26.03.1957
Efri deild: 77. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

133. mál, vísitala byggingarkostnaðar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þó að ég kveðji mér hljóðs, þá er það í raun og veru ekki til þess að gera neinar aths. við frv. út af fyrir sig, en það er til að biðja n. að athuga, hvort mögulegt kunni að vera — ég efast um, að það sé hægt — að koma inn í þetta frv. eða á annan veg ákvæðum, sem geri meira samræmi í vátryggingarverði húsa en nú er. Ég hef fjöldamörg dæmi um það, að nákvæmlega eins hús eru vátryggð fyrir ákaflega mismunandi upphæðir, og þegar ég hef verið að reyna að leita mér upplýsinga um, af hverju þetta stafi, þá hefur mér helzt skilizt, að það stafi af því, að áður fyrr fékk hver húseigandi að ráða, hvað mikið hann vátryggði sitt hús fyrir, og þá voru sumir þannig gerðir, að þeir vildu vátryggja þannig, að þeir fengju fullar bætur fyrir andvirði hússins, ef það brynni, svo að þeir gætu byggt sér annað, en aðrir vildu spara sér aura í von um, að það brynni ekki, og höfðu því vátryggingarverðið lægra. Þegar svo komu þau ákvæði, að eftirleiðis skyldi vátryggingarverðið breytast eftir vísitölunni, var grunnurinn afar misjafn nm það, hvernig húsin voru virt. Sum voru þó þannig vátryggð, að þau voru vátryggð fyrir allt að því helmingi lægri upphæð en önnur. Þessu er að engu leyti breytt í frv. Það er bara ætlazt til, að eftir þessari nýju byggingarvísitölu hækki í framtíðinni vátryggingarupphæðin, en ekki reynt á neinn hátt að rétta grunninn, svo að hann sé sambærilegur, áður en hækkunin kemur, jöfn á allt. — Það var bara til að vita það og spyrja n. að því, hvort þeir gætu ekki hugsað sér það milli umræðna að athuga, hvort það mundi vera möguleiki á því að finna leið til þess að láta grunninn vera sambærilegan, þegar vísitalan fer að verka áfram til hækkunar, því að það er hann ekki núna, það skal ég fullyrða, og gæti komið með dæmi um ótal húseignir í bænum alveg nákvæmlega eins, t.d. að taka fyrstu húsin, sem byggð voru hérna vestur í bænum hjá samvinnufélagi, Byggingarsamvinnufélagi Reykjavíkur. Þau voru byggð eins fleiri, og það munar upp undir helming á vátryggingarupphæðinni á þeim eftir því, hvað hátt þau voru þá vátryggð, þegar vísitalan fór að verka og láta þær hækka eftir henni.

Þetta vildi ég biðja n. að athuga, því að ég hef ekki athugað þetta sjálfur, fyrr en ég las frv. núna, og er ekki viss um, hvort það er hægt að setja inn nein ákvæði, sem leiðrétti þennan mismun á sjálfu grunnverðinu á vátryggingunni núna, áður en vísitalan leggst á. En ef það væri mögulegt, þá teldi ég það til ákaflega mikilla bóta.