26.03.1957
Efri deild: 77. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

133. mál, vísitala byggingarkostnaðar

Frsm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. til laga um vísitölu byggingarkostnaðar á þskj. 325, sem hér liggur nú fyrir, hefur heilbr.- og félmn. rætt og yfirfarið og mælir einróma með samþykkt þess, eins og nál. á þskj. 366 ber með sér.

Frv. fylgir allýtarleg grg., og enn fremur hefur verið til útbýtingar hjá skjalaverði álit eða grg. þeirra Guðlaugs Þorvaldssonar í Hagstofu Íslands og Bárðar Ísleifssonar hjá húsameistara ríkisins, en frv. í sinni núverandi mynd er til orðið fyrir þeirra atbeina og samið endanlega af Hagstofu Íslands.

Samkvæmt lögum, sem sett voru um vísitölu byggingarkostnaðar árið 1943, hefur Hagstofa Íslands annazt árlegan útreikning hennar á grundvelli þeirra laga. Vísitöluhús það, sem lagt var til grundvallar þessum útreikningum, er miðað við byggingarvenjur í byrjun síðari heimsstyrjaldarinnar, við kröfur þess tíma. Var það talið vandað að framlagi og frágangi, en án íburðar. Húsið var tvílyft, 64 fermetrar að flatarmáli, en 500 rúmmetrar að teningsmáli.

Nú hefur það ekki farið á milli mála, að nokkur ágreiningur eða réttar sagt ádeilur hafa verið uppi um það í byggingariðnaðinum, hvort þetta 16 ára gamla vísitöluhús væri réttur grundvöllur laganna. Ýmsir hafa talið, að margt hafi tekið þeim breytingum í byggingarháttum á þessum síðari árum, að nauðsynlegt væri að endurskoða grundvöllinn og reikna út að nýju. Í ýmsum greinum athafnalífsins hafa og gerzt stórfelldar breytingar og kröfur almennings til íbúðarhúsa stórvaxið.

Eðlilegt var því talið, að fram færu nýir útreikningar á grundvelli byggingarvísitölunnar, og er tilgangur frv. þessa sá að lögfesta hinn nýja grundvöll.

Við útreikninga þessa hafa þeir Guðlaugur og Bárður notið mikilsverðrar aðstoðar Tómasar Vigfússonar byggingarmeistara, sem lét þeim í té ýtarlegar og traustar upplýsingar um byggingarkostnað og byggingarhætti.

Þeir Guðlaugur og Bárður skiluðu áliti sínu til ráðuneytisins haustið 1956 og gerðu þar till. um hinn nýja vísitölugrundvöll, sem lagður er til grundvallar frv. þessu.

Í gildandi lögum um brunatryggingar utan Reykjavíkur og eldri lögum um sama efni er gert ráð fyrir, að hagstofan reikni út sérstaka vísitölu fyrir kaupstaði og kauptún utan Reykjavíkur, en svo aftur sérstaklega fyrir Reykjavík samkvæmt lögum um brunatryggingar þar. En við síðustu breytingu þessara laga fyrir tveim árum var ákvæðið um vísitölu byggingarkostnaðar ekki endurnýjað, og eru því engin hein lagafyrirmæli um, að slík vísitala væri reiknuð út nú í dag. Teiknistofu landbúnaðarins hefur hins vegar verið falinn útreikningur á byggingarvísitölu í sveitum, en hefur ekki treyst sér til þess vegna ólíkra aðstæðna. Hagstofan hefur hins vegar áætlað vísitölu byggingarkostnaðar fyrir kaupstaði og kauptún með hliðsjón af vísitölu byggingarkostnaðar í Reykjavík, en sú áætlun hefur og verið grundvöllur fyrir sveitirnar og dreifbýlið.

