12.03.1957
Neðri deild: 66. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (1160)

206. mál, skattfrádráttur

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég hefði af sérstökum ástæðum gjarnan viljað fá þessu máli frestað í dag, en það lítur út fyrir, að hæstv. forseta liggi mikið á að koma málinu í gegnum deildina, og því hefur það komið til umr. nú.

Það leit út fyrir við 2. umr. málsins, að hv. stjórnarliðum hér í deildinni hafi verið mikil ánægja að fella þá till., sem ég bar fram um að hækka þau fríðindi, sem frv. gerir ráð fyrir til sjómanna. Og hv. frsm. gat þess, að hér væri um sérstaka yfirboðstill. að ræða af minni hendi. Hann gat þess einnig, að svo hefði verið samið við stjórnina af hendi þeirra félaga, sem í hlut ættu, að fríðindi til sjómanna skyldu ekki vera hærri en fram kemur í frv.

Ég verð að segja það, að þessir menn gera sig ánægða með lítið fyrir hönd sjómanna, þegar einu sinni á að fara að sýna í verki, að metið sé það starf, það hættustarf, sem þeir inna af hendi í þjóðfélaginu. En hvað snertir yfirboðstillöguna, þá gat ég nú ekki strax gert mér grein fyrir þeim upplýsingum, sem hv. frsm. gaf á fundinum. En ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. verði sammála um, þegar þeir fá að heyra, hversu mikil fríðindi hér er um að ræða, að telja ekki till. mína eins mikla yfirboðstillögu og hv. frsm. vildi vera láta.

Háseti á togara, samkvæmt þeim upplýsingum, sem frsm. gaf við 2. umr. málsins, sem vinnur í 10 mánuði, fær skv. frv. 2800 kr. afslátt af sínum sköttum og útsvari yfir árið. Háseti á fiskibát, sem vinnur í 6 mánuði, fær 2087 kr. afslátt. Getur nú nokkrum komið til hugar, að þetta út af fyrir sig geti orðið mikil hvöt fyrir sjómenn til þess að vinna á fiskiflotanum? Ég álít, að þetta sé engin hvöt og geri mjög lítið gagn. Stýrimaður á togara, sem vinnur í 11 mánuði, fær 4122 kr., og skipstjóri á fiskibáti, sem vinnur í 6 mánuði, fær 2360 kr. Þetta eru nú öll fríðindin, sem þessir menn eiga að fá með frv. En ég hafði ekki tíma til þess að ná í skattstjóra í sambandi við þessa útreikninga. Ég efast ekki um, að þeir séu réttir. En það er dálítið eftirtektarvert, að háseti á fiskibát, sem vinnur í 6 mánuði, hefur í skatta 11560 kr., en háseti á togara, sem vinnur í 10 mánuði, hefur í skatta, eins og nú er, 7670 kr. Eftir þessu mætti ætla að hásetinn á fiskibátnum, sem vinnur í 6 mánuði, hafi allt að því helmingi hærri laun en sjómaðurinn á togaranum, sem vinnur í 11 mánuði.

Ég vil aðeins vekja athygli á þessu, án þess að ég sé að gera þetta að sérstöku deiluefni. Eins og ég gat um í ræðu minni við 2. umr., hlýtur það að vaka fyrir flutningsmönnum, að þessi fríðindi, sem hér eru boðin, geti orðið til þess að breyta því öfugstreymi, sem nú er. Nú þurfum við að nota 1000 erlenda menn til þess að halda úti fiskiflota landsins. Eftir því sem næst verður komizt, unnu 843 færeyskir sjómenn á fiskiflotanum 1956. Þetta svarar til þess, að helmingur togaraflotans hafi verið gerður út eingöngu með færeyskum sjómönnum. Þetta er mjög alvarlegt mál, og ég efast um, að menn yfirleitt geri sér grein fyrir því, hvað mikill hluti sjómanna er erlendur á fiskiflotanum. Talið er af þeim mönnum, sem bezt þekkja til, að nú þegar séu ráðnir 1012 útlendir sjómenn á fiskiflotann. Þessir menn fá auðvitað kaup sitt að mjög miklu leyti greitt í erlendum gjaldeyri, í frjálsum erlendum gjaldeyri, og yfirfærsla til erlendra sjómanna á árinu 1956 nam 16.9 millj. í frjálsum gjaldeyri. Ég hefði nú haldið, að þessi till., sem frv. fjallar um, væri til þess fram komin að draga úr þeirri óhæfu, að við skulum hafa slíkan fjölda af erlendum fiskimönnum á skipunum og þurfa að greiða þeim tugi milljóna í erlendum gjaldeyri.

