26.03.1957
Efri deild: 77. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

206. mál, skattfrádráttur

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég bið um athugasemd, vegna þess að hæstv. sjútvmrh. kemur inn í málið á síðustu stundu, eftir að víð, sem hreyfðum athugasemdum um málið í fyrri umr., getum ekki tekið þátt í umr.

Ég lét svo ummælt við fyrri umr. þessa máls, að mér fyndist hv. fjhn. taka linlega á þessu máli. Ég benti á tvö atriði þessu til staðfestu. Annað var það, að hér væru nú skráðir á fiskiflota okkar á annað þús. erlendir sjómenn, og ég spurði: Hve lengi getum við notið þess að fá hingað erlenda menn til þess að manna okkar flota? Nú er það svo, að þessi hópur erlendra manna mundi nægja til þess að manna helming okkar togaraflota. Ég benti einnig á það, að til þessara manna hefðu verið greiddar um 17 millj. kr. í frjálsum gjaldeyri árið sem leið. Þetta væru vissulega svo alvarleg atriði, að það yrði að líta á þessi mál öðrum og alvarlegri augum en hv. fjhn. leyfði sér að gera. Þetta benti ég á. Og ég benti einnig á það, að nú fengist varla lengur maður til að láta skrá sig á skip, hvorki á togara né vélbáta, en áður fyrr, fyrir stríð, hefði verið mjög eftirsótt að komast í skiprúm, ekki sízt á togara. Hv. frsm. sagði að vísu um það, að þetta hefði stafað af því, að þá hefði verið svo mikið atvinnuleysi hér í landi, að þeir hefðu ekki haft um neitt annað að velja. En ég fullyrði, að þrátt fyrir ýmsa mjög erfiða aðstöðu þá á togurunum hefði þetta verið betur borgað vinna en landvinnan. Nú er þessu alveg snúið við. Þess vegna fást ekki ungir menn lengur til að láta skrá sig á skip.

Hæstv. ráðh. sagði, að vegna þess að einhverjir sjálfstæðismenn hefðu hér á fyrri þingum, undir allt öðrum forsendum en hér er, verið á móti einhverju máli, þá farist þeim ekki að ræða um þetta nú. Ég skil ekki þetta sjónarmið hjá hæstv. ráðh. Ef þörf er á að ganga lengra en hér er gert, hvers vegna gerir hæstv. ráðh. það ekki? Hann játar þörfina, og hann getur vænzt þess að fá stuðning hér í hv. deild, en hæstv. ráðh. vill ekki þiggja hann.

Ég skal ekki, herra forseti, misnota þessa athugasemd.