06.12.1956
Sameinað þing: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2311 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

Endurskoðun varnarsamningsins

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Það voru rétt nokkur orð út af þeim viðbótarfyrirspurnum, sem hv. 1. þm. Reykv. kom með í ræðu sinni hér áðan.

Hann talaði um það, hvort ríkisstj. ætlaði að koma í veg fyrir, að haldið væri áfram með varnarframkvæmdirnar á Keflavíkurflugvelli og í varnarstöðvunum, hvort þessar varnarframkvæmdir yrðu leyfðar eða ekki. Um þetta atriði vil ég aðeins segja það, að fyrrv. hæstv. ríkisstj. gaf varnarliðinu leyfi til þó nokkurra framkvæmda á Keflavíkurflugvelli, sem ekki er ráðizt í enn þá. Í þeim viðræðum, sem fram fóru við Bandaríkjamenn nú í sambandi við endurskoðunina, var ekkert um þetta mál rætt. Um þetta atriði liggur því ekki neitt fyrir á þessari stundu málsins.

Þá fannst hv. 1. þm. Reykv., að mitt svar við því, hversu langt yrði þangað til aftur yrðu teknar upp viðræður um endurskoðun varnarsamningsins, væri nokkuð óljóst og óglöggt. Hann sagði, að ég hefði ekki getað sagt, hvernig það yrði mælt, í vikum, mánuðum eða tíma (Gripið fram í: Eða eilífð.) — eða eilífð. Ég sagði í minni ræðu, að þetta færi eftir ástandinu í heimsmálunum. Ég spyr nú hv. 1. þm. Reykv., og ég vildi gjarnan, að hv. þm. G-K. hjálpaði honum til að svara, því að ég býst við, að það veiti ekki af tveimur til þess að ráða fram úr því: Geta þeir sagt okkur í dag, hvenær slík breyting verður á því ástandi, sem nú ríkir í heimsmálunum, að við getum verið nokkuð öruggir um það, að friðvænlegar horfi í heiminum? Geta þeir sagt okkur fyrir um það nú, hvenær sú breyting verður á því ástandi, sem nú ríkir, að við þurfum ekki að óttast það, að styrjöld sé yfirvofandi? Ég get ekki svarað þessu. (BBen: Vill hæstv. ráðh. hlutast til um, að ég fái að svara þessu? Þá skal ég reyna að svara einn.) Ég tilnefndi með hv. 1. þm. Reykv. ágætan aðstoðarmann, sem ég veit að hjálpar honum. Annars hef ég fyrir mitt leyti ekkert á móti því, að þessi hv. þm. tali eins oft og forseti vill leyfa honum það. Það er að sjálfsögðu í hendi forseta. En ég segi: Ég get ekki á þessu augnabliki spáð neinu um það. hvenær það ástand, sem nú er ríkjandi í heiminum, verður svo breytt, að talið verður fært að taka viðræðurnar upp aftur. En eftir ástandinu í heimsmálunum hlýtur það að fara að mínu viti.

Þá spurði hv. 1. þm. Reykv. enn um það, hvort ég teldi, að 7. gr. varnarsamningsins hefði verið breytt eða ekki breytt. Ég segi það enn, og ég segi það aftur: Greinin er óbreytt. Henni hefur ekki verið breytt. Hún er í fullu gildi. En það eru í hinu nýja samkomulagi nánari ákvæði, sem styðja það, sem staðið hefur í 7. gr., án þess að þar á sé gerð breyting.

Ég hélt, að hv. 1. þm. Reykv. þekkti svona fyrirbæri það vel úr löggjöf, að hann þyrfti ekki að vera að togast um það fram og aftur hér, hvort greininni væri breytt eða ekki breytt, því að hann hlýtur að sjá það og skilja það sjálfur, þó að hann kannske vilji ekki skilja það, að greinin er enn í fullu gildi, óbreytt, eins og hún hefur alltaf verið.