24.01.1957
Efri deild: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2332 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. forseti hefur nú sjálfur tæpt á því máli, sem ég vildi vekja athygli á hér, að nokkru leyti.

Þann 15. nóv. s.l. var vísað til samgmn. þessarar hv. d. frv. um breyt. á vegalögunum. Þetta mál hefur aldrei verið tekið fyrir í n. og enginn fundur haldinn í hv. n. og að því er ég fæ séð af málaskrám engu öðru máli vísað til hv. n., þannig að varla verður borið við annríki vegna starfa að öðrum málum.

Í þessu sambandi vil ég einnig vekja athygli hæstv. forseta á því, að enginn fundur hefur enn þá verið haldinn í samvinnunefnd samgöngumála, sem hefur það hlutverk, eins og kunnugt er, að undirbúa úthlutun og till. um skiptingu flóabátastyrkja, en sú n. er vön að halda mjög marga fundi um það mál. Nú mun hins vegar ekki vera nema rúmur mánuður, þar til fjárlagaafgreiðslu á að hafa verið lokið.

Ég vil spyrja hæstv. forseta að því, hvort hann telji ekki ástæðu til þess að átelja slík vinnubrögð hjá þingnefndum. Og þó að sú n. eigi að skila störfum til Sþ., þá snertir það einnig þessa hv. d., þar sem samgmn. beggja d. starfa saman að þessu verkefni.

Mér finnst þetta alveg fáheyrð vinnubrögð og ástæðulaust annað en kvörtun komi fram yfir þeim.

Þá vildi ég biðja hæstv. forseta að hlutast til um það við hv. samgmn. eða hv. formann hennar, að hann kalli nefndina saman og að það eina mál, sem til n. hefur verið vísað, verði afgreitt þaðan, þannig að það fái þinglega afgreiðslu.

Ég hef hér fyrir framan mig málaskrá hv. fjhn., sem forseti þessarar hv. d. er form. í. Allmörgum málum hefur verið vísað til þessarar n., en aðeins tveggja þeirra er getið í málaskrá.

Það mál, sem ég vildi spyrjast fyrir um afgreiðslu á og óska afgreiðslu á, er frv. til l. um breyt. á lögum nr. 90 1954, um tollskrá o.fl. Það er eitt þeirra mála, sem einna fyrst munu hafa komið til n., en það er í málaskránni einna seinast fært inn. Hins vegar eru þar mál, sem liggja fyrir sameinuðu Alþingi. Mér virðist allt vera á eina bókina lært um þessar mundir hér á hv. Alþingi. Nefndir halda ekki fundi og málaskrár nefnda eru færðar vitlaust eða ekki færðar.

Mér þykir þetta ákaflega einkennilegt í n., þar sem forseti þessarar hv. deildar, sem er einn af þingvönustu mönnum þingsins og kunnur reglumaður, er formaður, að þingmenn skuli ekki einu sinni geta litið í málaskrár nefnda til þess að fá þar þær upplýsingar, sem þeir eiga rétt á að fá. Ég hafði ætlað mér að óska þess við hæstv. forseta, að þetta mál, sem ég nefndi, yrði afgr. úr n. og fengi þinglega afgreiðslu, og ég vil leyfa mér að bera þá ósk fram. Ég vil einnig leyfa mér að óska þess við hæstv. forseta, að hann sjái um það, að málaskrár þingnefnda d. verði færðar þannig, að þingmenn geti fengið þar þær upplýsingar, sem þeir þurfa að fá.

Að lokum vildi ég svo aðeins ítreka fsp. mína til hæstv. forseta um það, hvort hann telji þau vinnubrögð, sem ég hef hér átalið, sæmileg og hvort ekki sé ástæða til þess að ýta við þeim nefndarformönnum, sem þannig haga vinnubrögðum sínum.