26.03.1957
Efri deild: 77. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Frsm. meiri hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég get í raun og veru verið ákaflega stuttorður um ræðu hv. þm. N-Ísf. Ég held, að hún breyti ekki miklu um það, sem ég sagði hér í minni frumræðu, jafnvel þó að þingmaðurinn reyndi að fara allvíða máli sínu til stuðnings, m.a. með því að gera hér að umtalsefni, hvernig skáldskapur væri í sósíalistísku ríkjunum, og annað því um líkt. Þingmaðurinn hefur oft sýnt talsverða hæfileika í þá átt að hlaupa dálítið út frá því málefni, sem um hefur verið að ræða, og það er ekki óeðlilegt, að hann leiti á það lagið núna, þegar lítið gerist um röksemdir í sjálfu málínu. Mér finnst það næsta athyglisvert að í þessari löngu ræðu hv. þm. reyndi hann ekki að sýna fram á neina kosti, sem einokunin í útflutningi saltfisksins hefði til að bera, enda mun sannast mála, að það sé næsta erfitt.

Það má vel vera, að þingmaðurinn hafi ætlazt til þess, þegar hann fór að tala hér um sósíalistísku ríkin, að ég færi að halda hér einhvern fræðandi fyrirlestur fyrir hann um þau lönd, sem sjálfsagt veitti nú ekki af, en ég mun heldur kjósa að halda mér við það mál, sem hér er til umræðu, og gefa honum örlitlar upplýsingar varðandi starfsemi fisksöluhringsins, sem hann ber svo mjög fyrir brjósti, og sýna honum með örlitlum dæmum, sem ég þekki, hvernig einokunin hefur reynzt í einstökum tilfellum.

Það gefur náttúrlega auga leið, að einokun eins og sú, sem hefur verið á saltfiskútflutningnum, opnar ýmsar leiðir til marga konar misnotkunar á kostnað framleiðenda, og það mætti kannske minna hv. þm. N-Ísf. á það, þegar hann hefur verið að ræða hér um „gífuryrði kommúnista“ í garð einokunarhringsins, að það var einmitt umboðsmaður Landssambands ísl. útvegsmanna, sem ljóstraði upp um eitt stórfelldasta hneykslið, sem hefur orðið í sögu þessa hrings, gerði það 1949. Það var sem sagt umboðsmaður útvegsmanna sjálfra, sem þá húðfletti þetta fyrirtæki miskunnarlaust og sýndi fram á, hvernig það hefði misnotað aðstöðu sína í saltfisksölunni, bæði til Ítalíu og til Grikklands. Ef hv. þm. N-Ísf. óskar eftir því, þá er hægt að rekja þá sögu nákvæmlega fyrir honum, en ég geri tæplega ráð fyrir því, að hann hafi sérstaklega mikinn áhuga fyrir því að þurfa að standa upp og verja þær aðgerðir allar.

Ég benti á það í minni framsöguræðu, að það mundu vera æði margir, sem væru ekki alveg vissir um það, að framámenn saltfiskhringsins hefðu alltaf gætt hagsmuna framleiðenda sem skyldi, og að það hefðu einmitt verið þeir, sem hefðu oft og tíðum fundið það á sínum eigin bökum, hvernig það er að hafa slíka stofnun yfir sér. Ég ætla ekki að fara langt aftur í tímann til þess að nefna dæmi um þetta, en ég veit, að t.d. okkur Akureyringum er það nokkuð ofarlega í huga, að núna rétt fyrir s. l. áramót lágu 3000 tonn af saltfiski, sem togararnir þar höfðu aflað, þar í geymslum og undir skemmdum, en nálega allir aðrir saltfiskframleiðendur í landinu höfðu fengið sinn fisk afsettan. Útgerðarfélag Akureyringa varð af þessum ástæðum fyrir tjóni, sem nemur tæplega 1 millj. kr., og hefur gert skaðabótakröfu á hendur Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda fyrir misnotkun á valdi sínu um útflutninginn. Þegar þetta gerðist voru, eins og ég sagði, aðeins um 3 1/2 þús. tonn af saltfiski til í landinu, en Akureyringarnir voru látnir sitja algerlega hjá um afsetningu og urðu fyrir stórfelldu vaxtatapi og hreinum skemmdum á fiskinum af þessum sökum. Ég geri nú fastlega ráð fyrir því, að flestir muni nú sjá, að aðra eins framkomu og þessa mundi enginn leyfa sér nema í skjóli einokunar. Ef einhverra annarra kosta væri völ um viðskipti, þá mundu þeir ekki, sem slíkri rangsleitni væru beittir, kjósa hana yfir sig áfram. Þeir mundu þá frekar leita annarra umboðsmanna en þeirra, sem hefðu farið með málin á þennan hátt.

Það er líka dálítið athyglisvert í sambandi við þetta mál, að í raun og veru var þetta nokkurs konar refsing fyrir það, að Útgerðarfélag Akureyringa hefur yfirleitt framleitt betri saltfisk en aðrir, og um framleiðslu þess hafa ekki komið neinar kvartanir frá kaupendum í markaðslöndunum. En þannig var málið vaxið, að það átti síðasta hluta ársins að senda framleiðsluna til þeirra, sem mestar kröfur gerðu um gæði, og þess vegna var fiskur Útgerðarfélags Ákureyringa geymdur. Það voru sem sagt verðlaunin, sem einokunarhringurinn gaf Útgerðarfélagi Akureyringa fyrir að framleiða betri fisk en aðrir saltfiskframleiðendur, að láta það verða fyrir tjóni, sem nam, eins og ég sagði áðan, um 1 millj. kr. og mun verða reynt með laganna vendi að hafa út úr þessum einokunarhring.

