06.12.1956
Sameinað þing: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2291 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

Endurskoðun varnarsamningsins

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég óska þá, að það verði gefið fundarhlé og hæstv. utanrrh. láti Sjálfstfl. í té þau gögn, sem hér er um að ræða, og við fáum fundarhlé fram yfir matartíma til íhugunar málsins og að skoða þau plögg, sem fyrir hendi eru.

Að öðru leyti vil ég taka það fram, að ég efast ekki um, að það sé rétt hjá hæstv. utanrrh., að skjöl málsins hafi ekki gengið á milli annarra þingflokka. Hitt veit ég, að aðrir þm. hafa átt kost á því að kynna sér meginefni málsins, og ég er út af fyrir sig ekki að setja neitt út á það. Það er eðlilegt, að stjórnin þreifi fyrir sér hjá sínum mönnum um það, hvað hún er að semja. En það bara sýnir, að það er mismunur, eðlilegur mismunur á þeirra þingmannaaðstöðu og okkar, sem í stjórnarandstöðu erum. Jafnframt er það sjálfsagt, úr því að málið er tekið til umr. á annað borð á Alþingi, þá sé okkur gefinn kostur á því að lesa yfir það, sem umr. hljóta að byggjast á, ef þær eiga að halda áfram. Og ef hér áttu ekki að verða umr., var ástæðulaust að boða til fundarins, heldur var hægt að gefa tilkynninguna með öðru móti. — [Fundarhlé].

Einar Olgeirsson: Herra forseti. Það er skiljanlegt, að á svo skömmum tíma sem við höfum haft til athugunar þeirra samninga, sem hér eru til umr., er ekki hægt að átta sig á þeim til hlítar. Það er eðlilegt. Gerð þeirra tók tímann frá 20.–24. nóv., og síðan er komið í ljós, að annar aðilinn hefur þurft 12 daga, að því er mér skilst, til þess að átta sig á þeim af sinni hálfu, og er því ekki nema von, að ekki sé til hlítar hægt að sjá, hvað hér er um að ræða, á einum tveimur klukkustundum, eins og við höfum hér fengið til umráða, eða 2–3 klukkustundum.

Ég vil þó að undangenginni þessari litlu athugun endurtaka þakklæti mitt til hæstv. utanrrh. fyrir það að hafa náð þeim megintilgangi, sem við sjálfstæðismenn stefndum að með tillögum okkar fyrir nokkrum vikum í þá átt að tryggja varnir landsins. Í þessu samkomulagi, sem nú liggur fyrir, er skýrt tekið fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Viðræðurnar hafa leitt til samkomulags um, að vegna ástands þess, er skapazt hefur í alþjóðamálum undanfarið, og áframhaldandi hættu, sem steðjar að öryggi Íslands og Norður-Atlantshafsríkjanna, sé þörf varnarliðs á Íslandi samkv. ákvæðum varnarsamningsins.“

Þetta orðalag eitt út af fyrir sig er ómögulegt að skilja á annan veg en þann, að viðurkennt sé af hæstv. ríkisstj., að úr gildi sé fallin ályktun Alþingis frá 28. marz 1956, enda er ljóst, að forsendur hennar og það, sem átti að ná með henni, er ómerkt með þeim orðum, sem ég áðan las, en síðari hluti þál. frá 28. marz hljóðar svo:

„Með hliðsjón af breyttum viðhorfum, síðan varnarsamningurinn frá 1951 var gerður, og með tilliti til yfirlýsinga um, að eigi skuli vera erlendur her á Íslandi á friðartímum, verði þegar hafin endurskoðun á þeirri skipan, sem þá var tekin upp, með það fyrir augum, að Íslendingar annist sjálfir gæzlu og viðhald varnarmannvirkja, þó ekki hernaðarstörf, og að herinn hverfi úr landi. Fáist ekki samkomulag utan þessa breyt., verði málinu fylgt eftir með uppsögn samkv. 7. gr. samningsins.“

Nú er viðurkennt, að þörf sé varnarliðs á Íslandi samkv. ákvæðum varnarsamningsins, og þar með er þá orðið ljóst, að sú fyrirætlan að láta varnarliðið hverfa á brott og hvað þá að fylgja því eftir með uppsögn samningsins er niður fallin.

