04.04.1957
Neðri deild: 80. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

102. mál, heilsuverndarlög

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er stjfrv. á þskj. 204 og nál. er nr. 398. Nefndin hefur rætt þetta frv. á nokkrum fundum og er einróma sammála um að leggja til, að það sé samþykkt. Þannig stendur á því, að þetta frv. er lagt fram, að þegar lögin um almannatryggingar voru endurskoðuð á siðasta þingi, varð að ráði að hrófla ekki við heilsuverndarlögunum, sem höfðu verið sett á þinginu þar næst á undan. En þar sem það var ákveðið, þá þótti ekki lengur ástæða til að hafa í almannatryggingalögunum heilsugæzlukaflann, sem fjallaði að verulegu leyti um sama efni, og var talið eðlilegra að fella þau ákvæði þess kafla, sem áður hafði verið beitt við heilsuverndina, þ.e.a.s. skipun yfirlækna heilsuverndarstöðvanna, inn í lögin um heilsuvernd. Og þetta er meginefni þessa máls. Var þetta lagt til upphaflega af nefndinni, sem endurskoðaði almannatryggingalögin, flutt á síðasta þingi af þáverandi hæstv. ríkisstj., og var þá einróma samþykkt af þeirri n., sem um það fjallaði í þessari hv. d., og samþykkt út úr deildinni, en varð ekki lokið á því þingi. Síðan hefur hæstv. núverandi ríkisstj. flutt þetta, og nefndin, sem nú hefur fjallað um það, leggur einróma til, að það sé samþykkt.