En þessi fríðindi, sem fiskimönnum eru nú boðin, munu ekki hafa nein áhrif á það, að breyting verði á þessari afstöðu, sem ég tel að sé orðin fullkomin hneisa fyrir þjóðina.

En í hvaða skyni er það gert að koma með slíka till., sem ég vil segja að hvorki sé fugl né fiskur? Ef það er gert í því skyni að viðurkenna, að störf sjómanna séu erfiðari og hættulegri en önnur störf þjóðfélagsins, þá verður að segja, að viðurkenningin er ekki mjög höfðingleg. En ef þetta er gert til þess að fá unga menn til að starfa á fiskiflotanum, þá vil ég segja, að þessi fríðindi eru lítilmótlegt kák, sem engin áhrif hefur til þess að losna við erlendu sjómennina af fiskiflotanum. Fyrir Íslendinga hlýtur það að teljast þjóðarhneisa og þjóðfélagsmein, ef fáir aðrir en útlendingar fást til að stunda þá atvinnu, sem er aðalatvinnuvegur landsmanna og sá atvinnuvegur, sem færir þjóðinni 95% af gjaldeyri hennar.

Ef hægt er að stöðva þessa óheillaþróun með skattfríðindum, sem kosta litla fórn fyrir þjóðfélagið, en eru annars vegar eðlileg viðurkenning á erfiði og hættu sjómennskunnar, þá á ekki að hika við að gera það á þann veg, að það megi að gagni koma. Og það er skammsýni og smásálarskapur, ef þetta er gert á annað borð, að gera það á þann veg, að það komi ekki að notum.

Það leikur varla á tveim tungum, að starf sjómannsins er bæði erfiðara og hættulegra en nokkurrar annarrar starfsgreinar í þjóðfélaginu. Þess vegna er nauðsynlegt, að þjóðfélagið taki tillit til þess, ekki sízt vegna þess, hvernig nú er ástatt, og að það, sem gert er, sé hvöt fyrir menn til að stunda þennan atvinnuveg. Aðalatriðið er fyrir fiskimennina eins og alla aðra skattgreiðendur, að þeir geti fengið að halda einhverju eftir af tekjum sínum umfram það, sem þeir þurfa til þess að draga fram lífið.

Ég ætla því enn að bera hér fram brtt., sem er að vísu skrifleg og of seint fram komin og hljóðar svo:

„2. gr. orðist svo:

Öllum skipverjum, sem verið hafa lögskráðir á íslenzk fiskiskip 4 mánuði eða lengur á viðkomandi skattári, skal við ákvörðun tekjuskatts veittur sérstakur frádráttur, er nemi 30% af álögðum tekjuskatti af tekjum fyrir störf á fiskiskipum.“

Þetta er svipuð aðferð og tíðkazt hefur hér tvö undanfarin ár, að veita skattþegnum frádrátt af tekjuskatti, sem nemur vissri hundraðstölu, en það nam 20%, sem gefið var til ópersónulegra gjaldenda. Ég tel, að það sé sízt of mikið, þó að álagður skattur sjómanna sé lækkaður um 30% og þeim þannig gefin nokkur sérstaða um skattgreiðslu. En ég vil, að menn hafi stundað störfin í minnst 4 mánuði og að þessi frádráttur komi á skatta af þeim launum, sem menn hafa unnið fyrir við fiskveiðar. Ef þeir vinna á árinu að öðrum störfum, kemur að sjálfsögðu ekki frádrátturinn til greina.

Ég vænti, að hv. deild geti fallizt á, að þetta sé sanngjarnt, og samþykki brtt. mína.