Þetta er mjög mikilsverð staðreynd, og ég játa, að þó að ég sé núv. stjórn andstæður, þá tel ég, að hæstv. utanrrh. eigi þakkir alþjóðar fyrir það að hafa fengið þessu framgengt.

Hitt er svo annað mál, að þó að meginatriðið hafi náðst og það sé mest um vert, þá er engu að síður nauðsynlegt að athuga önnur atriði í þessu sambandi, bæði gera sjálfum sér og öðrum ljóst, um hvað er verið að semja, og íhuga, hvort öll atriði þess samnings, sem gerður hefur verið, eru Íslendingum til hags eða ekki.

Utanrrh. sagði, að umr. við Bandaríkjamenn hefðu farið fram í vinsemd og af hreinskilni. Þessu trúi ég mjög vel. Mín reynsla af skiptum við Bandaríkjamenn þann tíma, sem ég fór með utanríkismál Íslands, er mjög í samræmi við þetta. Það var einmitt vegna þess, að Bandaríkin, þessi voldugu ríki, hafa ætíð samið við okkur Íslendinga, sem erum veikastir af öllum ríkjum, að þau hafa engu að síður samið við okkur sem jafningja, það er sú staðreynd, sem hefur gert það að verkum, að ég hef talið fært að hafa við þau jafnnáið samstarf og orðið hefur og sannarlega hefur leitt til góðs fyrir Íslendinga, eins og ég trúi að það hafi orðið til gagns og styrktar fyrir heimsfriðinn. Og ég tek því vissulega undir öll lofsyrði hæstv. utanrrh. um Bandaríkin og játa það með honum, að það er eðlilegt, að við minnumst sambúðar þeirra við okkur einmitt á þeim tímum, þegar okkur eru ríkt í huga hin ömurlegu örlög Ungverjalands, og þökkum guði fyrir að eiga ekki slíkan nágranna sem sú hetjuþjóð hefur orðið svo ógæfusöm að yfir hennar land hefur komizt.

Hreinskilnin gagnar okkur bezt, ekki aðeins í skiptum okkar við Bandaríkin, heldur við allar þjóðir og einnig í innbyrðis skiptum okkar Íslendinga, og þá verð ég að játa, að svo mikils sem ég met og viðurkenni þann meginárangur, sem hæstv. utanrrh. frá sjónarmiði Íslendinga hefur náð með samningsgerð sinni, verður að segjast eins og er, að samningarnir eru ekki að öllu leyti nógu ljósir. Samkv. orðum hæstv. utanrrh. og ég veit líka samkv. eðli hans sjálfs, kemur það ekki af skorti á hreinskilni, heldur af einhverjum öðrum ástæðum, og efast ég því ekki um, að hann verði fúslega við óskum mínum og annarra um að upplýsa nú þegar öll vafaatriði, sem strax eru komin í ljós, og önnur, eftir því sem efni gefst til.

Vegna umr. áðan verð ég þó nú þegar að taka fram, að það er auðvitað alger misskilningur, að atburðir síðustu vikna séu orsakir þess hættuástands, sem allir viðurkenna að nú sé í heiminum. Atburðirnir eru ekki orsakir hættunnar, heldur er það hættuástandið, sem er orsök þessara atburða. Atburðirnir eru aðeins merki um viðvarandi og áframhaldandi hættuástand, — hættuástand, sem því miður hefur staðið — það er óhætt að segja án þess að ýkja — allt frá lokum síðustu heimsstyrjaldar, þó að það hafi orðið mönnum mismunandi ljóst á mismunandi tímum, en hættuástand, sem engan veginn var úr sögunni í vor, jafnvel þó að menn þá hefðu nokkra von um þíðu í kalda stríðinu. En nú er komið á daginn, og það er breytingin, sem orðin er, að jafnvel þeir, sem af einhverjum ástæðum vildu vera bjartsýnir, treysta sér ekki til þess nú lengur. Þeir gera sér grein fyrir, að það var ekki um raunverulega þíðu eða hugarfarsbreytingu að ræða, heldur aðeins kalt hræsnisglott þess, sem undirbjó sig undir nýja árás á þá, sem næstir yrðu fyrir ógnarhramminum.

