08.03.1957
Neðri deild: 64. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

206. mál, skattfrádráttur

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég flyt tvær brtt. við frv. á þskj. 289. Ég gat þess við 1. umr. málsins, að mér þætti allt of lítill frádráttur, sem sjómönnum er ætlaður með því að veita þeim 500 kr. frádrátt fyrir hvern úthaldsmánuð. Fyrir 10 mánaða úthald, sem er nú líklega það venjulega, geta þeir dregið 5000 kr. frá sínum launum.

Hv. frsm. leyfði sér að halda því fram, að hér væri um venjulega yfirboðstillögu að ræða. Það kann vel að vera, að hann f.h. verkalýðsfélaganna hafi skuldbundið sig til að fara ekki hærra en þetta. En hitt verð ég að segja, að úr því að svona till. er komin fram, finnst mér nokkuð smátt skammtað til þeirra manna, sem hafa áhættumestu og erfiðustu atvinnu í þessu landi, að vera skuli um einar 5000 kr. að ræða, er þeir mega draga frá sínu kaupi og ekki kemur til skattlagningar.

Ef till. mín er samþ., má gera ráð fyrir, að um 10 þús. kr. frádrátt sé að ræða, og það er að mínu áliti hið minnsta, sem kemur til greina í þessu efni. Það væri þá einhver hvöt fyrir menn, ef þeir fengju þennan frádrátt, að stunda sjómennskuna meira en þeir gera nú, sem sjá má af því, að við þurfum að fá um 1000 Færeyinga til þess að geta mannað báta- og togaraflota landsins.

Ég held, að það væri ódýrt fyrir hið opinbera að hækka frádráttinn, ef það gæti orðið til þess, að fleiri menn vildu gefa sig til vinnu á fiskibátaflotanum en nú er, svo að ekki þyrfti að flytja hingað alla þá Færeyinga, sem við höfum nú við þessi störf og þurfum að greiða kaup í erlendum gjaldeyri.

Um það, hvort vélstjórar skuli njóta sömu réttinda og aðrir menn á skipunum hvað frádrátt fyrir vinnufatnað snertir, finnst mér, að þar sé lotið heldur lágt að synja þeim um þessi fríðindi. Ég álít, að þeir eigi engu síður að fá þau, þó að þeir hafi nokkru hærra kaup en aðrir menn, sem vinna í vélarrúmi.