09.05.1957
Neðri deild: 94. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

150. mál, samþykkt á ríkisreikningum

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég hef nú ekki nema athugasemdatíma til þess að svara því, sem hér hefur komið fram, og skal ekki heldur fara langt út í það.

Varðandi þetta síðasta bjá hæstv. fjmrh., að yfirskoðunarmönnum beri að gera tillögur um það, hvað gera skuli í þeim efnum, sem vísað er til aðgerða Alþingis, þá held ég, að það hefði nú ekki næsta mikla þýðingu eftir þeim anda, sem hér er ríkjandi og er ríkjandi hjá hæstv. ráðh. og öðrum, sem hér hafa ráðið, þó að við gerðum till. t.d. um það varðandi Skipaútgerð ríkisins og útvarpið, að það skuli halda sig bara blákalt við fjárlögin. Það er okkar tillaga. A.m.k. mundi það vera mín tillaga.

Það má segja, að það sé kannske erfitt varðandi skipaútgerðina. En það er ekki erfitt varðandi útvarpið, því að útvarpið er svoleiðis stofnun, að það er hægt að halda sér við fjárlögin. Og ég er þeirrar skoðunar, að það eigi ekki að vera heimilt fyrir stofnanir, sem hafa þó tekjur í stórum stíl, þó að tekjurnar fari fram úr áætlun, að eyða þeim tekjum langt umfram það, sem fjárlögin hafa gefið þeim reglur fyrir.

Hv. þm. V-Húnv. kom hér með þá ásökun til okkar yfirskoðunarmanna, að við hefðum ekki gert athugasemdir við einhverjar stofnanir, sem færu hlutfallslega meira fram úr áætlun en ríkisútvarpið. Fyrir þessu færði bann engin rök, og ég held, að þetta hljóti að vera einhver misskilningur hjá hv. þm., nema ef hann skyldi eiga við stofnun eins og vegaviðhaldið, því að það er ekki hægt að bera það saman við þær stofnanir, sem hann gerði. Og vegaviðhaldið, það vita allir menn, að það er einn af þeim liðum í fjárlögum ríkisins, sem alltaf hlýtur að vera meiri áætlunarliður en flest annað, og ekki hægt að bera það saman við t.d. Skipaútgerð ríkisins, hvað þá heldur útvarpið.

Hæstv. fjmrh. játaði það nú í sinni síðustu ræðu, sem auðvitað er alkunnugt, að það fari því fjarri, að allir geri skyldu sína varðandi fjárstjórn, sem hlut eiga þar að máli. Og það er auðvitað það mál, sem um er að ræða og er í böndum Alþingis, ríkisstj. og er verkefni yfirskoðunarmanna, hverjir sem þeir eru, að gera athugasemdir út af því, hverjir hafa ekki gert skyldu sína og farið eftir þeim fyrirmælum, sem til er ætlazt að farið sé eftir.