Við sjálfstæðismenn bentum á þessa hættu strax í vor og við allar umr., sem síðan hafa orðið um þetta mál, og Atlantshafsráðið tók einmitt skýrlega fram í umsögn sinni, að þrátt fyrir það, þótt sumt virtist betra en áður, þá væri hið raunverulega hættuástand enn fyrir hendi.

Ég verð að segja svipað og ég sagði við umr. um varnarmálatill. okkar sjálfstæðismanna á dögunum, að því miður reyndumst við, sem töldum, að fara bæri varlega, hafa rétt að mæla. Við hefðum áreiðanlega allir miklu fremur kosið, að þeir bjartsýnu hefðu haft að þessu sinni rétt fyrir sér. Á þetta verður nú að benda, ekki til að hælast um, heldur til þess, að við öll, hvert um sig, hér á Alþingi og með íslenzku þjóðinni, hugleiðum þetta mál af alvöru og lærum af reynslunni og skiljum hið rétta orsakanna samhengi.

Ég hjó í það, að hæstv. utanrrh. taldi hættuna nú stafa mest frá botni Miðjarðarhafsins, en síður og þó að vísu nokkra frá þeim atburðum, sem undanfarið hafa gerzt í Ungverjalandi.

Í einu af stuðningsblöðum hæstv. ráðh. hér í Rvík, því, sem stærsti stjórnarflokkurinn gefur út, sá ég nýlega, að mjög harðlega var deilt á grein um þetta efni í Alþýðublaðinu, þar sem haldið var fram, gagnstætt við það, sem hæstv. utanríkisráðh. vildi nú telja, að það væri meiri hætta og aðalhættan frá atburðunum í Ungverjalandi, en síður og þó einnig nokkur frá því, sem skeð hefur í Egyptalandi eða við botn Miðjarðarhafsins. Þetta stjórnarstuðningsblað lét svo sterklega um mælt, að það taldi skoðanir Alþýðublaðsins vera brjálæðisstefnu, og sagði, að því yrði ekki eða vart trúað, að sá væri með öllum mjalla, sem þessu héldi fram. Ég get um þetta hér vegna þess, að þetta stjórnarstuðningsblað gat þess jafnframt, að það væri hæstv. utanrrh. sjálfur, sem þetta hefði skrifað, og því verður ekki hjá því komizt að spyrja hæstv. ráðh.: Er hann þá ósammála þeim skoðunum, sem Alþýðublaðið hélt fram, ég hygg s.l. sunnudag, og almennt voru túlkaðar sem rökstuðningur við þá samþykkt, sem skömmu áður hafði verið gerð á flokksþingi Alþýðuflokksins? Er hann ósammála þeim skoðunum og þá nú orðið sammála því, að meginhættan stafi frá atburðunum við austanvert Miðjarðarhaf? Og ef svo er, að hann sé um þetta sammála því, sem að vísu hæstv. forsrh. hélt hér fram á dögunum, en vildi nú raunar eftir á skýra sem meira og minna mismæli af sinni hálfu, en alveg sérstaklega Þjóðviljinn og þess blaðs skoðanabræður hafa haldið fram, að meginhættan kæmi frá botni Miðjarðarhafs, — ef hæstv. ráðh. er þessu sammála, er hann þá einnig sammála félmrh. í þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. félmrh. gaf hér áðan, um það, að hann og hans flokksbróðir í stjórninni hefðu einungis fallizt á að fresta uppsögninni í nokkra mánuði? Er þetta aðeins sérskoðun þessara tveggja ráðh., að í þessum samningum sé aðeins um að ræða frestun í nokkra mánuði, eða er þetta sameiginleg skoðun allrar hæstv. ríkisstj.?

