03.05.1957
Neðri deild: 91. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

126. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara mikið út í það við þessa umræðu að ræða þetta mál almennt og ekki heldur fara hér mikið inn á að ræða um aðstöðu landbúnaðarins í heild, sem væri þó nokkurt tilefni til eftir þær ræður, sem hér hafa verið haldnar, annars vegar af hv. frsm. og hins vegar af hv. síðasta ræðumanni.

Við 1. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir því, hvaða atriði það eru, sem dregin hafa verið út úr frv. milliþn., sem samdi þetta frv., áður en málið kom fyrir Alþingi, því að það sýndi sig, að það hafa einhverjir menn, einhver leyninefnd — og mér er sagt, að hv. síðasti ræðumaður hafi verið einn í henni — hafi fjallað um þetta mál, eftir að mþn. skilaði því, og farið um það svoleiðis höndum, að það er allt annar svipur á frv., eins og það liggur fyrir, heldur en var, þegar mþn. gekk frá því.

Nú hefur málið verið til meðferðar nokkurn tíma í hv. landbn., og hefur orðið samkomulag, eins og frsm. gat um, um ýmsar minni háttar brtt. Þó er þar ein talsvert stór brtt., sem fjallar um skipun nýbýlastjórnar, sem er sett í sama horf og í lögunum var áður og eins og mþn. gekk frá. Hins vegar hefur ekki orðið samkomulag í landbn. um tvö mjög veigamikil atriði, og a.m.k. annað þeirra kannske veigamesta atriðið í þessu frv., sem er hækkun á framlagi til byggingarsjóðs sveitanna. Nú hef ég og hv. 2. þm. Skagf. flutt brtt. til viðbótar við þær sameiginlegu brtt. n., og er þær brtt. að finna á þskj. 462. Fyrri brtt. er við 26. gr. frv. og fer fram á að færa það í sama horf og var lagt til af hálfu mþn., að til byggingarstyrkja yrði varið 2 millj. á ári, og sannleikurinn er sá, að hér er ekki að neinu leyti hátt stefnt með þeirri tilhögun, sem farið er fram á í þessari grein.

Ég hef nokkrum sinnum orðað það, að það, sem þyrfti að gera fyrir nýbýlamenn, væri það, að landnámi ríkisins væri gert fært að byggja íbúðarhúsin og skila þeim fokheldum til nýbýlamannanna, á svipaðan veg og stundum hefur verið gert hér af bæjarstjórn Reykjavíkur varðandi íbúðir. Þetta hefur ekki fengið byr og ekki fengizt fé til þess, að þetta væri mögulegt. En sú till., sem er í 26. gr. þessa frv. um, að landnámið eða ríkið leggi fram 25 þús. kr. framlag til byggingar íbúðarhúsa nýbýlamanna, er náttúrlega töluvert spor í áttina, og þó er það spor miklu minna nú en það var, þegar við vorum að fjalla um þetta frv. í mþn. í haust, vegna þess að síðan í haust hefur byggingarkostnaður aukizt stórkostlega. Og ég hygg, að það sé ekki fjarri lagi, sem jarðræktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands sagði á búnaðarþingi um daginn, að þetta 25 þús. kr. framlag mundi ekki nema meiru en verðhækkuninni á byggingarkostnaðinum frá því s.l. sumar, miðað við það, sem hann mun verða á þessu nýbyrjaða sumri. En hvað um það. Þó að þetta sé nú svo, þá er þetta þó nokkur bót, ef hægt væri að framkvæma það. En ég verð að segja, að eftir þeim athugunum, sem við gerðum í mþn., er naumast hægt að framkvæma þetta með því að fá ekki á ári til þessara hluta nema 11/2 millj. Við komumst að þeirri niðurstöðu, að a.m.k. fyrsta árið mundi ekki vera að tala um færri menn en 80, sem undir þetta kæmu, en samkv. því, sem hér er stefnt til, að lækka framlagið um 1/4, dugir það ekki nema til 60 manna, og á þann hátt er naumast hægt að framkvæma þetta. Er þó af hálfu landbn. allrar ákveðið að bæta inn bráðabirgðaákvæði, þar sem nýbýlastjórn ríkisins er heimilað að láta þetta ná til manna, sem eru ekki búnir að fullbyggja sín hús, og því höfum við raunar alls staðar gert ráð fyrir. Þess vegna er það víst, að þessi aðstoð nær til miklu fleiri manna fyrstu tvö árin en síðar mundi verða. Hins vegar er þess að geta, að þetta ákvæði gildir ekki nema um nýbýlamenn og dugir þess vegna ekki til þess að bæta úr þeim vanda, sem er fyrir öðrum bændum með byggingar. Það ætluðum við okkur að gera með því að hækka lánin frá því, sem nú er, og þess vegna er það meginatriði, sem við leggjum höfuðáherzlu á, að hækka framlagið til byggingarsjóðs sveitanna, svo að það sé mögulegt að hækka lánin og veita þau alveg hindrunarlaust, eins og raunar hefur verið gert á undanförnum árum, þá hafa þau lán verið veitt nokkurn veginn hindrunarlaust. En með því að þau eru ekki nema í hámarki núna 75 þús., þá er það ekki meira en svona 30–40% af byggingarkostnaðinum.

