06.05.1957
Neðri deild: 92. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1288)

126. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég fékk nú reynslu af því við 2. umr. þessa máls hér í hv. d., að ekki mundi þýða að bera fram neinar efnisbreytingar við þetta frv., en ég vildi þó segja örfá orð og um leið leggja hér fram skriflega smábreytingu frá hálfu landbn. eða þess hluta hennar, sem er hér viðstaddur, en skrifstofustjóri benti okkur á, að það vantar annaðhvort eða hefur fallið niður í 21. gr. eitt orð, þannig að á undan orðunum „vanefnda þeirra“ bætist: vegna. — Vil ég leyfa mér að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari till., þar sem hún er of seint fram komin og skrifleg.

En að öðru leyti skal ég segja hér örfá orð nú, um leið og þetta mál fer út úr hv. d., einkum vegna þess, að það hefur komið fram sú lýsing á brtt. mínum og hv. 2. þm. Skagf., sem hér voru felldar við 2. umr. í hv. deild, að þetta hafi verið yfirboðstillögur, fluttar í auglýsingaskyni.

Út af því vil ég segja það, að þær till., sem þar var um að ræða, voru ekki neitt annað en að færa frv. til samræmis við það, sem mþn. í landbúnaðarmálum, sem frv. samdi upphaflega, lagði til. Og ég vil minna á, ekki sízt hv. framsóknarmenn, að í þeirri mþn. voru m.a. tveir af virðulegustu mönnum þeirra flokks í sveitum landsins, skólastjórinn á Hólum, Kristján Karlsson, og formaður Búnaðarfélags Íslands, Þorsteinn Sigurðsson, og mætti því segja: Ja, yfir hvað voru þessir menn og við hinir að bjóða? Hluturinn er sá, að þær till., sem þar er um að ræða, eru ekki neinar yfirboðstillögur, heldur fluttar af brýnni nauðsyn sveitamanna og bændastéttarinnar í beild. Og ég vil segja það, að ég býst við, að það sé eins með alla mína samstarfsmenn í nýbýlastjórn ríkisins og mig, að okkur mun ekki þykja það neitt ánægjulegt að þurfa að framkvæma 26. gr. þessa frv. þannig að neita fjórða hverjum manni a.m.k. um þá aðstoð, sem þar er faríð fram á af þeim mönnum, sem eiga rétt til aðstoðarinnar.

Í öðru lagi er svo þess að geta, að þegar það er orðið kunnugt, að byggingarkostnaður íbúðarhúsa fer stórkostlega hækkandi og kannske sjaldan eða aldrei eins mikið og nú á þessu ári, þá er ekki ánægjulegt til þess að hugsa að geta ekki hækkað lánin neitt frá því, sem þau eru, þar sem hámarkið er um 30% byggingarkostnaðar. En þrátt fyrir það flyt ég nú ekki neinar aðrar brtt. og auðvitað óska þess, að þetta frv. verði þá samþ. sem fyrst, því að það er orðið á eftir tímanum vegna þeirra jarðræktarframkvæmda, sem eiga að gerast á þessu vori. Er því æskilegt, að því verði hraðað, og væntanlega verður séð um það í hv. Ed. — Ég skal svo afhenda hæstv. forseta þessa orðalagsbreytingu á 21. gr.