30.04.1957
Efri deild: 91. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

150. mál, samþykkt á ríkisreikningum

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Fjhn. d. hefur athugað þetta frv. og borið það saman við ríkisreikninginn. Við þann samanburð kom í ljós, að einum lið í frv. bar ekki saman við ríkisreikninginn. Það var 27. töluliður, þar stendur í reikningsupphæðinni í frv. 4381991.69, en í ríkisreikningnum sjálfum stendur 6479749,19. Við athugun kom svo í ljós, að þessi mismunur, sem er 2097757.50, stafar af því, að því, sem flutt er af 24. gr., sem er þessi upphæð, hefur ekki verið bætt við 27. lið frv., óviss gjöld, en það bar að gera.

Nefndin leggur því til, að þetta verði leiðrétt í frv., og ber fram brtt. um það, að 27. liður breytist þannig, útborganirnar, að fyrir „4381991.69“ komi: 6479749.19, — og svo, að greiðslujöfnuðurinn, reikningshlið hans, lækki um þessa upphæð. Að öðru leyti bar frv. saman við ríkisreikninginn sjálfan.

Yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna hafa að vanda borið fram ýmsar athugasemdir við þá. Þessum athugasemdum hefur síðan verið svarað af viðkomandi ráðuneyti, og síðan hafa yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna úrskurðað svörin og hvað gera skuli í málinu.

Tillögur yfirskoðunarmanna eru yfirleitt til athugunar framvegis. Þar eru einar fimm eða sex tillögur. Og „til viðvörunar framvegis“ er niðurstaðan að því er nokkrar athugasemdirnar varðar, og svo, að „við svo búið megi standa og til athugunar framvegis“, en 4.– 7. athugasemd og 17. athugasemd vísa þeir til aðgerða Alþingis.

Afgreiðsla yfirskoðunarmanna hefur verið með þessum hætti, sem ég nú hef lýst, mörg undanfarin ár. Og í fjhn. þessarar hv. d. hefur jafnan nú undanfarin ár komið fram frá n. ábending um það, að yfirskoðunarmenn ættu að hafa dálítið annan hátt á en hér er gert, að vísa málsatriðum þannig ótiltekið til aðgerða Alþingis, án þess að gera tillögur um það, hvað Alþ. eigi þá að gera í slíku máli. Var hv. fyrrv. þm. Barð., Gísli Jónsson, aðalhvatamaður að því í n., að þessu var hreyft.

Nú varð ekki samkomulag í n. um, að nefndin sem slík léti þessa skoðun enn í ljós, og þess vegna fer ég ekkert nánar út í þetta frá n. hálfu. Ég vil aðeins taka það fram hvað sjálfan mig snertir, að ég er sömu skoðunar og áður, að yfirskoðunarmenn, í staðinn fyrir að vísa málum til aðgerða Alþ., án þess að segja nokkuð um, hvað þeir telji að Alþ. eigi að gera, ættu að gera beinar till. um það, hvernig þeir álíta að ráða eigi þeim málum til lykta.

En hvað sem um þetta er og hvað sem Alþ. kynni að gera út af þeim atriðum, sem til þess er vísað, þá er það vitanlegt, að það mundi ekki í neinu breyta tölulegri niðurstöðu ríkisreikninganna, enda er það sameiginleg till. fjhn. allrar, að frv. verði samþ. með þeim leiðréttingum, sem ég gat um áðan.

En út af þessum aths., sérstaklega þeim, sem vísað er til aðgerða Alþ., væri óneitanlega fróðlegt, ef hæstv. fjmrh. vildi skýra deildinni frá því, hvernig þau mál standa nú.