Hver er þá höfuðtilgangurinn með útreikningi þessarar byggingarvísitölu? Tilgangurinn er í höfuðatriðum tvenns konar: Í fyrsta lagi er grundvöllurinn notaður til þess að ákveða söluverð íbúða í verkamannabústöðum og samvinnubyggingarfélagshúsum. Í öðru lagi til þess að ákveða brunabótaverð húsa.

Vegna þeirrar heildarsamræmingar, sem gerð hefur verið í kaupgjaldsmálum undanfarin ár úti um landið, og aukinnar hlutdeildar launa í byggingarkostnaði hefur verið talið eðlilegt, að sama byggingarvísitala væri látin gilda um land allt.

Frv. þetta, ef að lögum verður, felur í sér þessa sjálfsögðu breytingu.

Í fyrrnefndum lögum, nr. 87 1943, er gert ráð fyrir, að byggingarvísitala skuli reiknuð út einu sinni á ári, en það hefur mjög rýrt gildi vísitölunnar. En frv. þetta gerir ráð fyrir, að hún sé framvegis reiknuð út þrisvar á ári, miðað við verðlag í febrúar, júní og október hvert ár.

Þetta ákvæði hefur sérstaka þýðingu fyrir ákvörðun um söluverð á íbúðum byggingarsamvinnufélagshúsa og verkamannabústaða, og ætti þessi breyting að tryggja það, að meira tillit yrði til vísitölunnar tekið og nákvæmni hennar meiri um raunverulegan kostnað á hverjum tíma.

Í áliti þeirra Guðlaugs og Bárðar eru gerðar till. um nýtt vísitöluhús, er leysi hið eldra af hólmi, en eins og áður er sagt, hafa um hið eldra hús staðið deilur og það talið vera orðið í ósamræmi við nútímakröfur um byggingu íbúðarhúsa.

Hið nýja vísitöluhús er tvær hæðir, kjallari og ris. Kjallarinn er 115.48 fermetrar, en rúmmál hússins alls er 1205 teningsmetrar. Húsið er steinsteypt og samkvæmt lýsingu þeirra félaga miðað við fyllstu nútímakröfur. Gert er ráð fyrir, að hin nýja vísitala eftir 1. okt. 1955 verði fundin á grundvelli þessa húss og þá einnig tengd eldri vísitölu, reiknaðri út samkvæmt áðurnefndum lögum, nr. 87 1943, með því að margfalda hina fyrrnefndu með tölunni 9.69. Hagstofunni er enn falinn úrskurður vafaatriða.

4. gr. frv. gerir og ráð fyrir, að hagstofunni ásamt húsameistara ríkisins verði falin athugun á tíu ára fresti um það, hvort byggingartaxtinn hafi breytzt svo, að endurskoðun á grundvelli vísitölunnar sé nauðsynleg.

5. gr. frv. gerir ráð fyrir, að fyrsti útreikningur samkvæmt fyrrgreindri aðferð verði miðaður við verðlag í febrúar 1957.

Í fyrrnefndu áliti er gerður nokkur samanburður á þessum nýja grundvelli og hinum eldri á 14 kostnaðarliðum bygginganna, miðað við verðlag 1. okt. 1955 í báðum tilfellum.

Þessir liðir eru:

1. Trésmíði. 2. Múrsmíði. 3. Erfiðisvinna og akstur. 4. Málun. 5. Raflögn. 6. Eldfæri, miðstöð, hreinlætistæki o.fl. 7. Pappi, veggfóðrun, gólfdúkur. 8. Þakjárn, steypujárn, vír o. fl. 9. Hurða- og gluggajárn, saumur, gler o.fl. 10. Timbur. 11. Hurðir og gluggar. 12. Sement og kalk. 13. Sandur og möl. 14. Ýmislegt.

Samkvæmt þessum samanburði hafa aðeins tveir liðir lækkað, múrsmíði um 4.8% og raflögn um 1.3%. Einn liður, þakjárn, steypujárn, vír o.fl., stendur í stað, en allir aðrir liðir hækka eitthvað. Mest er hækkun á sandi og möl, 4.4%, og minnst á hurðum og gluggum, 0.3%. Til grundvallar þessum samanburði er lagður kostnaðarsamdráttur gamla vísitöluhússins.

