30.04.1957
Efri deild: 91. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

206. mál, skattfrádráttur

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls flutti ég ásamt hv. 11. landsk. þm. brtt. við fyrri gr. frv., um það, að frádráttarheimild sú vegna hlífðarfatakostnaðar, sem um getur í 2. málslið 1. gr. frv., yrði víkkuð nokkuð. Við lögðum sem sagt til, að vélstjórum yrði bætt inn í upptalningu frv. Þessi brtt. okkar var þá felld, enda þótt hún styddist við fyllstu rök og á það væri bent, að óskynsamlegt væri í senn og ósanngjarnt að gera þannig upp á milli skipverja, þegar ræddi um skattfrádrátt vegna hlífðarfatakostnaðar.

Síðan þetta gerðist, er alllangur tími liðinn, sennilega um það bil rúmur mánuður. Á þeim tíma hefur það gerzt, að hæstv. ríkisstj. hefur skipt um skoðun í þessu máli. Ég vil leyfa mér að fagna skoðanaskiptum hennar mjög og þakka hæstv. fjmrh. fyrir þá brtt., sem hann hefur flutt hér við fyrri grein frv. En þar er lagt til, að þessi frádráttur vegna hlífðarfatakostnaðar skuli nú ná til allra skipverja. Ég er alveg sammála hæstv. fjmrh. um það, að þetta er skynsamlegt og mun að sjálfsögðu gera allri hv. þd. í heild enn ljúfara að fylgja þessu frv. Jafnframt vil ég láta í ljós ánægju mína yfir þeim árangri, sem barátta mín og hv. 11. landsk. hefur borið í þessu máli að þessu leyti.

En eins og kunnugt er, fluttum við brtt. við 2. umr. einnig við 2. gr. frv., um það, að verulega yrði aukinn sá skattfrádráttur, sem þar er gert ráð fyrir sjómönnum til handa. Við lögðum til, að gr. orðaðist þannig, að öllum skipverjum, sem verið hafa lögskráðir á íslenzk fiskiskip fjóra mánuði eða lengur á viðkomandi skattári, skyldi við ákvörðun tekjuskatts veittur sérstakur frádráttur, er næmi 30% af álögðum tekjuskatti af tekjum fyrir störf á fiskiskipum.

Í frv. er hins vegar gert ráð fyrir því, að skipverjum, sem lögskráðir hafa verið á íslenzk fiskiskip í 3 mánuði eða lengur á viðkomandi skattári, skuli við ákvörðun tekjuskatts veittur sérstakur frádráttur, 500 kr. fyrir hvern lögskráningarmánuð.

Ég benti á það við 2. umr. málsins, að þessi frádráttur væri að vísu góðra gjalda verður, en engan veginn nægilega mikill til þess að skapa minnstu líkur fyrir því, að af honum mundi leiða aukna þátttöku í sjómennsku og fiskveiðum hér á landi, til þess þyrfti miklu meira að koma til. Þess vegna gerði ég mér nokkra von um það, eftir að ég hafði stutt þetta gildum rökum, að hv. stjórnarflokkar mundu vilja fallast á brtt. mína og hv. 11. landsk., þar sem lagt var til, að frádrátturinn næmi 30% af álögðum tekjuskatti af tekjum fyrir störf á fiskiskipum. En þessi brtt. okkar var felld, og hæstv. ríkisstj. hefur á þeim tíma, sem liðinn er síðan, ekki séð ástæðu til þess að endurskoða hug sinn til hennar og því aðeins flutt þá brtt., sem ég minntist á hér í upphafi, við 1. gr. frv.

Ég skal ekki endurtaka þau rök, sem ég flutti fram við 2. umr. fyrir því, að þetta ákvæði, eins og það er nú í 2. gr. frv., nær allt of skammt.

Einn fimmti hluti sjómanna á íslenzka fiskiskipaflotanum er útlendingar, og þátttaka þjóðarinnar í þessum þýðingarmikla þætti útflutningsframleiðslu hennar fer minnkandi ár frá ári. Það þarf stöðugt fleiri útlendinga, til þess að hægt sé að halda fiskiskipaflota þjóðarinnar úti. Til þess að straumhvörf verði í þessum málum, þarf verulega breytingu, þannig að þessi störf verði eftirsóknarverðari og að fleiri menn fáist til þess að stunda þau. Þess vegna er það, að ég og hv. 11. landsk. fluttum okkar brtt. um að auka skattfríðindi sjómanna verulega frá því, sem stjórnarfrv. gerir ráð fyrir. Nú, eftir að sú till. hefur verið felld og hæstv. ríkisstj. hefur ekki treyst sér til þess að koma til móts við okkur, höfum við séð okkur til neydda að flytja aðra brtt., og með leyfi hæstv. forseta vildi ég lesa hana upp og biðja hann jafnframt að leita afbrigða fyrir henni, þar sem hún er skriflega flutt. Ég og hv. 11. landsk. leggjum til, að 2. gr. frv. orðist þannig:

„Öllum skipverjum, sem verið hafa lögskráðir á íslenzk fiskiskip fjóra mánuði eða lengur á viðkomandi skattári, skal við ákvörðun tekjuskatts veittur sérstakur frádráttur, er nemi 30% af tekjum fyrir störf á fiskiskipum.“

Í stað þess, að við lögðum til í fyrri brtt. okkar við þessa grein, að frádrátturinn næmi 30% af álögðum tekjuskatti af tekjum fyrir störf á fiskiskipum, leggjum við nú til, að veittur verði sérstakur frádráttur, er nemi 30% af tekjum fyrir störf á fiskiskipum.

Ég hygg, að ef þessi brtt. yrði samþykkt, mætti vænta nokkurs árangurs af þeim aukna skattfrádrætti, sem löggjafinn ætlar sjómönnum á fiskiskipaflota okkar. Ég geri mér hins vegar enga von um það, eins og frv. er nú, að það muni hafa nokkur veruleg straumhvörf í för með sér í þá átt að auka þátttöku Íslendinga í fiskveiðum og sjávarútvegi. Með brtt. okkar er hins vegar farið inn á þá braut að ívilna sjómönnum verulega frá því, sem nú er, og ég hygg, að ef sú brtt. yrði samþykkt, mætti af því vænta nokkurs árangurs.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Þetta mál liggur ljóst fyrir. Ég fagna því, að hæstv. ríkisstj. hefur skipt um skoðun gagnvart fyrri brtt. okkar, sem áður hafði verið felld, og tekið upp efni hennar og ríflega það, en harma hins vegar, að hún hefur ekki séð sér fært að ganga lengra að því er snertir sjálf skattfríðindin í 2. gr. frv. Hins vegar vænti ég, að þessi brtt. muni hljóta góðar undirtektir, og ef hæstv. forseta sýnist svo, þá væri ef til vill ekki úr vegi, að umr. yrði frestað, til þess að hv. nefnd gæfist tækifæri til þess að athuga hana.