31.01.1957
Neðri deild: 48. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

206. mál, skattfrádráttur

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það var eitt atriði í sambandi við þetta mál, sem ég vildi gjarnan minnast á, áður en málið fer til nefndar.

Það er auðvitað augljóst, hver hugsunin er með þessu frv., og það er að veita sjómönnum nokkur sérfríðindi vegna þeirrar miklu nauðsynjar að fá menn til þess að starfa á fiskiskipaflotanum, og hefur sú hugsun, sem hér liggur á bak við, að sjálfsögðu við full rök að styðjast og mikla nauðsyn. En í sambandi við þessi hlunnindi hafa vaknað aðrar spurningar, eins og náttúrlega oft vill verða, þegar einhverjum eru veitt sérhlunnindi. En það, sem ég hér sérstaklega vildi minnast á, snertir það fólk, sem vinnur við fiskvinnslu og fiskmóttöku í landi, þ.e.a.s. það af því fólki, sem hefur þurft að sækja vinnu fjarri sínum heimilum. Þetta fólk verður fyrir miklum aukaútgjöldum, og þó að segja megi, að starf þess sé ekki eins erfitt og þeirra, sem sjóinn sækja, þá er þó þetta fólk engu síður nauðsynlegt, til þess að hægt sé að stunda fiskveiðarnar og vinna úr þeim afla, sem í land kemur, og hefur oft viljað brenna við jafnvel, að erfitt væri að fá slíkt fólk til starfa. Nú vildi ég leyfa mér í fyrsta lagi að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. fjmrh., hvort það hefði ekki komið til athugunar í sambandi við þetta mál, hvort ekki væri unnt að veita slíku fólki, sem fer á vertíð á öðrum stöðum fjarri heimilum sínum, þarf oft að leggja í mikinn aukakostnað, — oft er hér um fjölskyldumenn að ræða, — einhver hlunnindi, þó að þau kannske væru ekki eins mikil og hér eru veitt sjómönnum. Og ef svo er ekki, þá hefði ég gjarnan viljað beina því til þeirrar hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, hvort hún vildi ekki taka það til athugunar, hvort ekki væri sanngjarnt og ekki væri auðið að koma við slíkum sanngjörnum frádrætti.

Ég skal játa það, að ég hef ekki hugsað þetta mál til hlítar, þó að oft hafi verið á það minnzt við mig af fólki, sem hér á hlut að máli. Það vill nú svo til, að úr mínu kjördæmi fer mikill fjöldi af fólki til vertíðarstarfa á Suðurlandi, vegna þess að þannig er nú hagað okkar atvinnuháttum, að það eru nokkur skipti á því, hvaðan fiskimið eru sótt, eins og kunnugt er. Hér er vetrarvertíð við Suðurland og þá ekki um mikinn afla að ræða fyrir norðan, eða a.m.k. hefur ekki verið svo. Og enn fremur er hitt, að því miður hafa nú sakir þannig staðið vegna aflabrests fyrir Norðurlandi almennt, að fólk, sem býr þar í kauptúnunum, hefur þurft í mjög ríkum mæli að sækja atvinnu sína til annarra staða, með þeim mikla kostnaði, sem af því leiðir.

Ég hef ekki hugsað það, hvernig væri hægt að forma þetta frá „skattteknisku“ sjónarmiði, ef svo mætti segja. Það eru margir hlutir, sem þar þarf að hafa í huga, til þess að það komi rétt og skynsamlega út. En ég vildi á þessu stigi málsins, áður en ég geri nokkrar ráðstafanir til þess að flytja um það brtt. við þetta frv., mælast til þess við hv. n., að hún tæki þetta til athugunar, eftir atvikum þá í samráði við hæstv. fjmrh., ef hann kynni að vilja sinna þessu eitthvað eða það hefði borið á góma í sambandi við afgreiðslu þessa máls. En í stuttu máli sagt, þá held ég, að hér sé um atriði að ræða, sem sé sanngirnismál og megi líta á nokkuð út frá því sama sjónarmiði og liggur til grundvallar þeim fríðindum, sem hér eru veitt sjómönnum, fríðindum, sem veitt eru í því skyni að stuðla að því að laða fólk að þessum mikilvæga atvinnuvegi þjóðarinnar.