Mikið hefur verið rætt um byggingarkostnað á undanförnum árum og þá sérstaklega, hverja leið beri að fara til þess að lækka hann. Efni til bygginga og vinnulaun hafa hækkað, og sífellt aukast kröfurnar um vandaðra og íburðarmeira húsnæði.

Með tilliti til þessarar staðreyndar hefur mönnum verið mikill vandi á höndum varðandi tillögur um lækkaðan byggingarkostnað. Í þessu sambandi hafa hugir manna beinzt æ meir að byggingu fjölbýlíshúsa. Get ég ekki stillt mig um að lesa hér upp niðurstöður þeirra Guðlaugs og Bárðar af athugunum þeirra um þetta efni, með leyfi hæstv. forseta, en þeir segja svo:

„Niðurstaða þessara athugana er sú, að fengizt hafa upplýsingar um tvær sambyggingar, þar sem raunverulegt kostnaðarverð á teningsmetra, fært frá raunverulegum byggingartíma til 1. okt. 1955 nokkurn veginn eftir breytingum á kostnaðarverði vísitöluhússins á sama tíma, er 822 og 780 kr. á rúmmetra, og er þá talið, að söluhagnaður jafngildi meistaraálagi, sem ekki virðist óeðlilegt. Auk þess hafa fengizt upplýsingar um tvær íbúðir í sambyggingu, þar sem hliðstæð tala er 792 og 797 kr. á rúmmetra. Kostnaðurinn 1. okt. 1955 á vísitöluhúsinu er 925 kr. á rúmmetra, þannig að íbúðirnar í sambyggingunum eru 11–151/2% ódýrari. Miðað við 11.9% hækkun byggingarkostnaðar frá 1. okt. 1955 til 30. sept. 1956 mun teningsmetrinn í sambyggingunum kosta 873 kr. til 920 kr. Þar sem slíkur samanburður getur aldrei orðið fullkomlega nákvæmur, þar sem vísitöluhúsið er ekki nákvæmlega þverskurður áðurgreindra bygginga, heldur öllu vandaðra, virðist ekki ástæða til annars en að binda sig við það, sem áður hefur verið sagt í samræmi við reynslu þekktra byggingarfrömuða, að það sé yfirleitt a.m.k. 10% ódýrara að byggja í sambyggingu en sjálfstætt.“

Þetta er umsögn þeirra félaga um þá athugun, sem þeir hafa gert. Hér er þó ekki reiknað með þeirri lækkun, sem eðlilega yrði á kostnaði bæjar- og sveitarfélaga, ef byggingarframkvæmdum íbúðarhúsa yrði beint að sem mestu leyti inn á byggingu fjölbýlishúsa. Kostnaður við gatnagerð, holræsa- og raflagnagerð yrði að sjálfsögðu mun minni og möguleikar til skattalækkunar þar af leiðandi meiri.

Þessar staðreyndir er rétt að menn hafi í buga, þegar rætt er um lausn hins gífurlega húsnæðisskorts annars vegar og ástæðurnar, sem liggja til þess neyðarástands, sem nú ríkir hjá húsbyggjendum, hins vegar.

Ég hef hér reynt að drepa á það helzta, sem tengt er þessu máli, samkvæmt þeim gögnum, er fyrir liggja. Rétt er þó að geta þess að lokum, að n. þótti ekki ástæða til þess að leita umsagnar um svo vel undirbúið mál, en hagstofustjóri hafði haft með í ráðum teiknistofu landbúnaðarins, og hafði hún engar athugasemdir við frv. að gera.

N. leggur — eins og ég gat um í upphafi — til, að frv. verði samþ. eins og það var í upphafi fram borið.