03.04.1957
Sameinað þing: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2329 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Þegar fjárlög fyrir áríð 1957 voru endanlega afgreidd hér á Alþingi, lágu ekki fyrir upplýsingar um afkomu ríkissjóðs 1956, og af hálfu hæstv. fjmrh. var það tekið fram, að á því stigi málsins væri ekki hægt að gefa þær upplýsingar.

Svo sem hv. alþm. er kunnugt, hefur undanfarin ár verið allverulegur greiðsluafgangur hjá ríkissjóði sum árin, og hefur þeim greiðsluafgangi jafnan verið ráðstafað af Alþingi. Á síðasta ári var þannig við samþykkt fjárlaga fyrir árið 1956 ráðstafað allverulegum fjárhæðum af greiðsluafgangi ársins 1955. Var þá talið fært að gera þær ráðstafanir, enda þótt fjárlög væru þá afgreidd í janúarlok, enda þótt svo hafi veríð í þetta sinn, að hæstv. fjmrh. taldi ekki í lok febrúarmánaðar hægt að gera sér grein fyrir afkomu ríkissjóðs, a.m.k. ekki þannig, að á því væri hægt að byggja.

Um þetta er ekkert að fást. En ég vildi leyfa mér, þar sem mjög er orðið áliðið þings, að beina þeirri fsp. til hæstv. fjmrh., hvort hann hefði hugsað sér að gefa Alþ. upplýsingar um niðurstöðutölur varðandi afkomu ríkissjóðs á árinu í 956, og þá jafnframt, hvaða horfur eru með greiðsluafgang á því ári, og ef hann er einhver, hvort það er þá ekki ætlunin, að þeirri reglu verði fylgt sem undanfarin ár, að honum verði ráðstafað í samráði við Alþingi.

Ég þori ekki að fullyrða, — ég hef ekki kynnt mér það, — hvort það hefur undir öllum kringumstæðum verið venja, að fjmrh, gæfi Alþ. yfirlitsskýrslu um afkomu ríkissjóðs, fyrr en þá við aðalumræðu fjárlaga, svo sem venja er, fyrir næsta ár, í byrjun þings hvers árs. En ég hygg þó, að a.m.k. nokkrum sinnum á undanförnum árum hafi fjmrh. gefið þinginu líkar upplýsingar, þó að þær hafi ekki verið eins vandlega sundurliðaðar og síðan er gert í fjárlagaræðunni.

Ég vildi sem sagt nota þetta tækifæri til að beina þeirri fsp. til hæstv. fjmrh., — þó að það sé ekki gert í hinu venjulega fyrirspurnaformi, vænti ég samt, að hann sjái sér fært að svara því, þar sem hér er um mjög einfalt mál að ræða, — hvort hann hefði hugsað sér að gefa slíka greinargerð hér á Alþ., t.d. áður en því verður frestað nú fyrir páska, ef því þá verður ekki lokið fyrir þann tíma, sem mér er ekki kunnugt um.