13.05.1957
Efri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

126. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Eins og fram kom af ræðu hv. frsm., voru allir nm. í landbn. mjög vel sammála um meginatriði þessa frv., enda ákváðu þeir að gefa út sameiginlegt nál. Nefndarmenn töldu allir frv. hið merkasta og mikilvægasta og voru ákveðnir í því að tefja það ekki um of á leið sinni um Ed., heldur gera sitt ýtrasta til þess að greiða fyrir framgangi þess á þinginu, sem nú situr. Hins vegar var snemma sýnt, að frv. þurfti aftur til Nd. til smálagfæringar, eins og hv. frsm. gerði grein fyrir.

Þá skýrði frsm. og frá því, að nm. hefðu talið æskilegra að íhuga frv. frekar og jafnvel gera á því nokkrar efnisbreytingar, en fallið frá því af ótta við, að það mundi tefja um of framgang málsins. Það varð því ekki úr, að bornar væru fram neinar stórvægilegar breytingar á frv. Hins vegar höfum við hv. 2. þm. Árn. og ég flutt brtt. á þskj. 510 við þetta frv. Eru þessar till. fluttar til samræmís við till. mþn., sem frv. samdi, en breytt hefur verið af öðrum.

Við umræður málsins hér á þingi hefur það greinilega komið fram, að frv. þetta er lagt fyrir þingið í allbreyttu formi frá því, sem mþn. gekk frá því. Þrátt fyrir eftirgrennslanir hefur það ekki fengizt upplýst, hverjir breyttu frv., hvað þá heldur, að sýnt hafi verið fram á það, að sú breyting hafi verið gerð af færari mönnum og vinveittari landbúnaðinum en þeim fimm mönnum, sem voru í mþn. og vitað er að eru meðal allra færustu manna í öllu því, er að landbúnaði lýtur.

Þessar brtt. okkar eru við 26. gr. frv., á þá leið, að til framlags til íbúðarhúsabygginga verði varið 2 millj. kr. á ári, eins og mþn. lagði til. Í öðru lagi, að framlag til byggingarsjóðs skv. 43. gr. frv. sé fært til samræmis við tillögur mþn., er miðast við það, að lán til íbúðarhúsabygginga sveitanna geti orðið minnst 100 þús. kr.

Hv. frsm. drap reyndar á það, að tillögur þessar, okkar tvímenninganna, væru fyrst og fremst fluttar til að sýna þær. Ég ætla ekki að fara að rökræða þetta við hann. Hins vegar var það alveg rétt, sem hann sagði, að við vonum, að þessar till. verði ekki til að tefja framgang frv. og að þær verði ekki sérstakt deilumál, en að baki þeim stendur eindreginn vilji okkar til að fá þær samþykktar.