06.12.1956
Sameinað þing: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2306 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

Endurskoðun varnarsamningsins

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Það hafa nú þegar farið hér fram nokkuð ýtarlegar umræður um það mál, sem er til umr., og hafa þeir hv. 1. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Reykv. komið hér fram með sínar hugleiðingar og athugasemdir við málið. Ég sé ekki ástæðu til að fara að ræða einstök atriði úr ræðum þeirra hér umfram það, sem til mín hefur verið beint sérstökum fyrirspurnum. En þeim fyrirspurnum, sem hér hafa verið bornar fram og ekkí hafa farið fram hjá mér, skal ég leitast við að svara, eftir því sem ég frekast get.

Hv. 3. þm. Reykv. vildi fá um það skýr svör, hvort ekki hefðu verið gerðir aðrir samningar við Bandaríkjamenn en þeir tveir, sem ég las hér upp í kvöld, hvort ekki hefðu verið gerð drög að öðrum samningum eða hvort við hefðum ekki rætt við þá sérstaklega um einhverjar lántökur. Þessu get ég svarað alveg afdráttarlaust. Það hafa engir samningar verið gerðir við Bandaríkjamenn aðrir en þeir tveir, sem ég las hér upp. Við gerðum ekki drög að neinum öðrum samningum við þá, og ég ræddi ekki við þá um neinar lántökur. Ég vænti, að þessi svör séu nógu skýr og ákveðin af minni hálfu.

Þá ræddi hv. 3. þm. Reykv. nokkuð um ástæðuna fyrir því, að viðræðum um endurskoðun varnarsamningsins í því skyni, að varnarliðið fari úr landi, skuli ekki haldið áfram nú. Í því samkomulagi, sem hér liggur fyrir, er það greinilega fram tekið, að ástæðan fyrir því, að umræðunum er ekki haldið áfram, er sú styrjaldarhætta, sem talin er nú ríkja í heiminum, sérstaklega í Evrópu.

Hv. 3. þm. Reykv. vildi ekki fallast á, að rétt hefði verið að fresta viðræðunum eða láta hætta viðræðunum vegna stríðshættunnar. En hann taldi þó, að það hefði átt að láta þær falla niður, vegna þess að okkar samningsaðstaða væri óhagstæð í tilefni af því, að Alþfl. og Framsfl. teldu, að um stríðshættu væri að ræða.

Út af þessu vil ég aðeins segja það, að okkar samningsaðstaða var hvorki hentugri né óhentugri en það, að Bandaríkjamenn hófu viðræðurnar við okkur með því að taka það fram, að þeir væru reiðubúnir til að fara með varnarliðið úr landi samkvæmt ákvæðum varnarsamningsins sjálfs, ef við óskuðum þess. Þetta lá alveg greinilega fyrir.

Þá ræddu hv. 3. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Reykv. nokkuð um styrjaldarhættuna. Hv. 3. þm.

Reykv. taldi, að nú væri ekki um stríðshættu að ræða, og hv. 1. þm. Reykv. vildi fá að vita, hvort ég teldi, að friðnum í heiminum stafaði meiri hætta frá Ungverjalandi eða frá botni Miðjarðarhafsins. Ég ætla ekki að fara að deila um þetta atriði við hv. 3. þm. Reykv. Hann sér enga ófriðarhættu í heiminum í dag. Um þetta verð ég bara að segja það, að það þarf mjög lituð gleraugu til þess að geta ekki komið auga á það, sem er að gerast og hefur verið að gerast. Það þarf svo lituð gleraugu til þess, að ég held, að þau fáist varla og verði ekki komizt af með minna en að loka augunum og vilja alls ekki sjá það, sem um er að ræða.

Að því er varðar hv. 1. þm. Reykv. og spurninguna um það, hvort meiri hætta stafi nú frá Ungverjalandi eða frá botni Miðjarðarhafs, þá hygg ég, að það hafi litla þýðingu fyrir úrlausn þessa máls, að hvaða niðurstöðu við kæmumst í þeim efnum. Það er staðreynd, sem allur þorri manna er á einu máli um, að frá báðum þessum stöðum er mjög alvarleg hætta.

Ég sagði í ræðu minni hér fyrr í dag, að á meðan átökin í Ungverjalandi væru innan marka þess lands, væri ófriðarhættan kannske ekki svo alvarleg sem hún yrði, ef þetta ætti að breiðast út fyrir mörk landsins. Og sérstaklega benti ég á það, hvílíkur voði væri fyrir dyrum, ef þau átök, sem undanfarið hafa verið í Ungverjalandi, ættu eftir að breiðast út til Austur-Þýzkalands.