Þetta er mjög nauðsynlegt að menn fái vitneskju um nú þegar, því að það er rétt, sem hæstv. félmrh. heldur fram, að ef hér er einungis um að ræða frestun uppsagnar í nokkra mánuði, getur ekki komið til mála, a.m.k. ekki af hálfu Íslendinga, að leyft verði, og naumast heldur af hálfu Bandaríkjamanna, að þeir sæki um að ráðast í ný varnarmannvirki, hvorki á Keflavíkurflugvelli né annars staðar. Þess vegna verðum við að óska vitneskju um það frá hæstv. ríkisstj. í heild: Er hún sammála hæstv. félmrh., þegar hann segir, að ekki komi til greina, að slík mannvirkjagerð verði leyfð?

Þetta eru ekki aðeins fróðleiksatriði, heldur er ljóst af fyrri reynslu, að fyrir utan víðtækari áhrif, sem þetta hefur um varnir landsins, hlýtur það, hvort búast má við miklum framkvæmdum á þessum slóðum, aukinni atvinnu og öðru slíku, að hafa mjög mikil áhrif á þær ráðstafanir, sem gera á varðandi atvinnumál og atvinnuaukningu nú á næstunni. Þess vegna á Alþingi og almenningur kröfu á því, að úr þessu sé skýrt skorið og menn viti, hvað fyrir hæstv. ríkisstj. raunverulega vakir um þessi efni.

Þá verð ég einnig að óska alveg skýrra svara frá hæstv. utanrrh. um það, sem ég raunar drap á áðan og hæstv. félmrh. hélt fram, að það væri nýjung, að Íslendingar einir ættu að hafa úrslitaráðin um það, hvort hér dveldi erlendur her eða ekki og hvenær uppsagnarfrestir hæfust. Ég sagði skýlaust, sem líka tvímælalaust er rétt, að þetta er engin nýjung. Varnarsamningurinn frá 1951 segir alveg ótvírætt, að

Íslendingar einir hafi um þetta hvort tveggja úrslitaráðin. En til skýringar á þeim samningi, sem nú liggur fyrir, og eins og nánar mun koma í ljós af því, sem ég síðar segi, er alveg nauðsynlegt, að menn viti, hvaða hugmyndir ríkisstj. í heild hefur um þetta, hvort hér sé nokkur breyting á orðin eða aðeins um kurteislegt orðalag að ræða, súkkulaðiumbúðir, eins og ég sagði áðan, til þess að óþekku krakkarnir láti ögn lítið betur, meðan þeir eru að taka meðalið.

Ákvæði 7. gr. um uppsögnina eru alveg ótvíræð. Ég vil leyfa mér, með samþykki hæstv. forseta, að lesa upp hluta greinarinnar. 7. gr. hefst svo:

„Hvor ríkisstjórnin getur hvenær sem er að undanfarinni tilkynningu til hinnar ríkisstjórnarinnar farið þess á leit við ráð Norður-Atlantshafsbandalagsins, að það endurskoði, hvort lengur þurfi á að halda framangreindri aðstöðu, og geri tillögur til beggja ríkisstjórna um það, hvort samningur þessi skuli gilda áfram. Ef slík málaleitan um endurskoðun leiðir ekki til þess, að ríkisstjórnirnar verði ásáttar innan sex mánaða frá því, að málaleitunin var borin fram, getur hvor ríkisstjórnin hvenær sem er eftir það sagt samningnum upp, og skal hann þá falla úr gildi 12 mánuðum síðar.“

Það er eins og efni þessa alveg ótvíræða og skýra ákvæðis hafi þvælzt fyrir sumum þeim, sem um þetta mál hafa orðið einna fjölorðastir. Hér er alveg tvímælalaust kveðið á um það, að sex mánaða fresturinn, — sem er skilyrði þess, að 12 mánaða frestur síðar geti hafizt, — að sex mánaða fresturinn byrjar að líða, um leið og farið er fram á það við hinn samningsaðilann, að leitað verði til Norður-Atlantshafsráðsins um þessa umsögn, þannig að tíminn, sem fer til þess að leita umsagnar Norður-Atlantshafsráðsins, er innan þessa sex mánaða frests.

