04.03.1957
Neðri deild: 61. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

126. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Eins og kom fram í ræðu minni, lauk n., sem undirbjó þetta mál, verki sínu á stuttum tíma, bæði vegna þess, að þeir menn, sem sátu í n., voru áhugasamir og duglegir menn, og enn fremur vegna þess, að það var sérstaklega óskað eftir því af minni hálfu, að málinu yrði hraðað.

Það má nú nærri geta, þegar kemur fram frv. frá fimm mönnum, sem allir vilja hlut landbúnaðarins sem mestan, að þeir koma vitanlega með frv., sem er þeirra óskir, — óskir, sem þeir og við allir, sem unnum landbúnaði, óskum eftir að hægt sé að uppfylla. En mér þætti fróðlegt að vita það, hvað samvizkusamir og ágætir sem þeir menn eru, sem starfa að máli eða óskalista, ef svo mætti segja, fyrir sína stétt, hvenær þeir kæmu ekki með öllu meira en þjóðfélagið sér sér fært að uppfylla á hverjum tíma. Það væri ákaflega fróðlegt, ef það væri hægt að benda á eitthvert dæmi þess, að slíkar óskir kæmu fram frá einhverri stétt í þjóðfélaginu.

Það, sem við, sem sjáum um framkvæmd þessara mála, verðum að hafa í huga, er að færast í fang það, sem við getum ýtrast gert á hverjum tíma, en setja ekki fram frv., sem verða þá fyrst og fremst lagabókstafur, án þess að raunveruleiki standi á bak við, þannig að hægt sé að framkvæma það, sem í fang er færzt með lagaákvæðunum. Ég kem nánar að þessu, en skal minnast á þau atriði, sem hv. þm. A-Húnv. minntist á.

Það er þá í fyrsta lagi, að hann segist vera þeirrar skoðunar, að það sé ekki ástæða til þess að gera neitt sérstaklega fyrir þá, sem hafa dregizt aftur úr.

Ég man þá ekki rétt, ef þetta er ekki eitt af þeim atriðum, sem n. leggur til samhljóða, og það er vitanlega ekkert undarlegt, því að ég veit ekki betur en að þeir flestir, sem nú hugsa um íslenzkan landbúnað og framtíð hans, geri sér ljóst, að það er eitthvert mesta tjón fyrir íslenzkan landbúnað, sem á sér stað núna, að fjöldi manna hefur dregizt aftur úr, þannig að hann getur ekki notað nýtízku tæki, vegna þess að búin eru of lítil.

Hv. þm. sagði, að þetta stafaði af ýmsum ástæðum. Það er rétt. Það stafar af því, að í sumum jörðum er naumast efniviður til þess að gera úr þeim það, sem þarf til þess, að þar sé hægt að reka þau bú, sem nægja á nútímamælikvarða, til þess að það sé hægt að reka þar nýtízku búskap og með sæmilegri afkomu. Þetta er rétt, og þetta minntist ég á. Enn fremur minntist ég á það, að sums staðar er vinnuafli þannig háttað, að það er erfitt að koma þessu í framkvæmd núna, eins og sakir standa. En mér er það áreiðanlega eins vel kunnugt og hv. þm. af ferðum mínum um þetta land, að það er til ógrynni af jörðum, þar sem eru möguleikar til að stækka búin, þar sem smæð búanna um langan tíma er það mikil, að hún veitir ekki undirstöðu undir það að rækta og bæta við bústofninn.

Ég gæti nefnt staðreyndir, sem sýna þetta, en tel þess ekki þurfa, því að ég er viss um, að það er fjölda hv. þm. kunnugt, að þetta eru þær staðreyndir, sem fyrir liggja. Það kann ekki góðri lukku að stýra, ef svona búskapur á að halda áfram við hliðina á þeim nýtízku búskap, sem nú er rekinn. Með þessu móti er raunverulega verið að skipta bændastéttinni í algerlega tvær stéttir.

