09.05.1957
Neðri deild: 94. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (1319)

128. mál, tollskrá o. fl.

Björn Ólafsson:

Herra forsetl. Ég flyt till. á þskj. 482 ásamt hv. þm. Borgf. um breytingu á aðflutningsgjöldum fyrir vélar í fiskiskip og sjálfvirkar flökunarvélar.

Fyrir þinginu liggja tvö frv. um þetta efni, sem bæði hafa að líkindum vistazt í fjhn. d., en ekki hafa fengið þar afgreiðslu enn. Ég er flm. að öðru ásamt hv. þm. Snæf., hitt frv. flytja þm. Borgf., Snæf. og G-K.

Við þessa till. okkar á þskj. 482 hefur svo komið önnur brtt. frá hv. 1. þm. Rang. og þm. A-Húnv. um, að landbúnaðarvélum sé bætt við upptalninguna.

Ég skal þá fyrst minnast á flökunarvélarnar, sem gert er ráð fyrir í frv. að fái tímabundið afnám aðflutningsgjalda.

Eins og ég gat um í framsöguræðu minni fyrir því frv., kosta þær flökunarvélar, sem nú hafa verið pantaðar til landsins, sumar af þeim komnar, um 30 millj. kr. hér á höfn. En viðtakendur, sem allir starfa að sjávarútvegi eða vinnslu sjávarafurða, verða að borga 101/2 millj. kr. til viðbótar þessum 30, sem vélarnar kosta, fyrir aðflutningsgjöld, að mestu leyti til ríkissjóðs. Þegar verið er að reyna að bæta vinnubrögð þeirra fyrirtækja, sem vinna úr sjávarafurðum, og verið er að reyna að koma sjávarútveginum úr þeim taprekstri, sem hann nú er í, virðist það skjóta nokkuð skökku við, að einmitt þau stórvirku tæki, sem eiga að hjálpa til að gera vöruna ódýrari til útflutnings, eru tolluð svo gífurlega eins og hér ber raun vitni. Þriðjung af andvirði þessara véla verða móttakendur að greiða sem tolla til ríkissjóðs. Um bátavélarnar hefur lengi verið rætt í þessu sambandi, og eins og allir vita, hefur nú upp á síðkastið verið þannig, að menn hafa sent bátana til útlanda til að fá vélar settar í þá, aðeins til þess að losna við aðflutningsgjöldin af vélunum. Bátavélar eru að vísu í lágum grunntolli, eins og verið hefur. Það eru 2% verðtollur og 2 aurar af hverju kílói, en þær eru ekki, eftír því sem ég get bezt séð, undanþegnar því 11% aðflutningsgjaldi, sem sett var á í vetur um nýárið, svo að gjöld af þessum vélum til ríkissjóðs nema um 15% af andvirði þeirra, komnum hingað á höfn, eftir því sem ég get bezt séð.

Sama máli gegnir um dráttarvélar. Mér skilst, að greiðsla til ríkissjóðs fyrir innflutning á þeim muni nema tæpum 15%. Hins vegar eru dráttarvélarnar undanþegnar 11% gjaldinu, en hafa 8% grunngjald, sem setur hvorar tveggja þessar vélar á sama bekk, ef svo mætti segja. En þó að aðflutningsgjöld séu hér há, þá held ég að menn séu yfirleitt þeirrar skoðunar, að ekki eigi að tolla, hvorki til landbúnaðar né sjávarútvegs, þau frumtæki, sem þessir atvinnuvegir þarfnast.

Landbúnaðarvélarnar eru betur settar, vegna þess að þær eru undanþegnar sérstaklega 11% gjaldi, sem lagt var á í vetur. Það er því orðið talsvert misræmi í þessu hvað landbúnaðarvélar og dráttarvélar snertir og hins vegar bátavélarnar.

Við vonum þess vegna, að hv. þm. sjái sanngirnina í því að létta tollum af þessum tækjum, sem brtt. fjallar um.