Fyrrverandi hæstv. utanrrh. fór af einhverjum mér ókunnum ástæðum öðruvísi að um þetta. Hann byrjaði með því að leita sjálfstætt umsagnar Norður-Atlantshafsráðsins og fór fyrst á síðara stigi, en þó, hygg ég, áður en sú umsögn var fengin, fram á það við Bandaríkin, að sex mánaða fresturinn skyldi byrja að líða.

Ég skildi þetta sannast sagt þannig, að hæstv. þáv. utanrrh. vildi draga málið á langinn og sæi ekki ástæðu til þess að hraða því. Það mátti líka segja sem var, að eðlilegt væri, að ný ríkisstj. eftir kosningar tæki um þetta endanlega ákvörðun. Ég skal því ekki og allra sízt nú eftir á deila á hæstv. fyrrv. utanrrh. fyrir að hafa farið svona að. En ég bendi á, að ef ætlunin var sú að hafa ítrasta hraða á uppsögninni samkv. 7. gr., þá var sú aðferðin ekki höfð í sumar, og aðferðin samkv. 7. gr. er sú, sem ég hef lýst og bezt verður skilin lýsingarlaust með því að lesa gr. og athuga í næði, hvað í henni felst.

En af öllum þessum ástæðum, yfirlýsingum hæstv. félmrh. og mjög óljósu orðalagi samningsins í 1. og 2. tölulið fyrri liðs samningsins, verð ég að spyrja hæstv. utanrrh. og óska ótvíræðra svara hans um það: Er 7. gr. samningsins breytt með þessum ákvæðum?

Hann svarar ef til vill því, að ráðuneytið hafi þegar tekið fram í fréttatilkynningu sinni, að samningum þessum er ekki ætlað að breyta neinu í sambandi við uppsagnarákvæði 7. gr. varnarsamningsins frá 1951. En ef það er rétt, sem í þessari tilkynningu stendur, þá er eftir sem áður, þrátt fyrir þá samningsgerð, sem hér liggur fyrir, skyldugt að leita til Atlantshafsráðsins á þessu sex mánaða tímabili. Það er skylda, að það sé gert. Það er ekki aðeins hagkvæmis og skynsemisástæða, eins og hæstv. utanrrh. hélt fram áðan, heldur er það lagaleg og samningsleg skylda Íslendinga að fara þannig að.

En ef ekki er skylt að leita til Norður-Atlantshafsráðsins á þessum tíma, þá er það ótvíræð breyting á 7. gr. Fram hjá því verður ekki komizt. Og það rekst ekki aðeins á niðurlagið í fréttatilkynningu hæstv. utanrrh., heldur verður einnig að draga mjög í efa, að slíka efnisbreytingu á samningnum sé heimilt að gera nema með lagaboði, og ef svo er, þá er þessi samningur ekki gildur, fyrr en hann hefur hlotið formlegt samþykki Alþingis samkv. skýlausu fyrirmæli bæði í fyrirsögn og 1. gr. laga nr. 110 frá 1951.

Það er mjög nauðsynlegt, að úr þessu fáist skorið alveg ótvírætt, og í því sambandi dugir ekki að segja eins og hæstv. ráðh. áðan, að það sé eðlilegt og skynsamlegt og muni sjálfsagt verða gert að leita til Norður-Atlantshafsráðsins.

Spurningin er sú: Er það áfram lagaskylda og samningsskylda íslenzkrar ríkisstj. að leita til Norður-Atlantshafsráðsins eða ekki? — Þetta er spurningin. Og ef það er ekki lengur skylda, skil ég að vísu, að það er gert til þess að gera ýmsum þægilegra að gleypa pilluna, þá beisku. En ég vil segja, að þá er komið í umbúðirnar efni, sem er okkur Íslendingum áreiðanlega ekki óhættulegt, okkur sjálfum. Það er áreiðanlega af öllum ástæðum miklu hollara fyrir Íslendinga að þurfa ekki að leita eingöngu til þessarar nýju stofnunar, tvíhliða milli Bandaríkjanna og Íslands, heldur að viðurkenna, að það sé eðlilegra, að við fáum ráðleggingar okkar og upplýsingar um þessi efni frá öllu Norður-Atlantshafsráðinu. Og ég fullyrði hiklaust, að þó að umsögn Norður-Atlantshafsráðsins hafi verið vefengd af sumum í sumar, þá muni þeir vera fáir nú orðið, sem játa ekki, að í þeirri umsögn lýsti sér meira raunsæi, meiri þekking og betri skilningur á því, sem þá var að gerast og er að gerast í heiminum, heldur en fram kom hjá sumum valdamönnum á Íslandi.

