06.12.1956
Sameinað þing: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2318 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

Endurskoðun varnarsamningsins

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það eru nokkur atriði í sambandi við efni málsins, sem mig langar til að víkja að. Þó vil ég, áður en ég byrja á því, láta í ljós, að það er með nokkuð undarlegum hætti, sem fram koma tveir hæstv. ráðh. ríkisstj. í þessu máli. Annar þeirra, hæstv. utanrrh., hefur vafið sig í mikilli þoku skynsamlegra hugleiðinga, og það er erfitt að komast að kjarna málsins, en svo kemur aftur hinn hæstv. ráðh., félmrh., og gloprar út úr sér hverri vitleysunni á fætur annarri í þessu máli. Ef þetta héldi nú dálítið áfram og hann fengi að tala nokkrum sinnum enn, færi þetta mál kannske dálítið að skýrast betur fyrir þingmönnum.

Það er eitt atriði, sem er nokkuð verulegt og hv. 1. þm. Reykv. spurði hæstv. utanrrh. að að gefnu tilefni, en utanrrh. leiddi hjá sér að svara, og það var það, að hann spurði: Er það nýjung, að Íslendingar einir ákveði, hvenær herinn skuli fara hér úr landi? Er það nýjung, eða er það ekkert annað en það, sem alltaf hefur verið í varnarsamningnum frá 1951? En félmrh., hefur haldið því hér fram í fyrstu ræðu sinni og enn þá miklu oftar og skýrar í síðustu ræðu sinni, að það væri eiginlega það eina, sem verulegu máli skipti í þessari samningagerð, ef samningagerð á að kalla, að nú væru það Íslendingar einir, sem réðu, hvenær herinn ætti að fara, og vitnaði í ákvæði um það. En þessi ákvæði í þessum svokallaða samningi hæstv. ríkisstj. nú við Bandaríkin eru bara nákvæmlega orði til orðs þau sömu sem eru í 7. gr. varnarsamningsins frá 1951. Menn verða að átta sig á því, að það er ekki hægt að slá þeirri blekkingu fram, hvorki hér í þinginu né í augu almennings, að hér hafi eitthvað nýtt átt sér stað, að hér eftir séu Íslendingar sjálfir, — en hafi hins vegar ekki haft aðstöðu til þess áður, — sem ákveði, hvenær herinn skuli fara, því að það var eitt af veigamestu atriðunum, sem fyrst og fremst var komið inn í varnarsamninginn 1951 fyrir forustu og atbeina þáv. utanrrh., Bjarna Benediktssonar, að þetta var í höndum Íslendinga einna og íslenzku ríkisstj. Í 7. gr. segir, að hvor ríkisstj. geti hvenær sem er að undanfarinni tilkynningu til hinnar ríkisstj. farið þess á leit við ráð Norður-Atlantshafsbandalagsins, að það endurskoði, hvort lengur þurfi á að halda framangreindri aðstöðu, og geri till. til beggja ríkisstj. um það, hvort samningur þessi skuli gilda áfram. Hvenær sem er getur hvor ríkisstj. gert þetta. Og svo heldur áfram, með leyfi hæstv. forseta: „Ef slík málaleitun um endurskoðun leiðir ekki til þess, að ríkisstjórnirnar verði ásáttar innan 6 mánaða“ — eins og segir í þessum nýja samningi — „frá því að málaleitunin var borin fram, getur hvor ríkisstjórnin hvenær sem er eftir það sagt samningnum upp, og skal hann þá falla úr gildi 12 mánuðum síðar.“

Þetta hefur verið í gildi, og þetta er enn í gildi og — eftir því sem hæstv. utanrrh. lýsti hér yfir áðan — algerlega óbreytt í gildi. Þetta er ákvæði 7. gr. Henni hefur ekki verið breytt, eftir því sem hann segir. En hæstv félmrh. segir, að það sé aðalatriðið við þessa samninga nú, að nú getur ríkisstj. Íslands sjálf ákveðið, hvenær herinn skuli fara. Og er svo hægt að koma og segja: Tveir hæstv. ráðh. hafa ekki verið tvísaga? Annar segir það svart, sem hinn segir hvítt.

Hæstv. félmrh. sagði: Ég er alveg sannfærður um það, og ég hef sannfærzt um það af þeim umræðum, sem hér hafa farið fram í kvöld, að ef sjálfstæðismenn hefðu haft áhrif í stj. landsins nú, þá hefði verið samið til langs tíma við Bandaríkin. — Mig langar til að spyrja: Hverjir höfðu forustu um samningana 1951, og til hvað langs tíma var samið við Bandaríkin? Það var samið ekki lengur en íslenzkri ríkisstj. þóknaðist sjálfri að hafa herinn í landinu, eins og nú er gert.

Það er þess vegna hjákátlegt, þegar hæstv. félmrh. er að tala um, að sjálfstæðismönnum sé bölvanlegast við þetta ákvæði núna, að Íslendingar geti sjálfir ákveðið, hvenær herinn skuli fara, — ákvæði, sem hefur alltaf staðið og hefur engu verið breytt um í því samkomulagi, sem nú hefur verið gert.

