24.01.1957
Neðri deild: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2336 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég þakka það, að taka eigi síðara málið út af dagskrá. Mér finnst hins vegar fullsnemmt að kveða á um það nú, að það eigi að koma til 2. umr. á morgun. Ég er ekki svo viss um það, að Kjartan J. Jóhannsson komi hingað til bæjarins í dag, auk þess jafnvel þó að hann kæmi, þá verður honum að gefast einhver tími til þess að bera sig saman við sína nefndarmenn og fleiri og semja nál. Mér finnst það því óþarfur hraði af hæstv. forseta eftir allt, sem á undan er gengið, ef þarf að fara þannig að.

Varðandi hitt málið, þá held ég, að vinnubrögðin yrðu miklu betri með því, að okkur væri gefinn kostur á að lesa þetta frv. í dag og athuga það og hlusta síðan á skýringar hæstv. ráðh. Ég segi fyrir mitt leyti, a.m.k. er mér svo hagað og mínum skilningi, að ég á ólíkt betra með að skilja skýringar, ef ég er nokkuð kunnugur málinu áður, heldur en ef ég kem að því alveg ókunnugur. Og úr því að hvort eð er eiga ekki að vera frekari umr. í dag, þá sé ég ekki, að það yrði nein töf að því, þó að málin yrðu nú látin bíða. Það er búið að útbýta þeim, það þarf ekki nein afbrigði á morgun, og enginn okkar mundi heldur hafa neitt við það að athuga, þó að við ættum að greiða atkv. um afbrigði með því á morgun, að þá yrði haldin framsöguræða í málinu, eftir að við hefðum fengið að lesa málið; það er hvort eð er ekki nema nokkrar greinar og sjálfsagt hægt að átta sig á því á þeim hluta dagsins, sem við enn höfum til umráða. Ég vildi því halda fast við það, að þessum málum yrði frestað og fundur svo haldinn með venjulegum hætti á morgun. Sætti ég mig fyllilega við, að sjávarútvegsmálin verði þá tekin til efnislegrar meðferðar, en vildi enn beina því til hæstv. forseta, sem ég treysti til fullrar sanngirni í því, að láta hitt málið bíða, þangað til séð verður, hvort Kjartan J. Jóhannsson a.m.k. kemur ekki fyrir helgi. Ef það dregst, að hann komi, þá skil ég, að við getum ekki farið fram á að málið sé lengur dregið hans vegna eða okkar.