Jafnframt tek ég fram, að það er algerlega rangt, sem sumir hafa viljað telja mönnum trú um, að með þessu, að við ættum að fá umsögn Norður-Atlantshafsráðsins, værum við að afsala okkur nokkrum sjálfsákvörðunarrétti Íslendingar halda öllum sínum sjálfsákvörðunarrétti, þó að til Atlantshafsráðsins sé leitað, og það tekur ekki degi lengri tíma að losna við varnarliðið frá Íslandi, ef Íslendingar í raun og veru vilja, þó að því sé haldið, að til Norður-Atlantshafsráðsins sé leitað, heldur en sú skipun sé tekin upp, sem hér er ráðgerð, ef hún felur það í sér, að ekki sé lengur skylt að leita til ráðsins.

Frá sjónarmiði sjálfrar íslenzku þjóðarinnar er áreiðanlega vinningur að því að eiga við Atlantshafsráðið í heild og fá þess umsögn, en ekki Bandaríkin ein. Þó að þau séu góð þjóð, þá eru þau, eins og aðrar þjóðir, þjóð, sem hugsar fyrst og fremst um sjálfa sig og sinn eigin hag. Það er lofsvert, eins og ég sagði, að þau hafa samið við okkur sem jafningja. En við þurfum að gæta okkar hagsmuna gagnvart þeim eins og öðrum. En einmitt í Atlantshafsráðinn eru smáveldi, sem um margt hafa svipaða aðstöðu gagnvart Bandaríkjunum eins og við, smáveldi, sem standa okkur næst að frændsemi og menningu, svo sem Noregur og Danmörk. Jafnvel land eins og Luxemburg, sem er lítið eitt mannfleira en við, getur í mörgum tilfellum orðið okkur þar hjálplegt og túlkandi málstaðar okkar. Það er þess vegna ekki vinningur fyrir Ísland að fjarlægjast Norður-Atlantshafsráðið, þó að það sé gert á ekki meir áberandi hátt en hér er gert, ef sá misskilningur er réttur, sem ég nú er að tala um, heldur hlýtur það eingöngu að vera gert í því skyni, að það sé auðveldara að gera samninginn tortryggilegan, auðveldara að halda áfram innan fárra mánaða, eins og hæstv. félmrh. sagði, með þá uppsögn, sem hann óskar eftir.

Nú skal ég fúslega játa, að litlu verður Vöggur feginn. Og ég sá á hæstv. félmrh., að hann var allrogginn, þegar ég var að segja, að þetta mundi vera fyrir hann gert. Og ég játa, að svo mikið sem hann hefur orðið á sig að taka í þessu máli, þá er að vissu leyti ekki nema von, að utanrrh. varpi í hann þessu litla mörsiðra, vegna þess að meira er það nú ekki. Þetta sker sem sagt engan veginn úr um málið. Það gerir það ekki. Þetta er til ills, ef þetta á að skilja á þann veg. Það er til ills, eins og öll undanlátssemi við kommúnista, hvar sem er.

En þá kem ég að öðru, sem ég veit ekki heldur hvernig á að skilja og veit ekki hvort er undanlátssemi við kommúnista eða eitthvað annað. Það stendur hér í upphafi annars hluta samningsins, með leyfi hæstv. forseta:

„Komið verði á fót fastanefnd í varnarmálum Íslands, er skipuð sé ekki fleirum en þremur ábyrgum fulltrúum frá hvorri ríkisstjórn um sig.“

Nú spyr ég hæstv. utanrrh.: Hvað felst í þessu orði: ábyrgur fulltrúi?