Þá vil ég víkja að einu atriði í sambandi við fastanefndina, sem hefur vakið nokkra kátínu manna, að á að vera skipuð „fínum“ mönnum eða „ábyrgum“ fulltrúum eða hvað á að kalla þá. Mér skilst helzt á hæstv. utanrrh., að í raun og veru sé þetta heldur engin breyting á því, sem áður hafi verið, annað en það, að það sé verið að gera form um þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu að raunhæfara atriði með því að skipa þessa n. og menn geti víð og við — eins og þar stendur — ræðzt við. En má ég vekja athygli á því: Höfum við Íslendingar ekki alltaf haft fastafulltrúa hjá Atlantshafsbandalaginu? Höfum við ekki fastan ambassador hjá ráði Atlantshafsbandalagsins? Og er ekki einmitt hæstv. utanrrh. nú eins og fyrirrennarar hans fyrr og síðar að fara á fund Atlantshafsráðsins? Og þar með höfum við að sjálfsögðu alls ekki verið að framfylgja neinu formi. Þvert á móti höfum við Íslendingar haft frá upphafi vega fullkomlega efnislega aðstöðu og ástæðu til að geta fjallað um málefni okkar innan Atlantshafsbandalagsins og alls ekki á formlegan hátt.

Út af fyrir sig má hins vegar segja, að það spilli ekkert þessu máli, þó að einhverjir 3 menn héðan og 3 frá Bandaríkjunum komi til viðbótar sem svokölluð fastanefnd til þess að vinna að þessu. En ég vil vekja athygli á því, að það er algerlega röng túlkun á þátttöku okkar og aðstöðu í Atlantshafsbandalaginu, ef því er haldið fram hér, eins og hæstv. utanrrh. vill vera láta, að í raun og veru hafi þátttaka okkar verið meira form en efni.

Nokkuð hefur það borið á góma hér, þar sem talað er í þessu nýja samkomulagi um aðstöðu okkar Íslendinga til þess að taka sjálfir störf á hendur, er varða varnir landsins. Og þegar nú einn af stjórnarsinnunum kemur hér, hv. 3. þm. Reykv. (EOl), og talar um, að það sé beinlínis háskalegt, sem fram er tekið um þátttöku Íslands í störfum, er snerta varnir landsins, er ekki að furða, þó að aðrir, sem ekki tilheyra stjórnarliðinu, vilji gera þetta nokkuð að umræðuefni. Ég þarf ekki að fara mikið út í það umfram það, sem þegar hefur verið gert, en ég vek athygli á því, að þegar þetta atriði er þannig orðað nú, að það á að undirbúa, að svo miklu leyti sem hernaðarlegur viðbúnaður leyfir, að Íslendingar taki í ríkara mæli en áður að sér störf, er varða varnir landsins, á meðan völ er á hæfum mönnum til slíkra starfa, þá er ekki nema von, að menn eigi nokkuð erfitt með að átta sig á, hvað raunverulega er með þessu meint.

Hæstv. utanrrh. segir: Það hefur alls ekki verið minnzt á neina þátttöku Íslendinga í hernaðarstörfum. — En þeir eiga þó að taka að sér í ríkara mæli en áður störf, er varða varnir landsins. Og ég vek athygli á því, að þetta atriði var þannig orðað í Alþingissamþykktinni frá 28. marz, að Íslendingar áttu að taka að sér gæzlu og viðhald varnarmannvirkja, þó ekki hernaðarstörf. Munurinn liggur ekki aðeins í því, að þá var beinlínis tekið fram, að Íslendingar ættu ekki að taka að sér hernaðarstörf, heldur var orðalagið þannig, að það átti að stefna að því, að Íslendingar gætu tekið að sér gæzlu og viðhald varnarmannvirkjanna. En nú verða þeir að taka að sér störf, er varða varnir landsins, og er auðvitað miklu ótilteknara orðalag.

Um einstök atriði þessa máls skal ég svo ekki fjölyrða miklu meira. Ég vil þó segja það, að hv. 3. þm. Reykv. gladdist nú í lok ræðu sinnar yfir því, að þrátt fyrir þessa samninga stæði þó allt saman enn þá óbreytt. Alþingissamþykktin frá 28. marz um, að herinn skuli fara, stendur alveg óbreytt, stjórnarsamningarnir um, að herinn skuli fara, standa óbreyttir, og hv. þm. komst þannig að orði, að hann og hans flokksmenn eiginlega féllust nú á þetta, þessa samninga, að herinn skyldi áfram vera í landinu, til þess að samþykktin, eins og hann orðaði það, frá 28. marz verði sett í gildi. Þess vegna föllumst við á þetta. — Til þess að samþykktin frá 28. marz verði sett í gildi, m.ö.o.: til þess að herinn fari úr landi, fallast þessir menn á það, að hann skuli vera í landi.