Mér er það fullkomlega ljóst, að á báðum þessum stöðum er mjög alvarleg ófriðarhætta, þó að hún nái ekki hámarki sínu að því er Ungverjaland varðar, nema ef til þess skyldi koma, að átökin, sem þar hafa farið fram nú að undanförnu, ættu eftir að breiðast út fyrir mörk þess lands. Maður vonar, að svo fari ekki, en eins og ég sagði í kvöld eða í dag: ég reyni ekki að spá neinu um það.

Þá spurði hv. 1. þm. Reykv., hvort ég væri sammála því, sem fram kom í yfirlýsingu hæstv. félmrh., að sú stöðvun, sem hér hefði orðið á viðræðunum við Bandaríkjamenn um endurskoðun varnarsamningsins, ætti aðeins að vera bundin við tvo, þrjá mánuði, og hvort meiningin væri að fara á stað með þessar viðræður aftur og láta frestina líða eftir tvo, þrjá mánuði. Hann spurði enn fremur, þessi hv. þm., hvað væri fyrirhugað um framkvæmdir á varnarstöðvunum og hvort maður gæti búizt við því, að Bandaríkjamenn réðust í framkvæmdir, ef um stuttan, takmarkaðan frest væri að ræða.

Mér finnst af þeim spurningum, sem hv. 1. þm. Reykv. hefur lagt fyrir mig, að hann hafi misskilið mjög eðli málsins, eftir því sem ég reyndi að útskýra það í ræðu minni hér í dag og eftir því sem ætlazt er til að fram komi í því samkomulagi, sem gert hefur verið. Ég tók það skýrt fram í dag, og það á að koma fram og kemur fram í samkomulaginu sjálfu, að það, sem hér er að gerast, er ekkert annað en það, að við viðurkennum, að í dag sé það mikið ófriðarástand í heiminum, að ekki sé forsvaranlegt að gera ráðstafanir til brottfarar varnarliðsins úr landinu. Við gerum jafnframt ráðstafanir til þess, að sett sé upp sérstök n., skipuð fulltrúum Bandaríkjamanna og Íslendinga, til þess að fylgjast með ástandinu í þessum málum og gera tillögur til ríkisstjórnanna, eftir því sem ástæða þykir til, um það, hvenær hægt sé að hefjast handa í sambandi við brottför varnarliðsins úr landinu. Það fer algerlega eftir ástandinu, friðarhorfunum í heiminum, hvenær fært verður að hefjast handa um þessa hluti. Þetta verður ekki mælt í dögum, vikum eða mánuðum. Það verður eingöngu mælt eftir því, hvernig ástandið er og hvað hægt verður að gera samkv. því.

Þá ræddi hv. Í. þm. Reykv. nokkuð 2. tölulið annars samkomulagsins, sem hér hefur verið til umræðu, og spurðist fyrir um það, hvort meiningin með þessum tölulið væri sú, að Íslendingar ættu nú að fara að taka vopn í hönd og taka þátt í vörnum landsins á þann hátt. Var þessi hv. þm. með talsvert miklar hugleiðingar um þetta og minnti m.a. á sínar fyrri kenningar í sambandi við þetta atriði.

Út af þessu vil ég taka fram, að það hefur ekki komið til mála, það hefur ekki verið minnzt á það og engum, sem um þessi mál hefur fjallað, hefur komið til hugar, að Íslendingar ættu sjálfir að taka þátt í vörnum landsins með vopn í hönd eða sem hermenn. Á slíkt hefur ekki verið minnzt, og þessi grein, sem hér er rætt um, gefur ekki minnsta tilefni til að skilja hana á þann veg.

Því var yfir lýst, áður en Ísland gerðist aðill að Atlantshafsbandalaginu, m.a., að Íslendingar hefðu ekki her og ætluðu sér ekki að stofna neinn her eða vopna landsfólkið. Þessu var lýst yfir, áður en við gerðumst aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Þessi yfirlýsing kom einnig fram, þegar varnarsamningurinn var gerður 1951, og hún er enn í fullu gildi. Grein sú, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, er einmitt orðuð með hliðsjón af þessari staðreynd, og í henni segir berum orðum, að Íslendingar vilji taka í ríkara mæli þátt í störfum við varnir landsins, með þeirri takmörkun þó, að hernaðarlegur viðbúnaður leyfi. Það er þessi takmörkun, sem segir það skýrt og greinilega, að það er hernaðarlegur viðbúnaður, sem takmarkar þátttöku Íslendinga í vörnunum, vegna þess að í hernaðinum sjálfum og slíkum störfum taka þeir ekki þátt.

Þá hefur það einnig verið gert að umtalsefni hér, hvað væri átt við með orðunum „ábyrgum fulltrúum“ í upphafsorðum annars samkomulagsins.

