09.05.1957
Neðri deild: 94. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

128. mál, tollskrá o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru nokkur orð út af þessari brtt. eða breytingartillögum, sem hv. síðasti ræðumaður talaði hér fyrir. —Það vita allir hv. þm. og allir landsmenn, að sá háttur hefur verið á hafður nú nokkuð lengi að draga saman stórfé í uppbótasjóð með aðflutningsgjöldum í stað þess að breyta skráðu gengi krónunnar. Þetta er það, sem hefur gerzt. Mikill hluti framleiðslunnar hefur alls ekki getað lifað við það gengi, sem skráð er, og þá hefur sá háttur verið á hafður að draga saman fé með aðflutningsgjöldum og setja í sjóð til þess að veita uppbætur fyrir útflutningsframleiðsluna. Það er þess vegna á allra vitorði og náttúrlega ekki sízt hv. þingmanna, að það er ekki hægt að líta á aðflutningsgjöld hér í þessu landi eins og nú er komið öðruvísi en svo, að mikill hluti þeirra er blátt áfram eins konar gengisálag, sem lagt er á innflutninginn. Það er nú orðið þannig, t.d. í þeim dæmum, sem fjallað er um í þessari brtt., að minnstur hluti þessara gjalda fer til ríkisins eða ríkissjóðs, heldur renna þau inn í þennan uppbótasjóð.

Nú getur það náttúrlega verið álitamál, hvernig þessu eigi að haga. Það væri hugsanleg sú leið að hafa uppbætur á vissar útflutningsvörur lægri en ella og undanþiggja þá allar vörur, sem hlutaðeigandi útflutningsgrein notar til rekstrarins, aðflutningsgjöldum. Afleiðingin af þessu mundi náttúrlega verða sú, að allar þær vörur, sem þessi útflutningsgrein þyrfti til sinna þarfa, væru keyptar inn við óeðlilega lágu gengi, þær væru í raun og veru borgaðar stórkostlega niður við innflutninginn. Það er það, sem þá gerðist. En það er líka hægt að hafa þann háttinn á að undanþiggja ekki nema sumar vörur, sem útflutningsgreinarnar þurfa, aðflutningsgjöldum, leggja á þær útflutningsgjöld að einhverju leyti eins og annað, en hafa þá útflutningsuppbæturnar þeim mun hærri: Og þannig hefur dæmið verið sett upp hér að sumu leyti. Margar af notaþörfum útflutningsframleiðslunnar eru alveg undanþegnar gjöldum. Sumar eru undanþegnar þeim að nokkru leyti þannig séð, að þær eru settar í lága flokka. Síðan er dæmið sett upp miðað við þann framleiðslukostnað, sem fram kemur skv. þessu fyrirkomulagi, og greiddar útflutningsuppbætur miðaðar við þetta ástand, miðaðar við það, að framleiðslugreinarnar standi undir þessum gjöldum. Það er ekki hægt að slíta hér úr samhengi einstök atriði. Málið stendur sem sé á þessa lund í stórum dráttum skoðað, að hér er ekki nema að litlu leyti um venjulega tekjuöflun til ríkissjóðs að ræða, heldur eins konar álag, við getum kallað það gengisálag, til þess að bæta útflutninginn.

Nú er mjög svipað fyrirkomulag að þessu leyti eins og verið hefur, að ætlazt er til, að það sé greiddur tollur af vélum, sem ýmist rennur í ríkissjóð eða útflutningssjóð. Það hafa á undanförnum árum verið fluttar till. hér í þinginu um að breyta þessu og að undanþiggja t.d. mótorvélar og landbúnaðarvélar eða a.m.k. mótorvélar. En þær till. hafa ævinlega verið felldar, vegna þess að mönnum hefur ekki þótt það eðlilegt fyrirkomulag, að þær væru alveg undanþegnar, eða treyst sér til þess. Og þær tillögur hafa alltaf verið felldar af þeim, sem hafa stutt stjórnina, sem sé framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum, en fluttar af hinum, sem voru á móti stjórninni. Ég hef ekki fundið annað en að sjálfstæðismönnum hafi fundizt þetta alveg eðlilegt, að svona yrði þetta að vera. Nú aftur á móti horfir dálítið öðruvísi við. Nú eru sjálfstæðismenn komnir hér í stjórnarandstöðu og þá rjúka þeir allt í einu til og finnst sem þeir hafi nú uppgötvað, að það sé alveg óeðlilegt að greiða gjöld af þessum vörum, þessum vélum, til landbúnaðarins og til sjávarútvegsins, að sjálfsagt sé að fella þau alveg niður. Þeir flytja nú tillögu um þetta með rökum, sem þeir sjálfir hafa alls ekki viljað taka til greina á undanförnum árum.

Nú er þannig ástatt um þetta mál, að það er búið að setja hér upp útflutningssjóð og það er búið að setja hér upp fjárlög, sem gerir ráð fyrir tekjum af þessum innflutningi. Ég vil því segja, að það sé í hæsta máta ábyrgðarlaust, þegar svo er ástatt, að flytja till. um, að nú verði allt í einu þessir tekjustofnar felldir niður, og sannast að segja mun vera á allt annan hátt ástatt um tekjuhorfur yfirleitt hjá opinberum sjóðum en svo, að slíkt væri hægt að gera eða forsvaranlegt.

Ég vil svo til þess að gera hv. flutningsmönnum þessara tillagna nokkru hugarhægra, benda þeim á, að í vetur voru uppbæturnar hækkaðar mikið og útflutningssjóðurinn stækkaður og þá auknar álögur til þess að ná peningum í hann, en álögurnar á landbúnaðarvélarnar og bátamótorana voru látnar standa óbreyttar. Álögurnar á bátamótorana og landbúnaðarvélarnar eru því nú miklu lægri tiltölulega en þær voru í tíð fyrrv. stjórnar, þegar sjálfstæðismenn felldu ásamt okkur framsóknarmönnum sem óðast allar till. um að fella gjöldin niður. Það eru því tiltölulega miklu lægri álögur á þessar vélar nú en voru þá. Í haust var sem sé sú pólitík viðhöfð að hækka ekkert álögurnar á þessum vélum, þó að það væru stórhækkaðar álögur á flestar aðrar vörur.

Hv. frsm. benti á, að það hefðu verið nokkur vandkvæði í sambandi við álögur á bátavélar undanfarið, sem sé þau, að menn hefðu sótt á að fara til útlanda til þess að sækja vélar í báta sína vegna misræmis í tollgreiðslum af bátavélum. Ég vil benda honum á, ef hann hefur ekki tekið eftir því, að þetta misræmi hefur verið leiðrétt með því að ákveða, að það skuli greiða sama gjald af bátavélum, sem settar eru í báta erlendis, og þeim, sem inn eru fluttar. Er ekkert undantekið í því efni, nema þegar bátar koma nýir með nýjum vélum. Þess vegna er þetta ósamræmi úr sögunni, sem hefur valdið miklum vandkvæðum undanfarið, Ég vil þess vegna leyfa mér með þessum rökum að lýsa því yfir, að ég get ekki mælt með því, að þessi brtt. verði samþ., heldur verð ég þvert á móti að skora á menn að fella hana.