Mönnum liggur við að spyrja almennt, þegar þetta mál er lagt hér fyrir þingið, og það er í raun og veru atriði, sem bæði hv. þm. og almenningur eiga að gera sér grein fyrir: Hvað er það, sem hér hefur gerzt? Því hefur af hálfu okkar sjálfstæðismanna verið fagnað, að hæstv. utanrrh. hefur haft forustu um það, að stjórnarliðið hefur snúið frá villu síns vegar og stefnt þessum málefnum okkar Íslendinga inn í þann farveg, sem við sjálfstæðismenn töldum að heillavænlegastur væri í marz s.l., eða m.ö.o. fyrir alþingiskosningar og eftir alþingiskosningar, því að sá er munur á stjórnarliði hér á þingi og stjórnarandstöðu, að við höfum í þessu máli sem öðru sömu skoðun og við höfðum fyrir alþingiskosningarnar, en stjórnarsinnar virðast þeim mun öfugri í málum eftir kosningarnar sem málin eru alvarlegri og viðurhlutameiri.

Ég spurði áðan: Hvað er það, sem hefur gerzt? Ja, það er sagt, að það hafi verið gerður samningur, Bandaríkjamenn einhverjir hafi komið hér, verið hér 20.–24. nóv. En um hvað hefur verið samið? Hæstv. utanrrh. sagði: Það var ekki minnzt á varnir landsins, ekki minnzt á varnarframkvæmdir. — Svo kom náttúrlega hæstv. félmrh. og sagði, að það hefði ekki þurft, því að það hefði ekki verið hægt að hnekkja því, sem fyrrv. stjórn hefði verið búin að semja um í þessu sambandi. En var þá minnzt á það? Nei, það hefur, eftir því sem sagt er, ekki verið minnzt á varnir, ekki minnzt á varnarframkvæmdir. Það er beinlínis spurt: Er einhverjum bókstaf varnarsamningsins frá 1951 breytt — og sérstaklega er spurt: Er 7. gr. breytt? Verður að leita til Atlantshafsbandalagsins og fá umsögn þess, áður en 12 mánaða fresturinn líður, eins og þar segir, eða á að ganga fram hjá því? Hæstv. utanrrh. segir: Henni er ekki breytt: Og þó, í sama orðinu er nú látið að því liggja, að eitthvað sé þetta öðruvísi en það var. En það var látið fylgja yfirlýsingunni eða fréttatilkynningunni til íslenzku þjóðarinnar, að aðrir samningar en hér eru tilgreindir hafi ekki verið gerðir og að samningum þessum sé ekki ætlað að breyta neinu í sambandi við uppsagnarákvæði í 7. gr. varnarsamningsins frá 1951.

Nú bið ég hv. þm. að athuga: Ef þessar höfuðkempur, sem hér sitja nú í stjórnarliði, hefðu ekki verið eins skeleggar og þær voru fyrir kosningar og ekki gert sig eins mannalegar framan í kjósendur og lýst því yfir þá, að þær ætluðu að sjá um, að herinn færi úr landi, og engin alþingissamþykkt verið gerð 28. marz, engin samþykkt, og ef svo þessir sömu herrar hefðu gengið fram hjá því, þegar núverandi hæstv. ríkisstj. var mynduð, að minnast á varnarmálin í stjórnarsamningnum, m.ö.o. ekki sagt: Við ætlum að sjá um það, að herinn skuli fara þegar úr landi, — ef ekkert af þessu hefði verið gert og í ofanálag hefði svo ekki verið gerður þessi svokallaði samningur, sem hér er, stæðum við þá í öðrum sporum en við stóðum 27. marz s.l.? Að engu öðru en því leyti, að valdið hefur stórkostlegri truflun í efnahags- og atvinnulífi okkar íslendinga þessi sýndarmennska, sem núverandi hæstv. stjórnarherrar hafa haft í frammi með því að nota þetta alvarlegasta mál þjóðarinnar sem bitbein í alþingiskosningunum og renna því svo niður öllu aftur til þess að geta myndað stjórn og taka í ríkisstjórnina jafnvel kommúnista, sem þessir sömu menn voru búnir að lýsa yfir fyrir kosningarnar að undir engum kringumstæðum væri hægt að vinna með. Ég segi: Það þurfti enga samninga. Þessir menn hefðu bara ekki þurft að gefa allar þær mörgu yfirlýsingar, sem þeir hafa verið að keppast við að éta ofan í sig undanfarið. Og það þurfti ekki meira en að þeir hefðu komið sér saman um það í stjórnarráðinu að senda skeyti til Washington, sem hljóðaði eitthvað á þessa leið: Stjórnarflokkarnir eru búnir að koma sér saman um að éta ofan í sig allar yfirlýsingarnar í varnarmálunum eins og öðrum málum, sem þeir hafa gefið yfirlýsingar um. — Það þurfti þetta ekki meira, og þá stóðu þeir í sömu sporum og áður.