06.12.1956
Sameinað þing: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2325 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

Endurskoðun varnarsamningsins

Ólafur Thors:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. var nú í dálitlum vandræðum með sjálfan sig og hann hefur verið það fyrr. Það er ekkert skrýtið. Hann hugsaði sér nú að svara ákveðnum fsp. og ákveðinni ádeilu með því að segja: Þetta kom frá þingstrák nr. 1, og þess vegna þarf ég ekki að svara því. — Og hann sagði, að ég hefði sett óvirðulegan blæ á þessar umræður. „Öðrum sæmdi, en honum ekki“, bætti hann við. Það er ekki von, að það sæmi þingstrák nr. 1 að vera óvirðulegur. Það er ekki von. En er það óvirðulegt, þó að ég segi, að þetta sé hugsanagrautur, herra forseti? Ég spyr nú bara.

Þessi hæstv. ráðh. sagði, að það væri hreinn uppspuni, að ráðherrarnir hefðu orðið tvísaga. Ég hafði nefnt um það ýmis dæmi og það fyrst og fremst, að hann hefur sjálfur lýst yfir hér, að frestur hafi verið gefinn í nokkra mánuði í málinu, en hæstv. utanrrh. hefur sagt um það allt annað, nefnilega það, að það sé ótímabundið og ekki miðað við nokkra mánuði frekar en nokkur ár, það fari eftir allt öðrum atvikum. Þetta er að verða ósammála um sjálft höfuðatriðið.

Ég vil svo ekki elta ólar við þennan hæstv. ráðherra. Hann varð fyrir því óhappi í þessari stuttu ræðu sinni að lýsa hyldýpi fávizku um það aðalmál, sem hann er að tala um. Hann vildi hér bregða þeim skildi fyrir sig í þessari ofaníátsveizlu, sem hann nú er búinn að sitja í nokkuð lengi, þar sem hann er nú með aðalkrásina núna, varnarmálin, að það hefði þó unnizt í þessu máli, að nú réði ríkisstj. Íslands ein, hún gæti ráðið því ein, að herinn færi. Ég nenni ekki að vera að lesa upp aftur greinina, sem sá hv. þm., flokksbróðir minn, sem talaði hér á undan mér, las upp, hv. 5. þm. Reykv., en hún ber það auðvitað með sér, sem allir væntanlega vita nema þessi hæstv. ráðherra, að frá því að varnarsamningurinn var gerður hefur þessi réttur fyrir frumkvæði og forustu hæstv. þáverandi utanrrh., Bjarna Benediktssonar, hv. 1. þm. Reykv., verið einhliða okkar, og það hefur aldrei staðið til, að honum yrði afsalað. En hæstv. félmrh. veit þetta ekki. Látið ykkur ekki detta í hug, að þessi maður sé svo óráðvandur, að hann ætli að koma hér og skrökva þessu. Hann segir í einfeldni sinni það bezta, sem hann veit, en hann veit bara svona lítið. Og svona er það á öllum sviðum. En hann veit það þá núna. Hann veit það þá núna, að ríkisstj. Íslands hefur ráðið þessu og hún ræður því enn þá, þó að hann ráði engu í þeirri ríkisstjórn.

Hæstv. forsrh. hefur ekkí verið í nærri því eins mikilli veizlu undanfarið og kommúnistarnir eða Alþýðubandalagsmennirnir, en hann var nú að fá sér svolítinn ábæti samt eftir kræsingarnar, og skal ég nú ekki fara langt út í það. Hann hugðist geta komið vörnum fyrir vini sína með því að segja frá því, að stjórnin væri oft ósammála, þ.e.a.s. einstakir ráðherrar væru ekki alltaf á sama máli. Ég verð nú að segja honum það eftir sjö eða átta ára veru með honum í stjórn, að honum lánaðist hér um bil aldrei að vera á móti mér. Þetta er alveg satt, svo lygilegt sem menn halda það. Hann er nú ekki verri en þetta. Okkur kom nefnilega bara prýðilega saman og því betur sem við vorum lengur saman, þó að hann hafi versnað, eftir að ég sleppti af honum hendinni. En náttúrlega er það rétt, að innan ríkisstj., sem er skipuð mismunandi flokkum, er oft ágreiningur.

Nú spyr ég hæstv. forsrh.: Man hann ekkert eftir smáágreiningi, sem varð 1949 í stjórn Stefáns Jóhanns. Það var ekki ágreiningur um varnarmál landsins. Það var ekki ágreiningur um það, hvort hann mætti binda kaup. Það var ekki ágreiningur um það, sem þeir voru búnir að bölva og bannfæra, gengið. Það var ekki ágreiningur um það, hvort þeir, sem hafa bölvað og bannfært bátagjaldeyri, ættu að hafa bátagjaldeyri í auknum mæli, bara ef væri fundið nýtt form. Það var ágreiningur um minni háttar mál. Hvað gerði Framsfl. þá? Hann rauf stjórnina. Má ég minna kommúnistana á það, svo að þeir læri eitthvað af Framsókn? Hann rauf stjórnina.

