingað komu, hafa samið eftir tveggja vikna dvöl hér í landinu.

Flokkur, sem hefur verið í ríkisstj. samfleytt síðustu 17 árin, hefur stjórnað sjávarútvegsmálunum allt fram að síðustu dögum, getur ekki myndað sér neina skoðun á því, hvað á að gera í málefnum sjávarútvegsins, vegna þess að hann hefur ekki fengið þessa skyndiskýrslu þessara tveggja útlendinga. Ýmsu má nú bregða fyrir síg. (Gripið fram í.) Nei, það var hreint ekkert gagn að skýrslunni varðandi lausn á þessum málum, því að það lá nefnilega alveg ljóst fyrir hjá öllum, sem til þekktu, að skjöl útvegsmanna höfðu legið á borðinu hjá ríkisstj. fyrr en þessari og allar upplýsingar um það, hvernig þar var ástatt. Það voru uppi skiptar skoðanir um það, í fyrsta lagi, að hve miklu leyti ætti að mæta þessum kröfum. Það hefur verið á undanförnum mánuðum, og það gátu engir tveir útlendingar sagt okkur neitt nýtt í því, hvað ætti að ganga langt til móts við kröfur útvegsmanna, það voru þeir ekki eins færir um og við að segja, og enn fremur var uppi ágreiningur um það, hvernig ætti að afla fjár til þess að mæta þessum auknu kröfum útvegsins.

Útlendingarnir hafa eflaust haft sínar skoðanir á því, hvernig mætti afla fjárins, en Sjálfstfl. er sem sagt svo gersamlega á þrotum með eðlilega hugsun í þessum málum, að sjálfur getur hann ekki fundið út úr því á neinn hátt, hvernig eigi að afla tekna til þess að standa undir þörfum útvegsins. Sjálfur hefur hann enga skoðun á því.

Sannleikurinn er nú sá, að Sjálfstfl. hefur nú, þegar betur er að gáð, skoðun á málinu, það hefur hann sýnt á undanförnum árum. Hann hefur alveg skýra skoðun á því, hvernig átti að afla teknanna, og hann hefði ekki verið í neinum vandræðum með það, ef hann hefði haft meirihlutaaðstöðu á Alþingi, að koma fram með þá skoðun. Skoðun hans hefur nefnilega verið sú og er sú, þó að hann telji ekki hagstætt fyrir sig að flíka því núna í stjórnarandstöðu, að teknanna hefði átt að afla annaðhvort með almennri gengislækkun, sem hefði þýtt stórkostlega lífskjaraskerðingu í landinu hjá vinnandi fólki, almenningi, eða þá á þann háttinn, sem mjög verkar á sömu lund, að leggja á tolla eða skatta, sem ganga jafnt yfir allan vöruinnflutning til landsins og kemur niður á almenningi á sama hátt.

Þetta hefur verið skoðun Sjálfstfl., og ég veit, að þetta er skoðun Sjálfstfl., en hann telur hins vegar ekki heppilegt að flíka þessari skoðun núna í stjórnarandstöðunni, því að hann þarf á því að halda núna að segja við launafólk: Það er verið að leggja á ykkur skatta, nú eru vörurnar að hækka. — Og það er ekki vel gott að kvarta undan því, áð vörurnar séu að hækka í verði, á sama tíma og maður tilkynnir, að maður hefði annars verið með till. um almenna gengislækkun, sem hefði þýtt stórkostlega vöruverðshækkun í öllum greinum í landinu.

Það er þessi feluleikur Sjálfstfl. að þora ekki að segjast vera raunverulega með um að leysa þetta á þennan hátt, sem gerir hann hlægilegan, þannig að hann verður að standa frammi fyrir þjóðinni og játa það, að hann hafi engar till. getað lagt fram í sambandi við vandamál sjávarútvegsins, vegna þess að hann hafi ekki fengið að sjá tilteknar skyndiskýrslur, sem tveir útlendingar sömdu varðandi efnahagsmálin á tveggja vikna tímabili, sem þeir dvöldu hér.

Fleiri atriði hafa ekki komið hér fram, sem ég tel að skipti neinu verulegu máli varðandi þetta frv. Framhaldsumr. fara hér eflaust fram um það, þegar málið kemur hér aftur úr nefnd.