09.05.1957
Neðri deild: 94. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

150. mál, samþykkt á ríkisreikningum

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Hv. þm. A-Húnv. segir, að ég hafi engin rök fært fyrir því, að umframgreiðslurnar hafi orðið meiri hjá öðrum ríkisstofnunum en ríkisútvarpinu. Ég er hér með þessar tölur í ríkisreikningnum, og hv. þm. hefur hann væntanlega og hefur yfirskoðað hann og á að geta séð það sjálfur. Á bls. 14 er reikningur ríkisútvarpsins, þar sést, að gjöldin hafa farið um það bil 20% fram úr áætlun. Ef flett er svo einu blaði og horft á bls. 17, þá er þar reikningur eins ríkisfyrirtækis, þar sem gjöldin hafa farið yfir 70% fram úr, nær 80 en 70% fram úr áætlun fjárlaganna. Og ef við flettum enn einu blaði og lítum á bls. 18, er þar reikningur eins viðskiptafyrirtækis ríkisins, sem sýnir, að gjöldin hafa farið meira en 50% fram úr áætlun fjárlaga. Það er þetta, sem ég hef furðað mig á áður í sambandi við ríkisreikninginn, að það virðist vera nokkurt handahóf á þessari athugasemdagerð hjá þeim yfirskoðunarmönnum.