Það sagði mér einhver, að þetta væri dálítið vafasöm þýðing og þetta héti á enskunni: high level representatives. — Það merkir fulltrúi í góðri stöðu, og þá var það skýrt, sem sagt: Alþýðuflokksmaður.

Ég veit ekki, hvernig þetta á að skilja, en vildi óska nánari skýringar á því, og hún gæti t.d. fengizt í því, að okkur væri svarað, hver á að skipa þessa nefnd. Það stendur sem sagt hér, að það sé ríkisstj. Og ef það er ríkisstj. öll, eins og stundum er skilið með slíkum ákvæðum, væri það mjög eðlilegt, að það væri einn frá hverjum stjórnarflokki, — og hvað er þá orðið eftir af merkingunni í orðinu ábyrgur?

Þá verð ég einnig að spyrja hæstv. utanrrh. að því, við hvað sé átt með 2. tölulið 2. hluta samningsins. Þar stendur:

„Að undirbúa, að svo miklu leyti sem hernaðarlegur viðbúnaður leyfir, að Íslendingar taki í ríkara mæli en áður að sér störf, er varða varnir landsins, á meðan völ er á hæfum mönnum til slíkra starfa, svo og að tryggja, að menn séu æfðir í þessu skyni.“

Sem sagt, Íslendingar eiga þarna að taka að sér störf, er varða varnir landsins. Það er ekki tekið fram, eins og var í ályktuninni frá 28. marz: þó ekki hernaðarstörf. — Sú takmörkun er alls ekki tekin fram þarna.

Er þá hægt að skilja þetta á annan veg en þann, að ætlunin sé sú, að nú eigi að fara að æfa Íslendinga til hernaðarstarfa og láta þá síðan taka við þeim, þ.e.a.s., að Íslendingar eigi sjálfir að taka að sér varnirnar? Það er því ríkari ástæða til þess að spyrja um þetta, þar sem stuðningsblað hæstv. ráðh., Þjóðviljinn, gat þess fyrir fáum dögum, að hann væri nú orðinn sammála mér um það, að við ættum að koma upp íslenzkum her. Hann bara gleymdi að telja þriðja stórmennið með okkur, sjálfan hæstv. forsrh., af því að enginn hefur skýrar en hann tekið það fram, að frambúðarlausn þessara mála væri sú, að Íslendingar sjálfir kæmu sér upp sínu eigin varnarliði.

Nú er ekki hægt að ræða það hér í kvöld til hlítar, hvort það sé skynsamlegt, að Íslendingar komi upp sínu eigin varnarliði. Ég segi það hiklaust sem mína skoðun, að án þess að Íslendingar hafi hug og dug til þess að koma sér upp svipuðu liði eins og heimavarnarlið er t.d. í Noregi, jafnvel í Færeyjum á stundum, þá verði þetta mál ætið lítt leysanlegt.

Það hefur verið ráðizt á mig fyrir það, að ég hafi sagt, að ef varnarliðið ætti að fara burt, þá yrði að styrkja íslenzkt ríkisvald. Hvað er sannara en þetta? Er það ekki einmitt vegna þess, að íslenzkt ríkisvald er of veikt, sem við verðum að hafa varnarliðið? Ef íslenzkt ríkisvald væri styrkt með einhverju svipuðu heimavarnarliði, einhverju svipuðu og maður helzt verður að telja að felist í því, sem hér segir, sem ég var að lesa upp úr greininni og ég sízt átel, — ef eitthvað slíkt væri gert, þá yrði allt þetta mál miklu auðveldara viðureignar en ella, því að þeir friðartímar koma seint, enda er það játað af hæstv. utanrrh., að hægt sé að láta Ísland með öllu vera óvarið.