Við þekkjum staði, þar sem eru möguleikar til þess að stækka bú, og það á fleiri en einum stað og fleiri en tveimur á landinu, þar sem svo háttar til, að hæstu tekjur bónda í einum hreppi eru 26 þús. kr., og það er einvörðungu vegna þess, að ekki er fyrir hendi það afl, sem þarf til að borga þá ræktun, sem borga þarf, og koma bústofninum upp samhliða. Þetta er því áreiðanlega eitt af nauðsynlegustu átökunum, sem gera þarf í íslenzkum landbúnaði núna á næstunni. Um þetta hef ég átt viðræður við marga búnaðarfrömuði og ágætismenn, sem standa framarlega í íslenzkum landbúnaði, og þeir eru mér sammála og okkur, sem erum þessarar skoðunar, um þetta efni. En það er auðheyrt, að hv. þm. A-Húnv. er annarrar skoðunar, og þýðir ekki að deila um það frekar að þessu sinni.

Eitt af því, sem hv. þm. minntist á, var það, hvað væri dregið mikið úr framlögunum frá því, sem var í frv.

Með þeim eftirgjöfum, sem hafa farið fram til sjóðanna í Búnaðarbankanum, eins og ég las upp, er bilið ekki ýkjalangt þarna á milli. Það er rétt hjá honum, að það lá fyrir frv. frá n. um veðdeildina, sem var ekki nema ein grein, og það er auðvitað þægilegt, ef ekki þyrfti annað en eina grein til þess að breyta möguleikum okkar til þess að ná í peninga til að lána úr veðdeild. Greinin gerir ráð fyrir því, — hún er fjórar línur, — að fjárhæðir þær, sem veðdeildin skuldar ríkissjóði og sparisjóðsdeild Búnaðarbankans, 11 millj. kr., séu gefnar eftir og árlegt framlag sé 5 millj. kr. á ári næstu 10 árin, í fyrsta sinn 1957.

Vitanlega er engum það ljósara en okkur, sem höfum fengizt við bankamál, hvað það er nauðsynlegt að geta lánað úr veðdeildinni. En það hefur nú gengið þannig samt sem áður undanfarin ár, þegar miklu meiri möguleikar hafa veríð til þess að ná í fjármagn heldur en nú er orðið, — því að það þekkja allir, hvernig sjóðir eru uppétnir og hvað erfitt er að ná í lánsfé, — að það hefur aldrei verið hægt að útvega veðdeildinni lánsfé svo að segja, svo að nokkru nemi, og þetta er viðfangsefni, sem við glímum við enn í dag og þarf að ráða fram úr og er unnið að því að ráða fram úr. En það var ekki rúm fyrir þessa upphæð á fjárlögunum, það veit hv. þm., og það bætir vitanlega ekkert úr skák, þó að sé sett ein lagagrein um það, að leggja skuli fram þetta fé, sem hingað til hefur ekki verið unnt að útvega. Það hefur verið ráðið fram úr þessu máli á undanförnum árum með þeim hætti, að það hafa verið settar þetta ein og tvær millj. til bráðabirgða, en síðan hefur sparisjóður Búnaðarbankans orðið að lána fé, til þess að veðdeildin væri ekki algerlega lokuð.

Það væri vitanlega ákaflega æskilegt að geta gert það átak, jafnhliða því sem nú eru aukin framlög til landbúnaðarins, að leggja fram þessa fjárhæð úr ríkissjóði. Það þótti ekki fært, og þess vegna er málið enn í athugun, hvernig sem fram úr því verður ráðið.

Ég skal ekki, án þess að gefist frekara tilefni, fara að deila um þetta frekar. En hv. þm. hefur satt að segja orðið að una því, að svona hefur þetta verið í undanfarin 8–10 ár, að veðdeildin hefur svo að segja verið lokuð, án þess að þeim stjórnum, sem setið hafa undanfarið, hafi tekizt að útvega þessa fjármuni, þó að meira væri um peninga en er nú.

Lánsútvegun til landbúnaðarins hefur yfirleitt verið þannig, eins og hv. þdm. rekur minni til, að það hefur allt saman verið í óvíssu um allar lánsútveganir til byggingarsjóðs og ræktunarsjóðs fram undir lok hvers árs og allar framkvæmdir árlega á undanförnum árum verið framkvæmdar í algerri óvíssu um það, hvort fjármunir mundu fást að láni til þess að borga þær skuldir, sem bændur höfðu stofnað til við kaupmenn og kaupfélög.

