29.01.1957
Neðri deild: 47. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2336 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Á dagskrá þessa fundar í dag er aðeins eitt mál, og það hefur æði oft verið svo, að fundir þingsins hafa verið það stuttir, að það hefur verið rétt, að þm. hafa getað setzt í sæti sín, ef þeir þá hafa setzt þar. Það mætti halda eftir þessu, að það væri kannske ekki mikið, sem lægi fyrir þinginu af málum. En ég vildi einmitt af þessu tilefni leyfa mér hér að benda á, að í nefndum þessarar hv. d. munu, eftir því sem mér telst til, vera óafgreidd sjö stjórnarfrumvörp og 24 þingmannafrumvörp, þannig að það sýnist svo sem það væru næg verkefni fyrir hv. d., ef nefndir d. skiluðu áliti um þessi mál, sem tvímælalaust hlýtur að vera til ætlazt að þær geri, þegar málunum er til þeirra vísað.

Ég vil alveg sérstaklega í þessu sambandi gera aths. varðandi nokkur mál, sem ég hef flutt hér í d. ásamt ýmsum öðrum hv. þm. Það er fyrst og fremst frv. um fiskveiðasjóð Íslands, sem vísað var til nefndar, sjútvn., 9. nóv. s.l. Það er frv. um aðstoð við holræsagerð, sem vísað var til fjhn. 12. nóv. Það er frv. um breyt. á l. um iðnlánasjóð, sem vísað var til iðnn. 12. nóv. Það er frv. um jafnvægi í byggð landsins, sem vísað var til fjhn. 12. nóv., og frv. um gjald af inniendum tollvörutegundum, sem vísað var til fjhn. 15. nóv.

Það virðist, þar sem nú eru komin lok janúarmánaðar, svo sem nægur umhugsunartími hefði átt að vera fyrir þessar hv. nefndir til þess að athuga þessi mál og skila um þau áliti, og hefði þá verið ólíkt meira verkefni hér fyrir hv. d. en raun ber vitni um nú.

Það eru nú vinsamleg tilmæli mín til hæstv. forseta, sem ég treysti vel til þess að hafa áhuga á, að mál verði raunverulega afgreidd hér í deildinni, ekki sízt þar sem hann áður oft hefur bent á það við önnur tækifæri, að það væri mjög óviðeigandi, hversu nefndir lægju á málum og afgreiddu þau ekki, hvort sem þær ætla sér að mæla með þeim eða ekki, — það er auðvitað þeirra mál, — og ég vildi þess vegna beina til hans þeim eindregnu tilmælum, að hann hvetti nefndir d. til þess að skila áliti um þessi sérstöku mál, sem ég hef hér nefnt, og raunar önnur þau mál, sem til nefndanna hefur verið vísað og hlýtur að vera ætlazt til að þær skili áliti um svo fljótt sem þær eiga kost á, eftir að þær hafa athugað þau svo sem eðlilegt er og efni standa til.