26.03.1957
Efri deild: 77. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

206. mál, skattfrádráttur

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég heyri það, að fulltrúar Sjálfstfl. eru óánægðir með það frv., sem hér liggur fyrir um aukin skatthlunnindi til handa sjómönnum, og þeir flytja hér brtt. um, að þessi skatthlunnindi verði gerð nokkru viðtækari en gert er ráð fyrir í frv.

Hv. þm. N-Ísf., sem var að enda hér að tala fyrir sínum till., taldi, að hér væri með þessu frv. um að ræða aðeins ófullnægjandi kákráðstafanir, eins og hann sagði, og að skattfríðindi þessi gætu ekki áorkað því, sem til væri ætlazt, að laða menn meira að sjómennsku.

Í tilefni af þessu verð ég að segja það, að mér þykir alveg furðuleg þessi framkoma þessa hv. þm. og þeirra sjálfstæðismanna með tilliti til þess, hvernig þetta hefur borið að, og með sérstöku tilliti til þess, hvernig meðferð þess hefur verið háttað hér á Alþingi á undanförnum árum.

Ég vil t.d. minna á það, að ég hef flutt hér á Alþingi frv. a.m.k. fjórum sinnum áður um það að auka hin sérstöku skatthlunnindi sjómanna á fiskiskipum, þannig að einn þriðji af tekjum þeirra yrði frjáls til skattfrádráttar, en þessum frv. mínum hefur verið þannig tekið, m.a. af þeim sjálfstæðismönnum, að þeir hafa drepið þessi frv. ár eftir ár. Í nokkrum tilfellum hef ég fengið aðstöðu til þess að koma þessum till. mínum undir atkvæði hér á Alþingi, m. a. í sambandi við breytingar á skattalögunum, og þá hefur ekki staðið á hv. þm. N-Ísf. frekar en öðrum sjálfstæðismönnum að rétta upp sína hönd þar á móti og drepa þessar till. En það, sem Sjálfstfl. lagði svo til eftir allmikinn þrýsting frá hálfu sjómanna, var að lögleiða þau skattfríðindi, að ýmsir af skipverjum á fiskiskipum skyldu fá í sérstakan frádrátt vegna svonefndra hlífðarfatakaupa, sjómenn á togurum 300 kr. á mánuði hverjum og sjómenn á öðrum fiskiskipum 200 kr. á mánuði hverjum til frádráttar fyrir hlífðarfatakaup. lengra fékkst þetta ekki með samþykki Sjálfstfl., og við það sat.

En nú varð sú breyting gerð á, að nú fékkst samkomulag, sem gert var um áramótin við sjómenn um verulegar breytingar í þessum efnum og öðrum varðandi þeirra launakjör. Það var þá samið við sjómenn, án þess að farið væri út í nokkra vinnustöðvun eða deilur um það, að kaup þeirra skyldi hækka allverulega með hækkuðu fiskverði, en skiptaverðið til bátasjómanna var hækkað um 8 aura á hvert fiskkíló, en nokkru minna hjá togaramönnum. Enn fremur var samið við þá um það, að orlofshlutur þeirra skyldi tvöfaldaður frá því, sem áður var. Og í þriðja lagi var samið við sjómenn um að auka skatthlunnindi þeirra, eins og segir í þessu frv., þannig að frádrátturinn vegna hlífðarfatakaupa skyldi hækkaður um 200 kr. á mánuði, úr 300 hjá togaramönnum, en úr 200 kr. á mánuði hjá bátasjómönnum, eða þannig, að togarasjómenn og bátasjómenn fengju þá 500 kr. frádrátt í þessu skyni vegna sérstakra hlífðarfatakaupa á mánuði hverjum. En auk þessa skyldu svo allir skipverjar á íslenzkum fiskiskipum fá 500 kr. á mánuði sem aukafrádrátt við skattútreikning, þannig að sjómenn þeir, sem njóta hlífðarfatafrádráttarins, fá þá orðið sérstakan skattfrádrátt, sem nemur 1000 kr. á mánuði. Það má búast víð því, að þessi frádráttur nemi 10–12 þús. kr. hjá þeim, sem er við störf allt árið.

Þessi þrjú atriði, sem samið var við sjómenn um um áramótin, sem sé fiskverðshækkun, hækkun á orlofi og þessi auknu skattfríðindi, nema að dómi þeirra, sem þar eru kunnugastir, a.m.k. 15–18% kauphækkun.

Kauphækkunin getur verið nokkru meiri í þeim tilfellum, þar sem skattfrádrátturinn verkar meir en hjá öðrum, en þá aftur aðeins líka minni hjá öðrum.

Sjómenn töldu almennt og samþykktu alveg einróma að ganga að þessum samningum, og var vitanlega hér alveg ólíku saman að jafna við það, sem áður hafði verið, þegar þeir höfðu þurft að standa í margra vikna verkfalli til þess að fá nokkurra aura hækkun á fiskverði, en verið neitað um þessar aðrar lagfæringar.

