11.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í B-deild Alþingistíðinda. (12)

Rannsókn kjörbréfa

Fyrri frsm. 2. kjördeildar (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það er ekki alls kostar rétt, sem hæstv. forseti sagði, þegar hann gaf mér orðið, að ég væri frsm. meiri hl. 2. kjördeildar. Ég er frsm. kjördeildarinnar allrar, að því er öll kjörbréfin snertir nema eitt, en um það kjörbréf varð ágreiningur, og voru jafnmargir í hvorum hluta, hvorki meiri né minni hluti þar af leiðandi. Mér kemur nokkuð á óvart þessi tilhögun, þó að ég sé ekki að segja, að hún sé röng, að taka nú þegar til máls, áður en þau kjörbréf eru útkljáð, sem áðan var rætt um, og er því ekki vel við því búinn að hafa framsögu í málinu.

2. kjördeild hefur haft til athugunar kjörbréf eftirtalinna þingmanna: Bjarna Benediktssonar, 1. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar, 3. þm. Reykv., Eysteins Jónssonar, 1. þm. S-M., Halldórs Ásgrímssonar, 2. þm. N-M., Jóhanns Jósefssonar, þm. Vestm., Karls Kristjánssonar, þm. S-Þ., Páls Zóphóníassonar, 1, þm. N-M., Páls Þorsteinssonar, þm. A-Sk., Sigurðar Bjarnasonar, þm. N-Ísf., Steingríms Steinþórssonar, 1. þm. Skagf., Hannibals Valdimarssonar, 7. þm. Reykv., Emils Jónssonar, þm. Hafnf., Friðjóns Skarphéðinssonar, þm. Ak., Friðjóns Þórðarsonar, sem er 2. uppbótarþingmaður Sjálfstfl., Ólafs Björnssonar, sem er 1. uppbótarþingmaður Sjálfstfl., og tvö önnur.

Hvað snertir þau kjörbréf, sem ég hef nefnt, þá hefur kjördeildin ekkert við þau að athuga og leggur einróma til, að þau verði samþykkt og kosning þessara manna tekin gild.

Þá átti kjördeildin enn fremur að hafa til meðferðar kjörbréf Kjartans J. Jóhannssonar, þm. Ísaf. Kjörbréfið var ekki fyrir hendi, þegar kjördeildin hélt fund, en í gærkvöld barst hraðskeyti frá yfirkjörstjórn Ísafjarðarkaupstaðar, svo hljóðandi:

„Það vottast, að Kjartan J. Jóhannsson læknir var 24. júní s. l. kosinn lögmætri kosningu alþingismaður fyrir Ísafjarðarkaupstað og þá afhent kjörbréf.

Jóhann Gunnar Ólafsson,

formaður yfirkjörstjórnar.“

Það var gert ráð fyrir því á kjördeildarfundinum, að slíkt skeyti kæmi, og mér falið, svo framarlega sem það kæmi, að lýsa yfir því, að kjördeildin legði til, að kosning hans yrði tekin gild, Skrifstofan hefur að vísu afhent síðan endurrit úr gerðarbók yfirkjörstjórnar Ísafjarðarkaupstaðar, Þessi bókun ber það með sér, að Kjartan J. Jóhannsson hefur verið kosinn þm. Ísaf. Svo fylgja hér nokkrir ágreiningsatkvæðaseðlar í innsigluðu bréfi. Ég hef ekki séð neina ástæðu til þess að kalla kjördeildina saman til þess að brjóta upp bréfið og skoða þessa seðla. Ég veit ekki, hvaða ágreiningur er um þá, en hitt veit ég, að þeir eru miklum mun færri en atkvæðamunurinn á þm. Ísaf. og þeim frambjóðanda, sem næstflest atkvæði hlaut. Og hvernig sem þessir seðlar eru, þá geta þeir ekki haft áhrif á úrslit kosninganna. Kjördeildin leggur, eins og ég sagði, því enn fremur til, að kosning Kjartans J. Jóhannssonar sé tekin gild.

