09.05.1957
Neðri deild: 94. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

128. mál, tollskrá o. fl.

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég sé, að hæstv. fjmrh. er farinn úr deildinni, svo að það er til lítils fyrir mig að fara að svara honum ýmsu af því, sem hann sagði, þegar hann heyrir það ekki.

Ég verð að segja það, að ég tel það fullkomlega fjarstæðu eins og sakir standa að skattleggja nauðsynjar sjávarútvegsins eins og gert er í sambandi við bátavélarnar. Það kann kannske að vera góð pólitík að skattleggja þennan atvinnuveg, til þess svo að hægt sé að bæta honum upp með því hans eigin rekstrartap. En mér finnst nú, að rökvísin í því sé eins og í mörgu öðru, sem gerist í þjóðfélagi okkar.

Hv. þm. V-Húnv. sagði, að flökunarvélarnar væru tollaðar á svipaðan hátt og aðrar hliðstæðar vélar, sem hann nefndi. Það kann vel að vera, að svo sé. En ég verð að telja, að þessi innflutningur á flökunarvélum, sem átt hefur sér stað og á sér enn stað, sé alveg sérstakt fyrirbrigði í innflutningi, þar sem hér á að gerbylta vinnslutækni frystihúsanna í landinu. Hér er ekki verið að tala um nokkurra þúsunda innflutning eða nokkurra hundraða þúsunda. Hér er verið að tala um 30 millj. kr. innflutning. Og það er ríkissjóður sjálfur, sem stendur fyrir því, að þessi innflutningur sé mögulegur, en fyrir það að hjálpa til að ná vélunum tekur hann þriðjunginn af andvirðinu, eða réttara sagt: hann bætir þriðjungi við andvirðið og tekur 101/2 millj. kr. fyrir, að vélarnar komi inn í landið.

Ég skal taka það fram út af því, sem kom fram hjá hæstv. fjmrh., að tölur þær, sem ég nefni í sambandi við flökunarvélarnar, eru útreiknaðar fyrir áramót, áður en nýju skattalögin voru sett á um áramótin.

Hæstv. fjmrh. sagði, að slíkar till. hefðu komið fram og þær hefðu allar verið felldar með aðstoð sjálfstæðismanna. Ég held, að hann misminni þetta, hæstv. ráðh., vegna þess að ég og hv. þm. Borgf. höfum áður borið fram till. um lækkun á innflutningsgjöldum á bátavélum, og ég man ekki eftir því, að við höfum tekið þátt í því að drepa þá till. Það hafa verið einhverjir aðrir en við, sem unnu að því. Það er ekki af því, að Sjálfstæðisfl. er í stjórnarandstöðu, að þessar till. eru nú bornar fram, heldur vegna þess, að það er sanngirni og nauðsyn, að þetta sé gert. Við vitum, að löggjafanum með samþykki hæstv. fjmrh. hefur fundizt alveg nauðsynlegt að undanþiggja þessum gjöldum flestar nauðsynjar sjávarútvegsins. En vegna þess að sjávarútvegurinn þarf nú að fá uppbætur, telur hæstv. fjmrh. alveg nauðsynlegt að skatta nauðsynjar hans til þess að fá lítið eitt upp í uppbæturnar.

En mér er nú spurn: Hvers vegna voru ekki þessar vélar, flökunarvélarnar, sem í grundvallartolli eru í sama flokki og bátavélar, látnar njóta sömu fríðinda sem landbúnaðarvélarnar í sambandi við álögurnar í vetur? Landbúnaðarvélar eru undanþegnar hinu almenna 11% aðflutningsgjaldi. Það eru bátavélarnar ekki. Þær voru ekki undanþegnar þessu gjaldi, en ég spyr: hvers vegna var það ekki gert? Fyrir útveginn eru bátavélarnar ekkert síður nauðsynlegar en landbúnaðarvélarnar fyrir landbúnaðinn. Ég er ekki að telja það eftir, að landbúnaðurinn fékk þessa undanþágu. Ég tel hana alveg sjálfsagða. En ég tel líka sjálfsagt, að sjávarútvegurinn fái hliðstæða undanþágu.