Svo þegar þetta hefur áunnizt og sjómenn hafa gert samkomulag um þetta við ríkisstj. og hér er verið að lögfesta þetta samkomulag, þá koma þeir sömu menn fram, sem ár eftir ár hafa drepið till. hér á Alþingi um aukinn skattfrádrátt, og segja: Við skulum veita sjómönnum miklu meira en þetta.

Ja, slík skinhelgi. Ég held, að þeir þm., sem þetta hljóta nú að vita sjálfir, hefðu gott af því að rifja upp þessi sannindi fyrir sér og átta sig á því, hvað þeir eru raunverulega að gera sig hlægilega, bæði í augum sjómanna og allra annarra, sem til þekkja í þessum efnum.

Þeir sömu menn, sem verða að játa, að þeir hafi staðið fyrir því að veita þessi mjög takmörkuðu skattfríðindi, sem nam 200 kr. á mánuði til frádráttar hjá togaramönnum, eru nú að flytja till. um að fara nú nokkuð fram yfir það, sem sjómenn hafa sjálfir gert samkomulag um að þessu sinni, og segja svo, að þetta samkomulag dugi vitanlega hvergi nærri, því að það fáist engir menn til sjósóknar, sem þurfi að búa við slík kjör sem þessi.

Mér er það enn ljóst, að það væri þörf á því að ganga hér enn lengra til móts við það, sem óskir sjómanna eru. Það er alveg rétt. Ég tel fyrir mitt leyti, að það þyrfti að auka skatthlunnindi þeirra enn meira. En ég veit líka, að það er óralangt frá því, að þorri manna, sem vinnur við landstörf, hafi enn sætt sig við það, að sjómenn búi við slík sérstök kjör, og það hefur einna gleggst komið fram hér á Alþingi í afstöðu sjálfstæðismanna á undanförnum árum. Ég er þeirrar skoðunar, að hér sé stigið mjög myndarlegt skref, og ég reikna með því, að ef kauphækkun sjómanna á þann þátt, sem hún fór fram um áramót, hefði orðið öllu meiri en hún var, þá hefðu ótalmargir aðrir þurft að koma á eftir og sagt: Nú verðum við að heimta sérstaka kauphækkun, til þess að bilið á milli okkar og sjómanna sé ekki orðið allt of mikið.

Ef menn vilja fara út í meting um það, hver afstaða manna hefur verið hér á undanförnum árum til hagsmunamála sjómanna og er hér almennt, þá er vitanlega nóg tilefni til þess að ræða um slíkt. Ég held, að þau mál liggi ekki þannig fyrir, að sjálfstæðismenn hafi neinn ávinning af því að rifja upp þau atriði.

Ég skal aðeins minna á það, að um margra ára skeið lágu fyrir óskir sjómanna um að viðurkenna með lögum það, sem þeir höfðu að nokkru leyti og að verulegu leyti náð fram með samningum, að breyta ákvæðunum um togaravökulög, og þar stóðu sjálfstæðismenn á móti ár eftir ár þrátt fyrir eindregin tilmæli sjómanna.

Ég minnist þess líka, að þegar togarasjómenn og aðrir hafa verið hér í vinnudeilum, hafa þeir mátt lesa með stórum stöfum í Morgunblaðinu, hvað kaup þeirra væri orðið gífurlega hátt, og svo kemur þetta eilífa viðlag, sem ég las í Morgunblaðinu nú fyrir örfáum dögum, sem sagt þetta, að það væri verið að gera kröfu um launakjör til framleiðslunnar, sem framleiðslan gæti ekki borið. Auðvitað hafa kröfurnar frá sjómönnum verið svo miklar, að framleiðslan hefur ekki getað borið þessar launakröfur. Það er rétt eins og engar aðrar kröfur hafi verið gerðar til útgerðarinnar á undanförnum árum, þannig að hún hafi átt í vök að verjast með að greiða öll sín útgjöld, heldur en bara launakröfur. En því fer nú mjög fjarri, að útgerðin hafi í sjálfu sér goldið sínum mönnum, sem hjá henni hafa unnið, of mikið kaup. Þar hafa einmitt ýmsir aðrir komið til, sem spennt hafa upp útgjöldin miklu fremur en sjómenn.

Ég segi því, að ég mun buga að því að þessu sinni, að það samkomulag, sem gert hefur verið við sjómenn til lausnar á þeirra kjaramálum nú um áramótin, það samkomulag, sem fékkst fram með góðu við þá og var mjög þýðingarmikið fyrir þeirra samtök, verði hér lögfest óbreytt og standi, og læt það ekki stórlega hafa á mig, þó að yfirboðstillögur komi fram frá þessum mönnum, sem eiga þessa sögu að baki í þessum málum, sem ég hef hér lítillega minnzt á.