03.05.1957
Neðri deild: 91. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

126. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Mér finnst það harla einkennilegt, að það, sem mest á ríður fyrir sveitir landsins, sé byggingarnar, því að út af fyrir sig held ég að byggingarnar skapi ekki neinn fjárhagslegan grundvöll fyrir afkomu landbúnaðarins. Það, sem fyrst og fremst kann að skapa fjárhagslegan grundvöll fyrir afkomu landbúnaðarins, er ræktunin, sem allt annað hvílir á, sem bændurnir framkvæma. Sé nógu vel búið að ræktunarmálunum, vaxa möguleikar bændastéttarinnar langmest við það. Samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir, eru það fyrst og fremst ræktunarmálin, sem eru tekin miklu fastari tökum og framlag ríkisins veitt ríflegar til en nokkru sinni hefur verið áður, og er það vel farið.

Við getum t.d. tekið nýbýlingana, sem við höfum verið að ræða um. Landnáminu hefur verið skylt að rækta 5 hektara fyrir hvert býli. En nú á að auka þetta um helming, og með því að auka framlagið um helming, þ.e. að láta þá hafa helmingi stærra tún, hafa þeir aðstöðu til að fjölga því búfé, sem þeir annars hefðu, um helming. 5 ha. geta skapað þeim möguleika til að hafa a.m.k. fimm kýr eða a.m.k. hundrað fjár.

Þá er í öðru lagi að minna á það, að hv. þm. A-Húnv. minntist á, að þetta væri ákaflega lítið byggingarframlag, þessi 25 þús. kr., sem á að veita í styrk til þeirra, sem eru að reisa nýbýli. Það má vel vera, að þetta sé ekki stór hjálp, en enn þá er ekki íslenzka bændastéttin orðin það fjársterk, að hana muni ekki um 70 lambsverð, því að 25 þús. kr. eru því sem næst 70 lambsverð. Því miður getum við ekki sagt með sanni, að bændastéttin sé orðin svo vellauðug nú, að hana muni ekki um það, sem minna er en það.

Svo vil ég minna á það, að þó að till. hv. minni hl. verði felldar, er ekki loku skotið fyrir, að það megi hækka þessi framlög, vegna þess að orðalag frv. er þannig, að það eigi að veita minnst 11/2 millj. Þess vegna er það hægt fyrir löggjafarvaldið, hvenær sem því sýnist, að hækka framlagið, þegar því finnst það hafa fjárráð til. Það er auðvelt að gera það. Sama máli er að gegna um byggingarsjóð sveitanna, að þar stendur að eigi að veita minnst 21/2 milljón, og það er hægt að hækka það framlag, hvenær sem löggjafarvaldinu sýnist það hafa tækifæri til þess. Enn fremur vil ég benda á, að það er hægt að hækka lánin til íbúðarhúsabygginganna, án þess að framlag ríkisins hækki, og hefur það oft og mörgum sinnum verið gert, því að framlag ríkisins hefur veríð svipað, að mig minnir, í lögum núna s.l. 10 ár. En það er búið að hækka lánin oft og mörgum sinnum, og miðast lánin og hafa verið miðuð á hverjum tíma við þá dýrtíð, sem hefur verið í landinu, nokkurn veginn reynt að bæta upp þann aukakostnað, sem hefur orðið á byggingum vegna dýrtíðar, og mun slíkt vafalaust verða í framtíðinni. Þó að þessar tillögur nái ekki fram að ganga, geta því risið upp jafnmörg og jafnvegleg hús í landinu og hingað til hafa verið reist.