Hann vitnaði hér áðan í það, að við — ég og fleiri — hefðum lýst því yfir 1949, að á friðartímum vildum við Íslendingar frekar taka á okkur áhættuna af því að hafa landið óvarið heldur en að hafa hér erlent herlið og erlendar herstöðvar. Þetta endurtek ég enn í dag. Þetta er óhagganleg sannfæring mín. Á friðartímum er það vissulega betra að eiga áhættuna yfir sér heldur en ætla að sætta sig við það, að hér verði um alla framtíð erlent herlið og erlend herbækistöð. En hæstv. utanrrh. og skoðanabræður hans í þessu máli, svo að ég sleppi nú blinda farþeganum í því sambandi, tala um það, að þeir haldi fast í stefnuna frá 1949, sem við sjálfstæðismenn höfum yfirgefið, vegna þess að við vildum ekki samþykkja tillöguna í vor.

Nú er það út af fyrir sig svo, að komið hefur í ljós, að tímarnir frá því 28. marz hafa síður en svo verið nokkrir friðartímar. Á þeim fáu mánuðum, sem síðan eru liðnir, hefur sjaldan verið meiri og viðar hætta á stórstyrjöld um langt árabil. En látum það eiga sig. Það, sem þessir menn, sem alltaf eru að vitna í stefnuna frá 1949, tala um nú, er einungis, að þeir vilja ekki hafa erlent herlið hér á landi. En þeir vilja hafa erlenda herstöð hér á landi, jafnvel mannaða að miklu leyti, ef til vill mestu, af útlendingum aðeins ef þeir eru ekki í erlendum einkennisbúningi.

Ég segi aftur á móti, að ef eiginleg herstöð, varnarstöð, á að vera hér, þá færir hún stórkostlega hættu yfir landið, ef hún á að vera varnarliðslaus, í staðinn fyrir að vera landinu til öryggis og varnar. Slíkt er sama og að láta skammbyssu liggja á borðinu, þar sem vitað er, að morðingjar séu í næsta nágrenni, til þess að þeir geti gripið skammbyssuna og eigi með fullri vissu í fullu tré við húsbóndann, sem þeir ætla að ráðast á.

Það má deila um það, hvort skynsamlegt hati verið að koma upp þessum miklu varnarstöðvum hér á landi. En við skulum þá líka viðurkenna, að þær voru að miklu leyti settar án okkar óska, getum við a.m.k. sagt, allt frá árinu 1940, þegar byrjað var að byggja flugvöllinn hér í Reykjavík, og með öllum þeim mannvirkjum, sem síðan hafa verið gerð. En eftir að þessi mannvirki eru komin og eru þess eðlis, sem þau eru. komumst við Íslendingar ekki hjá því, á meðan ekki eru raunverulegri friðartímar en nú og verið hafa undanfarin ár, að eitthvert varnarlið verður að vera á stöðvunum til þess að tryggja, að þær verði ekki eins og vopn, annaðhvort í óvita- eða morðingjahöndum. Og einmitt þess vegna fagna ég því, ef hæstv. ríkisstj. er nú að stefna að því að koma á sams konar liði og ég og hæstv. forsrh. höfum áður fyrri vakið athygli á að Íslandi væri brýn nauðsyn á. Mér kemur þetta auðvitað síður en svo á óvart um svo stefnufastan mann eins og hæstv. forsrh., sem vitanlega heldur því sama fram, þegar hann er í ríkisstj. eins og utan. Þjóðviljinn hefur nú skýrt frá því, að hann hafi ásamt utanrrh. tekið þátt í þessum samningum. Ég geri ráð fyrir því, að það hafi ekki aðallega verið þáttur forsrh. að ómerkja ályktunina frá 28. marz og viðurkenna berum orðum, að þörf sé á varnarliði hér á Íslandi. Ég geri ráð fyrir, að fyrir þá hreinskilnislegu játningu eigum við frekar hæstv. utanrrh. að þakka. En þá sjáum við líka. að hæstv. forsrh. hefur ekki verið þarna alveg iðjulaus, ef hann hefur komið því inn, að nú eigi í alvöru að fara að efna til íslenzks varnarliðs, eins og hann áður fyrri, þá í ríkisstj. einnig að vísu, stakk upp á, þó að hann væri þar þá með íhaldinu.