11.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. minni hl. 1. kjördeildar (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Svo sem frsm, meiri hl. fyrstu kjördeildar gerði grein fyrir, þá varð kjördeildin ekki sammála um afgreiðslu allra kjörbréfanna, og varð meiri hl. að vísu fyrir því að samþykkja þau öll, en minni hl., sem ég er frsm. fyrir, leggur til, að kjörbréf þeirra Benedikts Gröndals og Gylfa Þ. Gíslasonar verði ekki tekin gild, og skal ég stuttlega gera grein fyrir þeim ástæðum, sem til þeirrar tillögu okkar liggja.

Hinn 19. apríl s. l. lýstu Framsfl. og Alþfl. yfir því, að þeir hafi ákveðið, eins og orðrétt var sagt, að efna til algers kosningabandalags í öllum kjördæmum. Þetta er orðrétt tekið úr þeirri yfirlýsingu, sem birt var bæði í Tímanum og Alþýðublaðinu.

Þegar framboðin til alþingiskosninganna hinn 24. júní voru tilkynnt, kom í ljós, að ákvörðun þessi var framkvæmd þannig, að flokkarnir buðu hvergi fram hvor á móti öðrum. Sums staðar voru menn úr báðum flokkum á sameiginlegum lista, þótt hann væri aðeins kenndur við annan flokkinn. Meðmælendur einstakra frambjóðenda voru yfirleitt úr báðum flokkum. Flokksfélög lýstu víða opinberum stuðningi við frambjóðendur hins flokksins, og flokksmenn annars flokksins greiddu við prófkosningu atkv. um, hver ætti af þeirra hálfu að vera á lista hins.

Kosningaúrslitin urðu og slík, að samkvæmt þeim er ómögulegt að gera sér grein fyrir raunverulegu fylgi hvors flokksins um sig, heldur sýna þau alranga mynd af því. Engu mannsbarni kemur í alvöru til hugar, að Alþfl. sé stærri flokkur en Framsfl., þó að kosningaúrslitin og tölurnar gefi það til kynna. Þetta sýnir, að kosningatölurnar og úrslitin gefa ekki rétta mynd af því, sem átti sér stað við þessar kosningar. Hins vegar sýna kosningaúrslitin vitanlega rétt samanlagt heildarfylgi beggja flokkanna.

Samningarnir um hið algera kosningabandalag, sjálf framboðin og kosningaúrslitin sanna, svo að ekki verður um deilt, að Framsfl. og Alþfl, hafa í kosningunum óvefengjanlega komið fram sem einn flokkur. Þó að þeir haldi sjálfstæðri tilveru að öðru leyti, skiptir það ekki máli í þessu sambandi, því að mat á framboðum þeirra við kosningarnar verður vitanlega að miðast við athafnir þeirra þá, en ekki við aðrar gerðir þeirra. Með því að koma þannig fram sem einn flokkur svipti hið algera kosningabandalag sig rétti til að bera fram nema einn landslista við kosningarnar, sbr. skýlaust ákvæði 29. gr. kosningalaganna, þar sem segir: „Stjórnmálaflokkur má eigi bera fram nema einn landslista við sömu alþingiskosningar.“ Enda segir í 31. grein stjórnarskrárinnar, með leyfi hæstv. forseta, að allt að 11 þingmenn skuli vera „til jöfnunar milli þingflokka, svo að hver þeirra hafi þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar.“ En svo sem fyrr segir, er ómögulegt að greina raunverulegt fylgi hvors flokksins um sig við kosningarnar, heldur einungis heildarfylgi beggja.

Úthlutun uppbótarsæta ætti því að miðast við þá staðreynd, að Framsfl. og Alþfl. komu fram sem einn flokkur við alþingiskosningarnar 24. júní 1956. Um þetta náðist að vísu ekki samkomulag meiri hl. landskjörstjórnar, þó að meiri hlutinn væri sammála um, að framboðin, svo sem þau voru úr garði gerð, væru ólögleg. En þar sem meiri hlutanum kom ekki að öllu saman um, í hverju ólögmætið væri fólgið, né um viðurlögin, varð niðurstaðan sú, að minni hlutinn, tveir af fimm, réð því, sem gert var. Þrír af fimm landskjörstjórnarmönnum hafa hins vegar gert fyrirvara um tvö af hinum umdeildu kjörbréfum og tveir landskjörstjórnarmenn við önnur tvö.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta ósamkomulag innan landskjörstjórnarinnar. Það heyrir fortíðinni til, og tjáir ekki að deila um það héðan af, enda er aðalatriðið, að Alþingi hefur sjálft rétt og skyldu til að taka hér sjálfstæða ákvörðun.

Samkv. því, sem nú hefur verið sagt, leggur minni hl. 1. kjördeildar til, að neitað sé að taka kjörbréf Benedikts Gröndals og Gylfa Þ. Gíslasonar gild, þar sem hið algera kosningabandalag Framsfl. og Alþfl, fékk svo marga þm. kosna í kjördæmum hinn 24. júní s. l., að hvorki það né nokkur hluti þess á rétt til uppbótarþingmanna.