Hvað kom fyrir 1953? Var ekki einhver smávegis ágreiningur þá? Hvað gerði Framsókn? Hún rauf stjórnarsamvinnuna.

Hvað kom fyrir 1956? Var ekki einhver lítils háttar ágreiningur þá? En það var allt lítils háttar ágreiningur samanborið við það, sem nú er að ske. Hvað gerði Framsókn þá undir hans forustu? Rauf stjórnina.

Þannig hefur þessi virðulegi hæstv. forsrh. kennt kommúnistum það, að þeir mega kingja og kingja og kingja, en áður en þeir kingja seinasta dropanum eða síðustu tuggunni af heiðarleika, eiga þeir að fara úr stjórninni. Það er það, sem hann hefur verið að kenna þeim. (BBen: Já, en þeir hafa engan heiðarleika.) Nei, ég fullyrði ekkert um það. Hér eru menn, sem alltaf vilja her, hér eru menn, sem aldrei vilja her, og hér eru menn, sem vilja hafa her, ef hætta er á ferðum.

Ég hygg, að eftir að hin hörmulegu tíðindi síðustu vikna voru orðin lýðum ljós, hafi hæstv. forsrh. haldið því fram, að það væri a.m.k. mikið álitamál, hver ófriðarhættan væri í heiminum. Og ég held, að ég muni það rétt, að við umræðurnar um varnarmálatillögu okkar sjálfstæðismanna hér nýverið á þingi hafi hann litið nokkuð öðrum augum á þessi mál en hann gerir nú.

Hæstv. ráðh. sagði: Það gat enginn spáð þeim atburðum fyrir nokkrum mánuðum, sem komnir eru fram í dag. Að engum hvarflaði, að rússneski björninn mundi reyna að kreista lífið úr hinni ungversku hetjuþjóð. Engan grunaði, að það ástand, sem nú ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs, mundi verða ríkjandi.

Ég veit þetta ekkí. Ég veit, að hann telur sig sjálfan vita svo miklu meira en ég tel mig vita í þessum efnum, að hann taldi ekki samboðið virðingu sinni í marzmánuði s.l. að spyrja samstarfsþjóðir okkar í NATO um þetta álit, áður en hann ákvæði, að herinn skyldi fara burt af Íslandi. Það veit ég. Svona miklu meira veit hann en ég í þessum efnum. En ég hefði talið, að það væru til menn í heiminum, sem vissu meira en hann og ég til samans, og það hefði verið ástæða fyrir okkur að spyrja þá ráða. Ég segi nú eins og Hrólfur sterki sagði við syni sína, þegar þeir lágu fjötraðir á Bessastöðum og hann sleit af þeim vopnlaus viðjar: Ykkur var nær að láta minna. — Ég segi það nú við kappann Hermann Jónasson: Ykkur var nær að láta minna. — Fyrir 28. marz þóttuzt þið geta sagt það umheiminum öllum, að nú væri ekki lengur neitt ófriðarbál né nein ófriðarhætta í veröldinni. En þá logaði eldurinn alls staðar undir og hefur nú gosið upp svo áberandi á þessum tveimur stöðum og raunar svo ótrúlega mörgum öðrum í heiminum, að það ætti nú ekki að þurfa mjög mikla spekinga til að skilja, að því fer fjarri, að hættan væri þá liðin hjá. Því fór svo fjarri, að allir viti bornir menn hlutu að skilja, að það var ekki. Og ég staðhæfi, að utanrrh. Íslands hafi þá skilið eins vel og í dag, að hættan var ekki liðin hjá. Ég staðhæfi, að hæstv. forsrh. hafi líka skilið það. Og ég staðhæfi, að allt, sem skeði í þessum málum, var gert til þess að undirbúa, að hæstv. núverandi forsrh. gæti myndað stjórn með þátttöku kommúnista. Það staðhæfi ég nú. Hann er of séður maður, þessi hæstv. forsrh. og þessir hæstv. ráðh. báðir, þeir eru of séðir menn til þess, að þeim hafi skotizt yfir þá staðreynd, að eldurinn logaði alls staðar undir. Og það er engin hending, að hann hefur brotizt út. Það er kannske hending, að hann brauzt út í Ungverjalandi, það er kannske hending, að hann brauzt út fyrir botni Miðjarðarhafsins, en það er ekki hending, að hann brauzt út. Og það væri undarleg hending, ef hann hefði hvergi brotizt út.