Þá hefur kjördeildin einnig haft til meðferðar kjörbréf Guðmundar Í. Guðmundssonar bæjarfógeta í Hafnarfirði, sem hefur kjörbréf sem 3. uppbótarþingmaður Alþfl. Kjörbréfið er dagsett 9, júlí í ár og undirskrifað af landskjörstjórn, þar af þremur eða meiri hl. landskjörstjórnar athugasemdalaust, en tveir landskjörstjórnarmenn hafa undirskrifað kjörbréfið með fyrirvara, þeir Einar B. Guðmundsson og Vilmundur Jónsson.

Þó að ég heyrði ekki alla ræðu hv. 1. þm, Reykv. áðan, þá þykist ég vita, að þar hafi komið fram það mál, sem hér er um að ræða, að það er sem sagt vefengd kosning allra uppbótarþingmanna Alþfl. Ég hlýt því að fara um þetta atriði nokkrum orðum.

Ég vil þá fyrst benda á það, sem allir vita, að það er staðreynd, að samkv. því atkvæðamagni, sem Alþfl. hlaut í síðustu kosningum, ber honum að fá þessi þingsæti, fjögur uppbótarsæti, ef hann er á annað borð viðurkenndur sem sérstakur þingflokkur og stjórnmálaflokkur. Mótmæli þau, sem ég hef lesið, og að svo miklu leyti sem ég heyrði ræðu hv. 1. þm. Reykv., þá kom það einnig fram þar, að þá byggjast mótmælin eingöngu á því, að því er haldið fram, að Alþfl. og Framsfl. hafi komið fram sem einn flokkur í kosningunum, af því að þeir voru í bandalagi um kosningarnar og höfðu gert með sér málefnasamning fyrir kosningar.

Ég verð nú að segja það til að byrja með, að mér finnst það ákaflega einkennilegt, að það virðist vera einkum hv. Sjálfstfl. og hans fulltrúar á þingi, sem vilja gera kosningu þessara fjögurra manna ógilda af þessum sökum. Mér þykir það einkennilegt vegna þess, að eins og allir eldri menn kannast við og muna, hefur Sjálfstfl. áður gert alveg nákvæmlega sams konar bandalag við annan flokk eins og Framsfl. og Alþfl. gerðu með sér í vor. Það var kosningabandalag Sjálfstfl. og Bændaflokksins 1937. Og meira að segja þeir sjálfir gáfu þessu bandalagi ákveðið nafn, kölluðu það breiðfylkingu allra Íslendinga. Nú, það reyndust nú ekki vera allir Íslendingar, sem vildu styðja þessa breiðfylkingu, og ekki einu sinni meiri hluti þeirra.

Mér finnst það liggja í augum uppi, að ef uppbótarþingmenn Alþfl. eru ekki löglega kosnir þingmenn sökum þess, að Alþfl. var í bandalagi við Framsfl., þá hefur sá eini uppbótarþingmaður, sem Bændaflokkurinn fékk á sínum tíma, Stefán sálugi í Fagraskógi, setið ólöglega á Alþingi í fimm ár, 1937–42. En auðvitað er hvort tveggja fjarstæða. Stefán í Fagraskógi sat löglega á Alþingi, því að hann bauð sig fram fyrir sérstakan flokk, þó að hann væri studdur af öðrum flokki og ætti þeim flokki sína þingmennsku að þakka algerlega, Og þingmenn Alþfl. eru löglega kosnir þingmenn þrátt fyrir bandalagið. Og fordæmið frá 1937 hlýtur að hafa nokkra þýðingu í þessu efni. Ég skal ekki segja, hvernig lögfræðingar skýra það, en ég veit þó, að bæði þeir og aðrir telja, að það, sem orðið er að venju eða aðrir hafa gert óátalið áður, þykir heimilara en það, sem er fordæmalaust.

