09.05.1957
Neðri deild: 94. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

58. mál, iðnfræðsla

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er alger misskilningur hjá hv. frsm. n., að ég hafi fundið að því, að þetta tiltekna mál hafi lengi legið hjá nefndinni. Að því vék ég ekki einu orði.

Ég vefengi ekki heldur, að til þessa fundar hafi af hans hálfu verið boðað með sólarhrings fyrirvara. Það skiptir mig hins vegar sáralitlu, vegna þess að ég fékk ekkert fundarboð, hvorki með sólarhrings fyrirvara né mínútu fyrirvara. Það var fyrst eftir að fundurinn hafði verið haldinn, sem hv. þm., sessunautur minn, sagði mér frá því, að til hans hefði verið boðað.

Hv. þm. sagðist ekki vita, hvort það væri mér að kenna eða öðrum, að til mín hefði ekki náðst. Ég held, að þannig standi á, að ég geti nokkurn veginn gert grein fyrir því, hvar ég var á þeim sólarhring, sem þarna var um að ræða, svo að hæstv. forseti sameinaðs þings getur þá fullvissað sig um það, hvort ég hafi verið á þeim stöðum, að ómögulegt hafi verið að ná til mín. Ég skal ekki rekja það hér, en ég skal gera honum grein fyrir því, ef hann óskar eftir.

Hitt er rétt að komi fram, að á þeim degi, sem hann sendi út fundarboðið, kom ég ekki hingað til þings, en ég hafði boðað forföll og tilkynnt þau skrifstofunni af alveg ákveðnu þar greindu og gildu tilefni. Að öðru leyti var ég á þeim tíma, sem hér er um að ræða, að þeim forföllum slepptum, ýmist á mínu heimili eða á mínum vinnustað, og ég veit ekki, hvar ætti frekar að vera hægt að ganga að mönnum og koma til þeirra boðum en einmitt þar. Það stoðar auðvitað ekki, þó að fundarboð séu send, ef þau eru svo laklega framkvæmd, að ekki er hægt að ná til þeirra fimm manna, sem í nefndunum eru, þegar þeir þá ekki hafa týnzt verr en ég gerði í þessu tilfelli. Þarf ég ekki að biðja hæstv. forseta sameinaðs Alþingis neinnar afsökunar á því, að það hafi verið mér að kenna, að boðin komust ekki til mín, heldur er þar auðsjáanlega um að kenna þeim, sem um fundarboðið áttu að sjá af hans hendi. Ég tek fram, að ég gruna hann ekki um, að hann hafi viljað halda mér utan við fundinn, það er auðvitað alger fásinna.

En ég vík þá að því aftur, sem ég hreyfði hér, að fundarhöld í nefndum eru orðin svo fágæt, a.m.k. ýmsum, að virðist hafa gleymzt rétta aðferðin til þess að boða til þeirra, og segir það einnig sína sögu, og ég segi það í fullri alvöru, að það er auðvitað það minnsta, sem þingmenn eiga kröfu til, að fundarboð séu látin ganga til þeirra, svo að þeir eigi kost á að gegna þeim störfum, sem þeir eru kosnir til af hæstv. Alþingi.

Hér er um tiltölulega lítilvægt mál að ræða og skiptir ekki miklu máli, en slíkt sleifarlag má þó ekki þolast, jafnvel þó að í litlu sé.

Varðandi það, að aðeins eitt mál liggi fyrir iðnn. fyrir utan það, sem hér er um að ræða, og samflokksmaður minn hafi ekki verið reiðubúinn til þess að afgreiða það, þegar á fundinn kom, þá skal ég út af fyrir sig ekki vefengja það. Menn höfðu ekki búizt við fundarboði á þessum tíma og ekki talað sig saman um, hvernig málin ætti upp að taka, og það hafði einmitt verið ég, sem sérstaklega hafði óskað eftir því, að til fundar yrði kvatt í þessari nefnd. Nú má vel vera og hv. form. n., hv. frsm., hefur gert mér grein fyrir því annars staðar, að sú ósk mín hvíldi að nokkru leyti á misskilningi, vegna þess að ég hefði gert ráð fyrir, að öðru skyldumáli hefði verið vísað til þessarar nefndar, sem ekki hefði til hennar gengið. Látum vera, að þarna hafi verið um að ræða misskilning af minni hálfu, en engu að síður vil ég benda honum á, að það eitt er auðvitað ekki nóg, að hann telji, að mál þurfi ekki frekari afgreiðslu við, og einhverjum sýnist, að í raun og veru sé búið að afgreiða málið. Það er nefndin öll, sem hefur fengið málið til meðferðar og á rétt á því, að það sé rætt að n. allri viðstaddri, hvernig málið eigi að afgreiða, hvort það eigi að afgreiða það með því að láta það daga uppi, hvort það eigi að afgreiða það með rökstuddri dagskrá, að það sé ekki lengur ástæða til þess, vegna þess að efnislega sé málið afgreitt, með því að vísa því til stjórnarinnar eða með því að gera á því þær breytingar, sem hin breyttu atvik gefa efni til. Allt eru þetta atriði, sem nefndin á að taka afstöðu til, en ekki einn nm., þótt jafnágætur maður sé og hv. þm. Hafnf., sem ég hef miklar mætur á og er ekki hér að troða neinar illsakir við persónulega, síður en svo. Ég vík aðeins að þessu vegna þess, að starfshættir þessarar nefndar eru mjög einkennandi fyrir þann mjög kynlega brag, sem hefur verið á starfsháttum þessa Alþingis.