Þetta hefur verið ástandið. M.a. var það þannig 1955, að þá varð að grípa til þess, sem alltaf hefur orðið að grípa til síðan, að borga 22 millj. kr. í ræktunarsjóð án lagaheimildar, vegna þess að það skorti fjármuni og ríkisstj., sem þá sat og form. Sjálfstfl. veitti forstöðu, gat hvergi útvegað peninga handa ræktunarsjóði til þess að standa undir þeim lánum, sem bændurnir þurftu að fá til þess að geta staðið í skilum við kaupmenn og kaupfélög. Það eru þær 22 millj., sem var núna nýlega verið að gefa eftir ásamt fleiri fjárhæðum, sem ríkissjóður hefur orðið að leggja fram, til þess að lánastarfsemi sjóðanna stöðvaðist ekki.

Það er ekki hægt að neita því, að það eru þess vegna nokkuð einkennilegar raddir, sem koma fram núna, þegar talað er um það, að bæði of lítil lán séu veitt úr ræktunarsjóði og of lítið úr byggingarsjóði, og jafnframt, að það þurfi að bæta veðdeildinni við, sem sannarlega þarf, en hafa ekki séð ástæðu til þess að koma fram með sérstakar till. í því efni, svo sem ástatt hefur þó verið undanfarin ár.

Það var þannig, eins og við vitum, allt seinasta ár, að fyrrverandi ríkisstj. reyndi að útvega, ekki til veðdeildarinnar, það hefði henni aldrei tekizt, heldur enn sem fyrr peninga úr Alþjóðabankanum og viðar til þess að standa undir þeim lánum, sem þurfti að veita núna úr bankanum rétt fyrir áramótin, og niðurstaðan varð sú, þegar við,komum í stjórnarráðið, að það hafði ekki tekizt að útvega neina peninga nema þær fjárhæðir, sem komu í byggingarsjóðinn og örlítið í ræktunarsjóðinn, og það var þannig enn einu sinni, að ríkissjóður varð að borga í heimildarleysi inn í Búnaðarbankann fjárhæðir, til þess að væri hægt að veita þau lán, sem veita þurfti, — og að lokum tókst það, sem ekki hafði tekizt undanfarið, að fá lán, eins og við vitum, í Bandaríkjunum til þess að endurborga þessi lán og vanskil, sem höfðu komið í fiskveiðasjóði, vegna þess að hann hafði lánað út með sama hætti.

Það væri ákaflega æskilegt, þegar ástandið þó hefur farið versnandi á peningamarkaðnum frá því, sem verið hefur, af ástæðum, sem oft hafa verið raktar, að það væri hægt að útvega meiri fjármuni í þetta og hitt. Og ég ætla ekki að blanda því inn í þessar umr., að það liggur vitanlega fyrir, að upp í þær 270 millj., sem þarf til þess að fullgera framkvæmdir í Rvík, vantar næstum alla fjármuni. Í húsbyggingar í Rvík og úti um landið í þorpunum og kaupstöðunum vantar peninga, og hefur ekki tekizt að útvega þá. Í sementsverksmiðjuna, sem er mikið þjóðþrifafyrirtæki, vantar um 60 millj. kr., fyrirtæki, sem þarf að fullgera og er byrjað á. Þannig vantar því miður alls staðar fjármuni. Þess vegna er spurningin, eins og ég sagði í upphafi þessa máls, að færast það í fang og setja það í lög, sem hægt er að framkvæma á hverjum tíma. Fyrir þessum fjármunum, sem á að framkvæma fyrir, er nú séð á fjárlögum, þannig að það er engin hætta á því, að þessi ákvæði, sem hér verða lögleidd, verði bókstafurinn einn. Og ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um það, að þau verkefni, sem við ætlum að taka okkur hér fyrir hendur í íslenzkum landbúnaði, eru þau, sem eru mest aðkallandi nú í bráð.