Ég hef að vísu heyrt því haldið fram og séð því haldið fram, að breiðfylkingin frá 1937 hafi verið allt annars eðlis en kosningabandalag Framsfl. og Alþfl. í vor, en það hefur bara verið sagt, svo að ég hafi heyrt: Þetta var allt annars eðlis. — En ég hef engar skýringar fengið á því, að hverju leyti það var annars eðlis. Mér sýnist það algerlega sama eðlis. Á fundi í vor heyrði ég þó mann segja sem svo, að þetta bandalag hefði ekki verið algert, það hefði ekki verið í öllum kjördæmum, En ég sé ekki, að það skipti máli. Það var yfirlýst bandalag, og það hefur meira að segja komið fyrir innbyrðis í flokki, að það hafa verið keppinautar innan sama flokks í kjördæmi. Það hefur komið æði oft fyrir. Það vita allir eldri menn, sem voru í pólitík þá, hvernig t, d. á því stóð, að það gat ekki verið sameiginlegt framboð í Austur-Húnavatnssýslu o. s. frv. Það var af allt öðrum ástæðum en að það væri ekki bezta samkomulag á milli flokkanna, Sjálfstfl. og Bændaflokksins, um það að reyna að ná sameiginlega meiri hluta á Alþingi vegna þessa bandalags.

Þetta er því áreiðanlega nákvæmlega sama eðlis. Alþingi hefur áður tekið það gilt, að uppbótarmaður, sem átti atkv. frá öðrum flokki sannanlega kosningu sína að þakka, var tekinn gildur hér sem alþingismaður, og það þurfa að vera sterk rök fyrir því, að það eigi að brjóta út af þeirri reglu, sem Alþ. þá tók upp í þessu efni.

En hér kemur þó miklu fleira til. Stjórnarskrá Íslands gerði ekki ráð fyrir neinum stjórnmálaflokkum og lét sem þeir væru ekki til fram að 1933. Þingmenn voru kosnir eftir vilja kjósendanna, og stjórnarskráin ákvað ekkert um það, að þeir skyldu tilkynna um, í hvaða flokki þeir væru eða hvort þeir væru í nokkrum flokki eða ekki. Með stjórnarskrárbreytingunni frá 1933 var gerð breyting á þessu. Þá komu uppbótarsætin til til þess að jafna á milli þingflokka, svo að hver þeirra hefði sem líkasta atkvæðatölu á bak við hvern þingmann. Og þá var það í fyrsta sinn ákveðið, að þingmenn skyldu tilkynna það, um leið og þeir tilkynntu framboð sitt, fyrir hvaða stjórnmálaflokk þeir byðu sig fram, og ef þeir ekki gerðu það, þá töldust þeir utanflokka. Hins vegar gekk stjórnarskráin algerlega fram hjá því að skilgreina, hvað væri stjórnmálaflokkur, þó að hún hefði ýmis ákvæði um stjórnmálaflokka að öðru leyti.

Ég geri ráð fyrir, að þetta hugtak, stjórnmálaflokkur og þingflokkur, hafi verið svo ákveðið í hugum manna, að það hafi ekki þótt þörf á að taka það fram í stjórnarskránni sjálfri, hvað væri stjórnmálaflokkur eða þingflokkur. Það var að vísu tekið fram, hvernig nýr þingflokkur gæti myndazt, en ekkert um eldri flokkana. Þetta hugtak hefur þó verið skýrt af fræðimönnum, m. a. af þeim fræðimanninum í þessum efnum, sem telja verður að hafi verið einna lærðastur, sem sé Einari Arnórssyni doktor í lögum. Hann hefur minnzt á þetta atriði í Réttarsögu Alþingis á bls. 604, og hann segir svo um það, hvað sé flokkur:

„Flokkur byggist á samtökum manna, er tekið hafa sér nafn og sett hafa sér einhverjar skipulagsreglur, kosið með sér stjórn og ákveðið sér stefnu í landsmálum og birt hana opinberlega.“

