04.03.1957
Neðri deild: 61. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

126. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Jón Pálmason:

Það eru nú ekki mjög mörg atriði í ræðu hæstv. ráðh., sem ég þarf að ræða hér, umfram það, sem ég gerði í minni fyrri ræðu, en nokkrar athugasemdir vil ég þó gera.

Hæstv. ráðh. byrjaði á því, að það mættu allir sjá, að það væri eðlilegt, þegar fimm menn væru settir í mþn., sem allir væru tengdir landbúnaðinum, að þá gerðu þeir hærri kröfur en þægilegt væri að framkvæma. Ég held, að þetta sé mjög vafasöm umsögn, og það er a.m.k. víst, að ef svona krafa eða einhver þvílík hefði komið frá launastéttunum eða sjávarútveginum, þá hefði það ekki verið talið, að það væri ómögulegt að sinna henni.

Hæstv. ráðh. rangfærði mjög eitt atriði í minni ræðu, þar sem hann segir, að ég hafi lýst því yfir, að það væri ekki nein þörf að bæta úr aðstöðu þeirra manna, sem hafa dregizt aftur úr í jarðræktinni. Slík ummæli hafði ég auðvitað aldrei, og það sýnir sig, þegar milliþn. lagði það til í sínum till., að það væri varið 5 millj. kr. á ári til þessara hluta, að hún var ekkert í vafa um, að á þessu væri nauðsyn. Hitt sagði ég og get endurtekið, að ég tel minni þörf á þessu, þrátt fyrir allt, heldur en hinu að sinna því verkefni, sem er miklu meir aðkallandi almennt um landið, og það er að aðstoða frumbýlinga með því að fá lánsfé til þess að stofna bú. Það er að verða yfirleitt ómögulegt.

Ég skal svo ekki fara um það fleiri orðum, annað en það, að ég held, að það sé óhætt að segja, að nálega allir bændur séu þeirrar skoðunar, að á ræktunarmálasviðinu hafi þeir þó sízt ástæðu til umkvörtunar við ríkisvaldið, enda hefur á því sviði verið bezt að búið, borið saman við annað.

Hæstv. ráðh. vék að þeim örðugleikum, sem á því hefðu verið og væru að útvega fé í deildir Búnaðarbankans, veðdeildina, byggingarsjóðinn og ræktunarsjóð.

Ég er þeim örðugleikum öllum kunnugur alveg eins og hæstv. ráðh. og veit, að þeir örðugleikar eru fyrir hendi. En af hverju eru þeir fyrir hendi? Þeir eru fyrir hendi af því, að það er annað látið sitja fyrir, sem frá sjónarmiði okkar bændanna er miklu ónauðsynlegra en að sjá um það, að sveitirnar haldist í byggð og bændastéttinni sé gert mögulegt að endurnýja sig, en það sé ekki látið reka á reiðanum, eins og verið hefur og er og aldrei alvarlegra en nú, að sveitunum sé að blæða út fyrir heimskulega fjármálastjórn hjá því opinbera.

Það var ekki verið mikið að hika við það hér á Alþingi í fyrra að hækka laun embættismanna ríkisins um 65 millj. á einn ári, sem þýddi a.m.k. 100 millj. kr. hækkun árlega hjá öllum fastlaunamönnum landsins. Það var ekki verið mjög mikið að hika við það. Það er ekki verið að hika við það, þegar verið er að afgreiða fjárlögin, að setja þar eina upphæð á milli 20 og 3!0 millj. kr. til atvinnuleysistrygginga til þess að borga mönnum, sem ekki vinna eða fá ekki vinnu með því kaupgjaldi eða launum, sem enginn atvinnurekstur í landinu getur staðið undir.

Ég gæti talið upp nokkuð marga tugi milljóna, bæði í núgildandi fjárlögum og öðrum, sem eru minna aðkallandi og ónauðsynlegri en að sjá til þess að útvega fé í veðdeild Búnaðarbankans og byggingarsjóðinn, til þess að það sé hægt að vinna gegn þeim straum, sem á undanförnum árum hefur verið, að fólkið hrúgaðist úr sveitum landsins og hingað í þéttbýlið, þar sem verður að byggja yfir það og fram undan er ekki sjáanlegt annað á nálægum tímum en meira eða minna atvinnuleysi.

Ég held þess vegna, að þó að það sé rétt, að það séu margir örðugleikar á þessari leið, þá séu orsakirnar til þess, að það hefur ekki tekizt og á ekki nú að útvega fé til þessara stofnana, þvert á móti því, sem milliþn. lagði til, þær, að það er annað ónauðsynlegra látið sitja í fyrirrúmi. Þar virðist hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkar á einu máli.