03.05.1957
Neðri deild: 91. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

126. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Þetta var nú vitanlega örstutt. Hv. þm. Dal. ætlaði að segja, að við sjálfstæðismenn hefðum verið á móti því að skipa nefnd til þess að endurskoða nýbýlalöggjöfina. En hann hætti við það, vegna þess að hann skorti kjark til þess að halda slíkri fjarstæðu fram, og virði ég það við hann. Kannske hefur líka samvizkan farið að segja til sín, því að í eðli sínu er hv. þm. Dal. ágætismaður. Um það, að hv. framsóknarmenn hafi flutt till. hér á Alþingi um, að nýbýlalöggjöfin yrði endurskoðuð, vil ég benda á, að þeir höfðu ekki frumkvæðið í þessu efni. Þetta mál mun hafa fyrst komið fram á búnaðarþingi og verið rætt þar, og síðan fluttu framsóknarmenn till. um þetta. En við sjálfstæðismenn vorum ekki síður fýsandi, að þetta mál yrði endurskoðað, heldur en framsóknarmenn, og ég ætlast til, að hv. þm. Dal. hafi þann drengskap að viðurkenna það opinberlega síðar, þótt hann hafi ekki tækifæri til þess nú, af því að hann er búinn að tala þrisvar. En hann fær tækifæri til þess síðar að viðurkenna þetta opinberlega.

Svo tel ég ekki ástæðu til þess að tala meira um þetta. Ég er ánægður með það, hvað hv. þm. Dal. hefur dregið í land, og núna í sinni síðustu ræðu datt honum ekki í hug að tala um, að það væri nú þegar nógu vel búið að æskumönnum landsins, sem vildu hefja búskap í sveitum, og það út af fyrir sig er spor í rétta átt, ef hv. þm. hefur lært það í þessum umræðum, að það er ýmislegt fleira, sem þarf að gera, til þess að allt verði í lagi hjá þeim, sem í sveit búa.