Eins og hver einasti alþingismaður veit, fullnægja bæði Framsfl. og Alþfl. þessum skilyrðum, sem Einar heitinn Arnórsson tekur þarna fram um það, hvað sé stjórnmálaflokkur. Þeir eru nú báðir, þessir flokkar, orðnir 40 ára gamlir og þar af leiðandi alkunnugt fyrir löngu, að þetta eru tveir flokkar, en ekki einn flokkur. Þeir hafa sitt sérstaka nafn hvor um sig, og þessi nöfn eru ekki nýtekin í sambandi við bandalagið, sem þeir gerðu, heldur eru þau 40 ára gömul. Þeir hafa báðir fyrir löngu sett sér skipulagsreglur, sem eru í höfuðatriðum þær sömu og þær hafa verið í mörg ár. Þeir hafa báðir fyrir löngu kosið sér stjórn og ákveðið stefnu í landsmálum og birt hana opinberlega, m. ö. o. algerlega fullnægt því, sem Einar Arnórsson telur að til þess þurfi, að hægt sé að tala um stjórnmálaflokk. Að málefnasamningur um dægurmál var gerður á milli þessara tveggja flokka, getur engu breytt í því efni, því að það er enginn eðlismunur á því að gera málefnasamning um dægurmál fyrir kosningar eða eftir kosningar, en það er algengt, að stjórnmálaflokkar gera með sér málefnasamning eftir kosningar, og er þá skemmst að minnast málefnasamnings Framsfl, og Sjálfstfl. frá 1953. Og ekki held ég, að hv. 1. þm. Reykv. vilji kannast við það, og ég að vísu ekki heldur, að Sjálfstfl. og Framsfl. hafi verið sami flokkur s. l. kjörtímabil, þótt þeir yrðu vegna stjórnarsamvinnu að fylgjast að í mörgum málum, þó ekki líkt því öllum. Ekki breytir það heldur neinu í þessu efni, þó að miðstjórnir þessara flokka gerðu með sér kosningabandalag, og það er einfaldlega vegna þess, hv. alþm., að valdið í því efni, hverjir verða alþm. og hverjir ekki, það er ekki hjá miðstjórnum flokka, það er ekki hjá formönnum flokka eða forustumönnum, valdið er hjá kjósendum landsins, og á kjördegi getur kjósandinn notað atkvæði sitt alveg eins og honum sýnist, hvað sem hver segir. Og meira að segja þó að miðstjórnir þessara tveggja flokka og forustumenn óskuðu eftir því, að flokkarnir styddu hvor annan og það væri víða gert, vitanlega af frjálsum vilja kjósendanna, þá var enginn nauðbeygður til þess, meira að segja hver einasti kjósandi í öllum kjördæmum landsins gat kosið sinn eigin flokk þrátt fyrir þetta bandalag, og í öllum kjördæmum var eitthvað að því gert. Báðir flokkarnir höfðu sem sé landslista í kjöri, og það voru ekki svo fá atkvæði, sem féllu á landslistana, og þau atkvæði, sem féllu á lista Alþýðuflokksins t. d. í Suður-Múlasýslu, réðu beint úrslitum um kosninguna þar. Hefði kosningabandalagið verið eins algert og hv. 1, þm. Reykv. vildi vera láta og þessi atkvæði þar af leiðandi verið talin frambjóðendum Framsfl., sem féllu á landslista Alþfl. í Suður-Múlasýslu, þá er Vilhjálmur Hjálmarsson kosinn 2. þm. Suður-Múlasýslu. Og Alþingi verður þá að muna eftir því, að ef á að ógilda fjögur uppbótarþingsæti Alþfl., þá verður Alþingi jafnframt að úrskurða, að Vilhjálmur Hjálmarsson sé réttkjörinn 2. þm. S-M, og senda hv. 2. þm. S-M., sem nú er, heim, því að með öðru móti getur það ekki verið einn flokkur, nema landslistaatkvæði beggja flokkanna falli á frambjóðendur þess bandalags í kjördæminu. (Gripið fram í.) Ég er ekki að segja, að það sé frágangssök, en mér datt það svona í hug, að kannske hv. þm. G-K. mundi nú gleyma þessu atriði, þó að hann hefði það fram að reka fjóra uppbótarþingmenn Alþfl. heim.

