09.05.1957
Neðri deild: 94. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

58. mál, iðnfræðsla

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er nú máltæki um það, að einhverju sé skotið á frest til eilífðarnóns, og ég spyr nú: Er það ekki svipað, ef eitthvað eigi að ræða á næsta fundi iðnn., því að það kann að verða nokkuð langt þangað til, þannig að óvíst sé, hversu skjótlega þær umr. geti orðið, samkvæmt því, sem af er. Ég skal ekki þræta við minn ágæta vin, hv. þm. Hafnf., um þetta. Ég vil einungis vekja athygli á því, að í hans rökvísu ræðu hér síðast gleymdi hann því, sem er aðaluppistaðan í minni aðfinningu, að ég fékk alls ekki fundarboðið. En ég tel, að það beri skylda til að koma fundarboði til þingmanna, þeirra sem ekki eru fjær staddir en ég var á þeim tíma, sem hér um ræðir, og að það var ég, en ekki neinn samflokksmaður minn, sem hafði áður óskað eftir fundi í þessari nefnd til afgreiðslu tiltekins máls. Þess vegna er ekki að sakast við hann um það, að hann skyldi ekki hafa þar eftirrekstur, heldur var það ég, sem hafði óskað eftir, að fundurinn yrði haldinn, og loksins þegar til fundar var boðað, ekki samkvæmt minni ósk, heldur af öðru tilefni, þá vildi þannig til, án þess að ég eigi þar nokkra sök á, að ég var ekki boðaður á fundinn, sem ég tel mig eiga rétt til að hafa fengið boð til.