Þessi orð voru dálítið erfið í þýðingunni, vegna þess að við höfum ekkí í okkar máli, að því er við gátum fundið, hugtak, sem nákvæmlega tekur til þess, sem orðað hafði verið í upphaflega enska textanum. Það, sem átt er við með enska heitinu, er það, að þessi nefnd á að vera skipuð mönnum. sem í fremstu röð taka þátt í og bera ábyrgð á vörnum landsins og framkvæmd þeirra. Það eru menn, sem í fremstu röð bera ábyrgð á þeim hlutum, sem þar er um að ræða. Og það, sem verið er að reyna að ná með þessari íslenzku þýðingu, er það, að í þessari n. eigi að taka sæti þeir menn, sem fyrst og fremst bera ábyrgð á framkvæmd og umsjón varnanna.

Það var spurt um það, hver mundi skipa þessa nefnd og undir hvern hún heyrði. Ég vil aðeins taka það fram, að skv. úrskurði um skiptingu starfa á milli ráðherra og ráðuneyta heyra varnarmálin í einu og öllu undir utanríkisráðuneytið, og það er það að sjálfsögðu, sem fjallar um þetta atriði.

Þá ræddi hv. 1. þm. Reykv. nokkuð um það, hvort samkomulag það, sem hér hefur verið gert, ætti að breyta nokkru, sem fælist í 7. gr. varnarsamningsins frá 1951. Hann ræddi um það, hvort við ættum að leita umsagnar hjá NATO aftur, áður en áfram væri haldið á síðara stigi viðræðum um endurskoðun varnarsamningsins, og hann taldi, að óheppilegra væri fyrir okkur, ef við ættum um þessa hluti við Bandaríkjamenn eina, heldur en ef við ræddum þetta við Atlantshafsbandalagið í heild, þar sem smáríkin ættu einnig fulltrúa.

Ég tók það greinilega fram í ræðu minni hér í dag, og það er tekið fram í þeirri fréttatilkynningu, sem utanrrn. hefur þegar gefið út, að engu í því samkomulagi, sem gert hefur verið, er ætlað að breyta neinu, sem felst í 7. gr. varnarsamningsins. Það, sem er verið að gera með þessu samkomulagi, er að leitast við að sjá svo um, að það, sem reyndist vera að langsamlega mestu leyti formið eitt við framkvæmd endurskoðunar varnarsamningsins, verði nú annað meira. Samkv. varnarsamningnum og ákvæðum hans var á sínum tíma skrifað til NATO. NATO lét okkur í té sína umsögn, og svo skeði ekkert meira með þá umsögn. Það fóru ekki fram áður og var ekki ráð fyrir því gert í 7. gr. varnarsamningsins, að áður færu fram neinar viðræður eða neinn undirbúningur undir það, að þessi umsögn yrði til.

Það, sem verið er að gera nú með skipun fastanefndarinnar, er ekkert annað en það, að af hálfu ríkisstjórnanna beggja sé fylgzt gaumgæfilega með málinu og reynt að gera sér ljóst, hvernig ástandið er og hverjar okkar þarfir eru fyrir varnir. Það er sjálfsagður hlutur, að þegar þessi nefnd fer að starfa og kynna sér ástandið, þá er það Atlantshafshandalagið, sem er fyrsti aðilinn, sem þessi nefnd hlýtur að hafa samstarf við. Með slíku fyrirkomulagi sem þessu er það tryggt, að málið sé athugað gaumgæfilega og af aðilum og með þeim hætti, sem íslenzka þjóðin getur treyst og fest trúnað á hvað segja.

Ég held, að þetta ákvæði, sem hér hefur verið tekið upp, sé til mikilla bóta og mikillar tryggingar fyrir okkur Íslendinga og sé sízt af öllu til þess að fjarlægja okkur samstarfi við Norður-Atlantshafsbandalagið, því að eins og ég tók fram greinilega í minni ræðu í dag, ætti ekkert að vera fjær okkur á þessari stundu en gera nokkrar ráðstafanir, sem gætu hnígið í þá átt, að raðir Atlantshafsbandalagsríkjanna riðluðust eða þess aðstaða veiktist með einu eða öðru móti. Ástandið í heiminum er einmitt þannig nú, að vestrænar þjóðir þurfa á þessum samtökum að halda, og þær setja nú sitt traust meira á þessi samtök en e.t.v. nokkuð annað í sambandi við framtíðina.

Ég held, að ég hafi nú talið fram allar þær spurningar, sem fyrir mig voru lagðar, og gefið við þeim þau svör, að ég vænti þess, að fyrirspyrjendur telji sér fullnægt með svörunum.