Það, sem hv. 1. þm. Reykv. var að tala um áðan, um samanlagt atkvæðamagn Framsfl. og Alþfl., sé ég ekki að komi þessu máli við, Kosningalögin og stjórnarskráin sjálf hafa frá upphafi gert ráð fyrir því, að það yrði einn af flokkunum, sem hefði fæst atkvæði á bak við hvern sinn þingmann. Þingmannatala þess flokks, deilt í atkvæðamagn hans, er svo hlutfallstala kosninganna, sem kallað er. Stjórnarskráin og kosningalögin hafa gert ráð fyrir þessu frá upphafi, og að bollaleggja um það, hvort Alþfl. hefði fengið svona mörg atkvæði, ef ekki hefði verið þetta bandalag, það er tilgangslaust, því að þetta veit enginn. Hvernig ætlar hv. 1. þm. Reykv. að sanna það, hvað hver hefði fengið, ef framboðin hefðu verið allt öðruvísi en þau voru? Þó að hann sé allra manna sniðugastur, það skal ég játa, og fundvísastur á rök, þegar hann hefur rök, og það, sem í fljótu bragði sýnist rök, þegar hann hefur ekki rök, gæti ég þó haldið, að honum gengi hálfilla að sanna það, hvers konar menn hefðu og hvaða menn hefðu kosið hvern flokk fyrir sig. Ég hugsa, að hann viti ekki nákvæmlega, hverjir kusu Sjálfstfl., hvað þá aðra flokka.

Þetta atriði hjá honum er nátengt því, sem menn hafa heyrt úr ýmsum áttum og heyrist frá þeim, sem finnst hlutur sinn fyrir borð borinn við kosningar, að þeir beri ekki eins mikið úr býtum í þingsætum og atkvæðamagn þeirra bendi til. En mér kemur þetta þannig fyrir sjónir, að hvað sem um þetta er, þá verði að fara eftir lögum landsins á hverjum tíma um þetta efni eins og öll önnur. Það kann vel að vera, að kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulag sé gallað. Ef svo er, þá er vitanlega sjálfsagt að breyta því. Ég get kannazt við það, að mér finnst það á margan hátt gallað, og ég mundi vilja breytingar. Ég býst ekki við, að það yrðu sömu breytingar og hv. 1. þm. Reykv. vill, en þetta er allt annað mál. Hvort sem lögin eru ranglát eða réttlát, þá eru þau eins og þau eru nú í dag, og eftir þeim verður að dæma og engu öðru.

Ég talaði ofur lítið um þetta mál almennt, af því að það er í nánum tengslum við gildi þess kjörbréfs, sem ágreiningur er um af þeim, sem 2. kjördeild hafði til athugunar, og það er kjörbréf Guðmundar Í. Guðmundssonar, sem er 3. uppbótarþingmaður Alþfl., en undir hans kjörbréf hafa skrifað tveir landskjörstjórnarmenn með fyrirvara, Einar B. Guðmundsson og Vilmundur Jónsson. Aftur hefur hæstaréttardómarinn Jón Ásbjörnsson skrifað undir það fyrirvaralaust. Ég þarf ekki að segja neitt fleira um þetta kjörbréf sérstaklega. Ég vísa til þess, sem ég hef nú nýrakið almennt um gildi kjörbréfa þessara fjögurra uppbótarþingmanna Alþfl., og á þeim forsendum og sjálfsagt fleiri er það, að helmingur 2. kjördeildar leggur til, að einnig kjörbréf Guðmundar Í. Guðmundssonar verði tekið gilt.