21.03.1957
Efri deild: 74. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

206. mál, skattfrádráttur

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. þm. V-Sk. var að tala um tómlæti, sem fjhn. þessarar hv. d. hefði sýnt í þessu máli. Ég get ekki kannazt við, að n. hafi sýnt neitt tómlæti í þessu máli. Hún tók það mjög fljótt fyrir, eftir að frv. var til hennar vísað, og hún lagði til, að það yrði samþ., eins og hv. Nd. hafði gengið frá því.

Ég verð að draga það mjög í efa, að brtt. þær, sem hér liggja fyrir, séu til þess að tryggja framgang málsins, þar sem atkv. hafa gengið um svipuð atriði í hv. Nd. og verið felld þar. Ég get ekki kannazt við annað en að með þessu frv. séu íslenzkum sjómönnum veitt mjög mikil hlunnindi.

Hv. þm. V-Sk. talar um það, að menn fengjust ekki á skipin nú, en fyrir nokkrum árum hefði verið sótt um það mjög að komast á togara og menn leitað til hans og beðið hann að útvega sér skiprúm þar. Ég hef alveg sömu sögu að segja, að fyrir æði mörgum árum var oft leitað til mín og menn voru að biðja mig að greiða fyrir því, að þeir kæmust á togara. Að komast á togara í þá daga var svipað og að fá sæmilega gott embætti í hugum manna. En hvernig voru kjörin þá? Voru þau betri en þau eru nú? Ég held þau hafi verið æði miklu verri þá en þau eru nú.

Það er ekki gott að bera saman kaupgjald þá og nú vegna þeirra breytinga, sem orðið hafa á gildi peninga. En ég hygg þó, að kaupgjaldið sé eins hátt nú, miðað við gildi peninga, og það var þá. En hvernig var aðbúnaður þessara manna þá, þegar þeir voru að sækja unnvörpum um að komast á togara? Ja, fyrst þegar ég kom hér á þing og fyrst þegar menn leituðu til mín í þessu efni, þá var nú þannig ástatt, ef ég man rétt, að menn gátu orðið að vinna 18 klukkutíma á sólarhring — og það sólarhring eftir sólarhring — á togurunum. Nú hafa menn fengið tryggingu fyrir því að vera ekki beinlínis þrælkaðir, þó að þeir vinni á togurum, því að það er hverjum heilbrigðum manni á góðum aldri vel fært að vinna tólf tíma á sólarhring. Það höfum við sjálfsagt allir eldri menn prófað á sjálfum okkur, að við vorum óskemmdir af.

Nei, það er allt annað, sem er orsök þess, að Íslendingar fást ekki lengur á togara eða fiskibáta. Það er yfirleitt það, að menn vilja komast að störfum, sem bæði eru léttari og menn geta gengið að þokkalega til fara, verið heima hjá sér o.s.frv. Þessi þróun er ekki góð, en ég efast alveg um, að Alþ. geti til hlítar snúið þessari þróun við, það þurfi fleira að koma til. Hugsunarhátturinn þarf að einhverju leyti að þreytast.

En nú er það um þessar brtt. að segja, að þær lágu alls ekki fyrir, þegar n. afgreiddi málið, eða ekki hafði ég orðið var við þær. Þess vegna mundi nú vera rétt að fresta þessari umr., og þá mun ég bera þessar till. undir hv. meðnm. mína. En ég get ekki séð, að að svo komnu eigi fjhn. nokkrar ákúrur skilið, eins og komu fram hjá hv. þm. V-Sk., en flm. tillagnanna, sem fyrir liggja, orðaði ekki einu orði.