Nú verða menn að gera sér grein fyrir því, að það er ekki ræktunin, sem mest hefur staðið á fyrir sveitamönnum á undanförnum árum, því að það eru ríflegir bæði styrkir og lán veitt til ræktunar, að það er ekki það, sem stendur mest í vegi fyrir bændunum, heldur eru það byggingarnar, og með því að kippa þeim umbótum, sem við ætlumst til að færa inn í þetta frv. til aðstoðar við byggingu íbúðarhúsa í sveitum, í burtu, þá er kippt í burtu þýðingarmesta ákvæðinu úr þessu frv. Þess vegna legg ég mikla áherzlu á það og við flm., að till. á þskj. 462 verði samþykktar.

Menn láta mikið af því hér, að gera muni stóra verkun þau ákvæði, sem í frv. eru og eru náttúrlega eitt meginatriði þess, að auka styrkinn til ræktunar hjá þeim mönnum, sem stytzt eru komnir áleiðis.

Ég hef ekki eins mikla trú á því og margir aðrir, að það verði neitt stökk út úr því, því að margir þeir menn, sem þannig stendur á um, hafa ekki ræktanlegt land til þess að ná því takmarki, sem þarna er lagt til. Það er svo víðs vegar um land, að það er ekki til ræktanlegt land svo mikið. Þar að auki er það svo, að býsna margir menn hafa ekki ræktað eins og skyldi og eins og eðlilegt mætti telja, vegna þess að það hefur vantað vélar og vantað samgöngur til þess að koma vélunum á einstaka staði. Þetta náttúrlega þarf að fylgjast allt að, og undirstaðan undir því öllu er bættar samgöngur, bættir vegir og bætt aðstaða til þess að koma að sér vélum og öðru, sem nauðsynlegt er til þess að auka ræktunina. En það er ekki þetta, sem stendur á fyrir bændunum. Það eru byggingarnar, sem eru að sliga marga frumbýlinga og gera þeim allra örðugast fyrir að stofna til búskapar, því að það er komið svo, það vitum við, sem þekkjum ástandið í sveitum landsins, að það er ekki að verða svo að segja nokkrum manni fært nema með mikilli aðstoð foreldra að stofna til búskapar, eins og nú er komið, vegna þess hvað það er orðið dýrt. Þess vegna verða menn að gera sér grein fyrir því, að ef þeir vilja taka verulegt átak til umbóta á þessu sviði, þá mega þeir ekki fella þær till., sem við hv. 2. þm. Skagf. leggjum hér fram.