04.03.1957
Neðri deild: 61. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

126. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Hv. þm. viðurkenndi náttúrlega það, sem var aðalatriðið, að það hefði ekki verið hægt að útvega fjármagn til þess að veita inn í deildir Búnaðarbankans, eins og ýmsir hefðu óskað, a.m.k. við, sem teljum okkur hlynnta íslenzkum landbúnaði og þurfum að standa í því sem forráðamenn banka að neita mönnum um lán, sem við álítum að ætti að veita. Eins og ég minntist á og hann raunverulega féllst á, þá er þetta nú svo á mörgum sviðum í okkar þjóðfélagi, og seint verður það þannig, að hægt verði að veita allt lánsfé, í hvaða atvinnuveg sem við nefnum, í samræmi við það, sem atvinnuvegurinn óskar.

Það gengur nú svo t.d. í þeirri ríku Svíþjóð, að sá ágreiningur, sem varð á milli verkamannaflokksins og bændaflokksins þar, var út af því, að bændurnir töldu mjög fjarri því, að það væri útvegað nægilega mikið lánsfé til landbúnaðarins, einkum ef menn þyrftu að flytja sig til og kaupa nýjar jarðir. Og menn stóðu í löngum samningum, sem enduðu á því, að það var ekki talið fært vegna lánsfjárskorts að veita nema lítinn hluta af því, er bændurnir fóru fram á.

Þannig gengur þetta nú til víða. En það er ekki ágreiningur um, að það væri æskilegt að útvega meira fé, og það er ekki ágreiningur um, að það sé nauðsynlegt að útvega fé í veðdeildina, síður en svo. Það er viðfangsefni, sem við höfum verið að glíma við í ríkisstj.

Þegar kom að því, að hv. þm. minntist á, hvernig ætti að taka þetta fjármál, sagði hann, að það ætti að spara það annars staðar. Segjum svo. Hann minntist á embættismennina. Ég ætla ekki að fara að ræða það mál, en aðeins benda hv. þm. á það, að það var fyrrverandi stjórn, sem gekk frá því máli, og ég veit ekki til þess, að í hans flokki væri nema hann og einn þm. til viðbótar, sem greiddi atkv. gegn því, og ég veit ekki til þess, að það hafi komið fram nein till. um að spara þar 60 eða 100 millj. kr. eða hvaða upphæð það var, sem hann nefndi. Naumast verður það tekið þar, enda er það líklega nokkuð vafasamt, að það verði hægt. Og í annan stað með atvinnuleysistryggingarnar, þá var það ekki þessi stjórn, sem samdi um atvinnuleysistryggingarnar. Það var fyrrverandi stjórn, sem samdi um atvinnuleysistryggingarnar. Ég veit ekki betur en Sjálfstfl. væri því undantekningarlítið fylgjandi. Ég man ekki, hverjir greiddu atkv. á móti því úr Sjálfstfl., það kann að hafa verið einn eða tveir þm. eða eitthvað í þá átt. En þessi eyðsla var einnig ákveðin, ef hægt er að kalla það eyðslu, af fyrrverandi stjórn með formann Sjálfstfl. sem forsrh., sem náttúrlega átti mestan þátt í því að koma á þessum samningum.

Þessi tvö dæmi, sem hann nefnir, þar sem ætti að spara fjármagn til þess að veita inn í landbúnaðinn, eru því ekki vel valin, því að þessi eyðsla, ef eyðslu skyldi kalla, er fyrst og fremst ákveðin af fyrrverandi stjórn, og þarf ekki að endurtaka það.

Það er alltaf komið að þessu, sem er aðalatriðið, að við erum ekki ríkir af fjármagni í þessu landi. Okkur vantar fjármagn, og það er erfitt að skipta því á milli allra þeirra greina, sem gera kröfu til þess og þurfa raunverulega á því að halda.

Svo sé ég ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta að sinni.