Hæstv. forsrh. sagði, og það langar mig að minna hér talsmenn Alþb. á: Ekkert annað en það, sem við höfum gert, ekkert annað en það, sem ríkisstjórn Íslands hefur gert, þ.e.a.s. að óska þess, að herinn verði áfram, ekkert annað, sagði hæstv. forsrh., er í samræmi við yfirlýsingar og vilja ríkisstjórnar Íslands fyrir og eftir kosningar.

Hvað er ríkisstjórn Íslands? Er það bara hann og hans góðu flokksbræður? Er það bara hæstv. utanrrh. og hans kæru flokksbræður? Eða er það kannske líka garmurinn hann Ketill? (Utanrrh.: Á þingmaðurinn við sjálfan sig?) Ónei, ég er ólíkur Katli eins og Guðmundur Í. Guðmundsson Skugga-Sveini. Til þess vantar hann bæði manndóm og annað, en ekki þó gæruna, sem Skugga-Sveinn var í, þegar hann var hengdur. — Já, ég spyr enn, hvað er ríkisstjórn Íslands? Er ríkisstjórn Íslands aðeins tveir flokkar, eða eru það þrír flokkar? Þeir eru óróir, kommúnistarnir, þegar verið er að spyrja um, hvað er ríkisstjórn Íslands. Forsrh. stjórnarinnar hefur lýst yfir, að ekkert annað en það að hafa herinn kyrran sé í samræmi við vilja ríkisstjórnarinnar. Ekkert annað. Og þessu mega þeir nú kingja ofan á allt annað, allar aðrar þrautir, sem þeir hafa orðið að þola.

Hæstv. forsrh. sagði, og ég er honum alveg sammála um það, að það sé einmitt ófriðarhættan og ófriðarhorfur, sem eiga að skera úr um, hvenær varnarlið er í landinu. Og ég get vel verið honum sammála um það, að glögga menn geti nokkuð greint á um, hvenær ófriðarhorfurnar séu meiri eða minni, þó að ég viðurkenni með engu móti, að það hafi verið ástæða til þess í vor í marzmánuði að telja, að ófriðarhorfur væru þá svo hverfandi, að óhætt væri að stefna vörnum burt frá Íslandi án þess að hafa um það samráð við okkar starfsbræður. En nú segi ég: Ef það eru ófriðarhorfurnar einar, sem eiga að ráða þessu, þá spyr ég: Er þá hæstv. félmrh. og sá flokksbróðir hans, sem er svo skynsamur að láta ekki sjá sig hér í dag, hæstv. viðskmrh„ eru þeir þá sammála um það, að herinn eigi að vera hér, meðan ófriðarhorfurnar eru eins og þær eru að dómi hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh.? Eru þeir sammála um það? Og ef þeir eru sammála um það, að herinn eigi að vera hér, meðan ófriðarhorfurnar eru slíkar, af hverju eru þeir þá að flagga með, að þetta elgi að vera aðeins í nokkra mánuði? Það er auðvitað rétt, sem hæstv. félmrh. sagði, svo að hann hafi einhvern tíma rétt fyrir sér: það getur enginn dæmt um, hvenær ófriðarhorfurnar batna svo, að það sé óhætt að staðhæfa, að landið megi vera varnarlaust.

Ég vildi óska eftir, að hæstv. forsrh. svari því: Hvað er ríkisstjórn Íslands? — minnugur þess, að hann hefur lýst yfir hér á Alþingi, að ríkisstjórn Íslands hefði í raun og veru svikið stefnu sína, vilja, sál og samvizku, ef hún hefði gert nokkuð annað en að biðja herinn um að vera kyrran. Er það bara hv. Framsfl. og hv. Alþfl., sem eru í ríkisstjórn? Eða ef Alþb. er talið með í ríkisstj., spyr ég: Taka þeir undir þessa yfirlýsingu forsrh.? Og ég spyr í öðru lagi, ef það eru ófriðarhorfurnar, sem eiga að ráða: Er þá hæstv. félmrh. sammála því, að þær eigi að ráða um dvöl hersins hérna? og ef hann er sammála því: hvers vegna er hann þá að gefa í skyn, að þeir hafi aðeins gefið frest í nokkra mánuði?

Ég vil svo að öðru leyti taka undir það, sem hv. flokksbræður mínir hafa sagt hér, að varðandi sjálft efni málsins, að landið er varið áfram, megum við fagna því, að þessir andstæðingar okkar í stjórnmálum hafa í verki fallizt á okkar rök. Að þeir leiti svo einhverra tylliraka fyrir því að hafa slegizt í fylgd með okkur, það fyrirgef ég þeim alveg, því að meðan þeir fást til að þjóna réttu máli, þá legg ég minna upp úr hinu, þó að þeir skammist sín fyrir að gera það eða séu að koma með einhverjar tylliástæður fyrir því, að þeir hafi gert það.