Ég gæti nefnt fleiri dæmi þessu hliðstæð. Það mætti t.d. nefna það, að á árunum áður en Sölusamband ísl. fiskframleiðenda tók til starfa var það algild venja, að bátafiskur af Norðurlandi var greiddur 5–10 kr. hærra verði hvert skippund en fiskur annars staðar af landinu, og var ástæðan sú, að þessi fiskur, sem var mest vor- og sumarveiddur, var að ýmsu leyti miklu verðmætari, m.a. eggjahvíturíkari en annar fiskur vegna þeirrar fæðu, sem hann hefur. Á þessum árum var það yfirleitt skilyrði í markaðslöndum okkar frá hendi þeirra, sem gerðu mestar kröfur um vörugæði, að af hverri sendingu væri nokkur hlutinn Norðurlandsfiskur. Auðvitað var einokunarhringurinn ekki lengi að afnema þetta fyrirkomulag, og Norðlendingar hafa ekki síðan notið þess að neinu, þó að þeir hafi framleitt betri fisk en aðrir.

Slík dæmi eins og þessi, sem eru náttúrlega mýmörg, eru aðeins dæmi um ókosti einokunarinnar.

Hv. þm. N-Ísf. klappaði enn þann steininn, að það væri verið að gera Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda eiginlega ómögulegt að starfa vegna þess, að það fengi ekki algert einkaleyfi á útflutningi saltfisks. Hann gat ekki bent á neitt annað í frv., sem sannaði, hvað það væri ómögulegt, annað en það, að S.Í.F. gæti ekki selt allan fiskinn, ef það yrði samþykkt. Hins vegar endurtók hann enn þá í þriðja eða fjórða skiptið, síðan umræður hófust um þetta, að það vildu allir fela S.Í.F. umboðið. En ég spyr nú bara: Hver selur fiskinn, ef allir þeir, sem framleiða hann, vilja engum fela umboðið, vilja ekki láta hann í hendur neinna nema S.Í.F.? Er eitthvert ákvæði í lögunum sem skyldar framleiðendur til þess að láta fiskinn í hendur annarra útflytjenda? Ég held, að það verði dálítið erfitt fyrir þingmanninn að sýna fram á það. Ef Sölusamband ísl. fiskframleiðenda hefur það traust, sem þm. fullyrðir að það hafi, þá verður vitanlega engin breyting á því, að það flytur út fiskinn. En það er svo aftur annað mál, að allir, sem eitthvað þekkja til útflutningsins og til þeirrar óánægju, sem er víða um framkvæmdir þessa einokunarhrings, geta ekki verið í nokkrum vafa um, að það muni ýmsir aðrir verða til þess að leita nýrra úrræða um sölu afurðanna. En ég held þó, að jafnvel þó að svo yrði ekki, þá yrði bara sá möguleiki, sem lögin gera ráð fyrir, að einhverjir aðrir fengju leyfi til þess að flytja út, nokkurt aðhald þessu fyrirtæki um að beita ekki framleiðendur þeim fantatökum, sem það hefur oft og tíðum gert.

Ég held, að þetta sé efnislega það helzta, sem ég hefði viljað gera að svo komnu máli að umtalsefni af því, sem hv. þm. N-Ísf. sagði. Um útúrdúra hans ætla ég ekki að ræða, heldur halda mig við það mál, sem hér er til umræðu. Þó get ég nú ekki alveg stillt mig um að vekja athygli á fullyrðingum hans um það, að sjómennirnir séu sérstaklega hlynntir einokunarhring þeirra sjálfstæðismanna og Sjálfstfl. yfirleitt. En hann sagði, að þetta væri ákaflega eðlilegt, að einmitt sjómennirnir aðhylltust Sjálfstfl., sem væri nú að vísu flokkur allra stétta, ekki bara sjómannanna. En það skyldi nú aldrei vera, að hagsmunir þeirra stétta, sem Sjálfstfl. er sérstaklega fulltrúi fyrir, hefðu aldrei rekizt á við hagsmuni sjómannanna? Ég held, að það sé ákaflega erfitt, jafnvel þótt af miklum velvilja væri leitað gegnum söguna, að finna þess mörg dæmi, að Sjálfstfl. hafi borið hag sjómannanna fyrir brjósti. Ég held, að því sé alveg öfugt farið, allt frá því að t.d. togaravökulögin voru sett. Ég ætla ekki að hrella þingmanninn með því að fara að minna á, hvernig afstaða formanns hans flokks var í því máli, en sú afstaða er í raun og veru sígilt dæmi um hlýhug Sjálfstfl. í garð sjómannanna.

Fullyrðingar hv. þm. N-Ísf. um vanefndir útflutningssjóðs á þeim loforðum, sem hafa verið gefin framleiðsluatvinnuvegunum, ætla ég ekki hér að gera að umtalsefni, enda ekki dagskrármál.