08.03.1957
Neðri deild: 64. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

206. mál, skattfrádráttur

Frsm. (Eðvarð Sigurðsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft til athugunar stjfrv. það, sem hér liggur fyrir, um aukinn skattfrádrátt til handa skipverjum á fiskiskipum, og leggur n. til, að frv. verði samþ. með nokkrum leiðréttingum, eins og nánar segir í áliti n. á þskj. 283. Efni frv. er þetta:

1. gr. þess gerir ráð fyrir, að frádráttur sá, er togarasjómenu hafa notið við ákvörðun skatts vegna hlífðarfatakostnaðar og verið hefur 300 kr. fyrir hvern lögskráningarmánuð samkv. skattalögunum frá 1954, hækki um 200 kr. í 500 kr. fyrir hvern lögskráningarmánuð og skulu nú einnig matsveinar og aðstoðarmenn í vélarrúmi njóta þessa frádráttar, en til þeirra hefur frádrátturinn ekki náð áður; enn fremur að aðrir fiskimenn, sem notið hafa skattfrádráttar samkvæmt sömu l. og af sömu ástæðum, fái hækkun á frádrættinum um 300 kr., úr 200 kr. í 500 kr. á mánuði. Er þá skattfrádráttur fiskimanna vegna hlífðarfatakostnaðar orðinn hinn sami fyrir alla, sem hans njóta.

2. gr. frv. gerir ráð fyrir, að til viðbótar ákvæðum skattalaganna frá 1954 og þeim breytingum, sem felast í 1. gr. þessa frv., verði öllum skipverjum, sem verið hafa lögskráðir á íslenzk fiskiskip í 3 mánuði eða lengur á viðkomandi skattári, veittur sérstakur frádráttur við ákvörðun tekjuskatts og nemi sá frádráttur 500 kr. fyrir hvern lögskráningarmánuð.

Vegna óska, sem fram komu í fjhn., þegar hún hafði málið til meðferðar, hefur skattstjórinn í Reykjavík látið í té nokkrar upplýsingar um, hve mikilli skattalækkun þessi frádráttur nemur á tilteknar tekjur fiskimanna. Í bréfi skattstjórans segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir ósk yðar hef ég látið athuga, hvaða áhrif hinn aukni frádráttur til handa fiskimönnum muni hafa á skattagreiðslu þeirra. Athugunin er gerð þannig, að tekið er af handahófi framtal skipstjóra og háseta á fiskibáti og framtal 2. stýrimanns og háseta á togara. Einnig er sýnt, hver áhrif frádrátturinn hafi, ef hann verður látinn gilda við álagningu útsvars í Reykjavík.“

Mér þykir rétt að geta þess hér, að frádráttur sá, sem verið hefur í l., hefur einnig verið látinn gilda um álagningu útsvara hér í Reykjavík og ég hygg í flestum öðrum kaupstöðum, og er ekki dregið í efa, að sá háttur verði áfram hafður einnig um þessa hækkun, enda til þess ætlazt af báðum aðilum, er að samkomulagi því stóðu, sem að baki þessu frv. liggur. En í bréfi skattstjórans segir áfram þannig:

„Allar tölur eru samkvæmt gjaldstigum frá 1956 á tekjur ársins 1955. Dæmin líta þannig út: a. Háseti á togara, einhleypur, lögskráður í 10 mánuði. Tekjuskattur var 3575 kr., verður 2375. Útsvar var 7670, verður 6070 kr.

b. Stýrimaður á togara, giftur með 1 barn á framfæri, lögskráður í 11 mánuði. Tekjuskattur var 6187 kr., verður 4260 kr. Útsvar var 12360 kr., en verður 10165 kr.

c. Skipstjóri á fiskibáti, giftur með þrjú börn á framfæri, lögskráður í 6 mánuði. Tekjuskattur var 15275 kr., verður 14015 kr. útsvar var 21500 kr., verður 20400 kr.

d. Háseti á fiskibáti, einhleypur, lögskráður í 6 mánuði. Tekjuskattur var 6932 kr., en verður 5890 kr. Útsvar var 11560 kr., en verður 10515 kr.“

Af þessum dæmum sést, að hér er um þó nokkra skattalækkun að ræða, einkum hjá þeim, sem lögskráðir eru meiri hluta ársins.

Í desember s.l., þegar fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar áttu í samningum við hæstv. ríkisstj. um lausn efnahagsmálanna, voru einnig á dagskrá kröfur sjómanna um nýtt skiptaverð þeim til handa og fleira af því tagi, en samningum þeirra hafði þá verið sagt upp. Fulltrúar sjómanna- og verkalýðsfélaganna gerðu þá m. a. kröfu um aukin skattfríðindi til handa fiskimönnum. Frv. það, sem hér er til umr., er einungis staðfesting á því samkomulagi, er varð milli samningamanna sjómanna- og verkalýðsfélaganna annars vegar og hæstv. ríkisstj. hins vegar varðandi skattafríðindin.

Eftir að fjhn. afgr. álit sitt um frv., hefur hv. 2. þm. Reykv. flutt tvær brtt. við það. Hin fyrri þessara till. er um, að vélstjórar á togurum verði einnig aðnjótandi þeirra fríðinda, sem felast í 1. gr. frv. Síðari till. er um að hækka upphæðina í 2. gr. frv. úr 500 kr. í 1000 kr. fyrir hvern 1ögskráningarmánuð.

Um fyrri till. hv. 2. þm. Reykv. er þetta að segja:

Fyrir fundum fjhn. lá bréf frá Vélstjórafélagi Íslands sama efnis og till. hv. þm.

Eins og ég sagði áðan, er frv. þetta staðfesting á samkomulagi hæstv. ríkisstj. við fulltrúa tiltekinna sjómanna- og verkalýðsfélaga, sem fulltrúarnir gerðu að sjálfsögðu einvörðungu fyrir sína umbjóðendur. N. sá því ekki ástæðu til að prjóna frekar við frv.

Auk þess ber að geta þess, að vélstjórar á togurum verða nú aðnjótandi þeirra fríðinda, sem felast í 2. gr. frv., eins og aðrir, sem lögskráðir eru á íslenzk fiskiskip.

Um síðari till. hv. 2. þm. Reykv. er það eitt að segja, að hún sver sig ótvírætt í ætt við aðrar yfirboðstillögur, er svo mjög hafa verið áberandi hjá hv. sjálfstæðismönnum hér í þinginu að undanförnu.

Ég vil taka það fram hér, að verkalýðshreyfingin telur sér skylt að standa við alla samninga, sem hún gerir af fúsum og frjálsum vilja, og eru slíkir samningar sem þessir ekki þar nein undantekning. Ég ítreka till. n. um, að frv. verði samþ. með þeim leiðréttingum, sem hún hefur á því gert.