21.03.1957
Efri deild: 74. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

206. mál, skattfrádráttur

Frsm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég var fjarverandi þær fáu mínútur, sem fyrri ræða hv. þm. V-Sk. stóð yfir, en ég kemst þó ekki hjá því að biðja hv. þm. að líta á nál. frá hv. fjhn. og sjá, að hinn mjög svo verkalýðssinnaði flokkur hans átti fulltrúa í n., sem ekki sá ástæðu til þess að hreyfa þar brtt., sem þó höfðu verið frammi hafðar í Nd., og hefur skrifað undir nál. með okkur ágreiningslaust. Hins vegar fagna ég þeim áhuga, sem fram kemur hjá hv. þm. N-Ísf. og þm. V-Sk. nú á kjörum sjómanna, þó að forsendurnar séu nú ekki björgulegar fyrir málflutningnum, þegar út í verkalýðsmálin á að fara. Þá er því statt og stöðugt haldið fram, miðað við þann tíma, sem hv. 1. þm. Eyf. minnti hér á áðan, þegar sjómenn sóttust eftir því að vera á togurum, þá fullyrðir þm. V-Sk., að kjörin hafi verið miklum mun betri. Veit hv. þm. V-Sk. ekki, hver var ástæðan til þess, að menn sóttust eftir að vera á togurum í þá tíð? Það var ekkert fyrir þessa menn að gera í landi, og það var höfuðástæðan til þess. Það var ekki um aðra atvinnu að ræða en að vera til sjós. Það var þess vegna ekki af því, að kjörin væru svo sérstaklega góð þá, að menn sóttust eftir þessum störfum, heldur fyrst og fremst vegna þess, að það var um algert atvinnuleysi í landi að ræða. Hins vegar vil ég minna þessa tvo hv. fulltrúa Sjálfstfl. á það, að þegar hv. þáverandi ríkisstj. flutti hér á hv. Alþ. þá hlunnindabót, sem felst í þeim skattafrádrætti, sem heimilaður er í núgildandi lögum um hlífðarfatakaupin, flutti stjórnarandstaðan ýmsar brtt. við það og ég minnist þess ekki þá, að þm. V-Sk. eða þm. N-Ísf. tækju undir þær brtt. Það heyrðist ekki í þessum ágætu mönnum þá. Hins vegar er gott til þess að vita, að það er um breytt hugarfar að ræða, og ég tek alveg undir það með hv. formanni nefndarinnar, 1. þm. Eyf., að það sé rétt, að n. yfirfari þessar brtt., þegar þær eru fram komnar nú. En n. gat ekki fjallað um brtt., sem ekki var hafður hugur á að bera fram, fyrr en málið er tekið fyrir og nál. hefur verið útbýtt.