22.03.1957
Neðri deild: 73. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

138. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég hef í raun og veru lítið um þetta frv. að segja. Eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðh., má ætla, að full þörf sé á því að gera þær breytingar á fiskveiðasjóðslögunum, sem hér er um að ræða, að afnema hámarksákvæðin, bæði um lánveitingar út á fiskiskip og fasteignir. En það er náttúrlega tilgangslaust mál, ef sjóðnum er þá ekki aflað um leið meiri tekna. Við höfum verið sammála um það hér í umr. um fiskveiðasjóðinn ekki alls fyrir löngu, fyrir nokkrum dögum, í þinginu, að sjóðnum sé mikil þörf á nýju fjármagni, miðað við þær aðstæður, sem menn þá höfðu í huga, og breytist þetta auðvitað enn fremur til hins verra, þegar gert er ráð fyrir þeim breytingum, sem hér er um að ræða, að hækka hámarkslánin til fiskiskipanna og fasteignanna. En það er að sjálfsögðu alveg rétt, að bæði þeir, sem standa að því að byggja fasteignirnar í sambandi við þennan atvinnuveg þjóðarinnar, bátaútgerðina, og þeir, sem ætla sér að eignast og reka ný og stærri fiskiskip, hafa allir vissulega þörf fyrir aukið lánsfé, miðað við það, sem verið hefur.

Ég heyrði það á ræðu hæstv. ráðh., í lok ræðunnar, að hann gerði ráð fyrir, að það mundu sennilega síðar og í öðru formi verða fluttar till. af hálfu hæstv. ríkisstj. um að efla að einhverju leyti tekjumöguleika sjóðsins, og það er gott til þess að vita.

Ég vil aðeins í sambandi við blaðafrásagnir af umr. hér á Alþingi um fiskveiðasjóðinn fyrir nokkrum dögum láta í ljós nokkra undrun mína yfir því, hversu torveldlega fréttariturum sumra blaða gengur að skilja mál þingmanna, og það er raunverulega leitt til þess að vita, að maður skuli þurfa að lesa það í dagblöðunum, að maður hafi sagt allt annað en maður daginn áður segir í þingsölunum. Það eiga sjálfsagt fleiri um sárt að binda í þessum efnum en ég. Það hefur verið gert að umtalsefni í blöðum og sett í fyrirsagnir og endurtekin skrif, að í mínu máli hér um fiskveiðasjóðinn hafi aðalefni þess verið að ráðast á aðgerðaleysi stjórnar Ólafs Thors til þess að efla fiskveiðasjóð. Nú vil ég vekja athygli á því til ábendingar fyrir fréttaritara blaða, sem hér eru, að þegar lagt var fram frv. um breyt. á fiskveiðasjóðslögunum á þskj. 18, þá fylgdi því ýtarleg grg., sem ég rakti þá og vitnað var til af framsögumanni minni hl. sjútvn. í umr. nú fyrir nokkrum dögum, þar sem kemur einmitt fram, hversu mikil efling eða uppbygging bátaflotans hefur átt sér stað á undanförnum árum, svo að hún hefur aldrei verið meiri.

Í stjórnartíð Ólafs Thors, eins og það hefur verið orðað í blöðunum, eða fyrrverandi ríkisstjórnar og meðan hann var ráðherra, sem fór með málefni fiskveiðasjóðs, var sett, eins og kunnugt er, 1955, ný löggjöf um fiskveiðasjóð. Þá löggjöf hafði undirbúið nefnd manna, og var margt í henni fært til betri vegar frá því, sem áður hafði verið í eldri lögunum um fiskveiðasjóð. En varðandi fjáröflun til sjóðsins var það nýmæli tekið upp í löggjöfina, að ríkissjóður skyldi leggja sjóðnum árlega 2 millj. kr. Ég hef látið í ljós þá skoðun mína, að ég taldi þá og tel enn, að þetta ríkissjóðsframlag hafi verið of lágt, en það var þó nýtt, og ég bendi á, að það er nokkuð mikið, miðað við það, sem áður hafði verið, að á hálfri öld hafði sjóðurinn eignazt rúmar 100 millj. kr., en á þessum 50 árum höfðu bein ríkissjóðsframlög til sjóðsins fram til þessa ekki numið nema 11 millj. kr. Einnig gerðist það, að sjóðnum var á þessum tíma lagt fé, 8 millj. kr. af tekjuafgangi ríkissjóðs 1954 og 10 millj. kr. af tekjuafgangi ríkissjóðs 1955. Ég vek alveg sérstaka athygli á því, að á 21/2 ári, þ.e. árinu 1954 og 1955 og hálfu árinu 1956, hefur sjóðurinn veitt í lán til bátabygginga, endurnýjunar bátaflotans og annarra verkefna af svipuðu tagi 81 millj. kr., og er það miklu hærri upphæð en sjóðurinn hefur nokkru sinni áður veitt að láni í þessu skyni. Lánveitingarnar námu, eins og fram kom í grg. fyrir frv. okkar, 20.9 millj. kr. 1954, 25.7 millj. kr. 1955 og 34.3 millj. kr. fyrri árshelminginn 1956. Og það var einnig vakin athygli á því af minni hálfu og í grg. frv., að fyrir 4–5 árum var áætlað af Fiskifélagi Íslands, að hæfileg aukning bátaflotans mundi mega teljast 100 rúmlestir á ári, en á undanförnum 21/2 ári, sem ég vitnaði til áðan um lánveitingarnar, hefur aukning bátaflotans numið 1710 rúmlestum að meðaltall. Sést af því, sem ég nú hef sagt, að sjóðurinn hefur verið miklu drýgri til lánveitinga og stuðnings við sjávarútveginn á þessum árum en áður fyrr, og enda þótt þörf hans sé og hafi verið mikil fyrir aukið fjármagn, var honum þó á þessum árum látið í té allverulega mikið nýtt fjármagn, og í fyrsta skipti tekið upp, svo að nokkuð um munaði, ákveðið ríkissjóðsframlag. Það væri beint eða eðlilegt framhald af þessari löggjöf að auka ríkissjóðsframlagið, eins og við lögðum til í frv. okkar á þskj. 18, ef haft er í huga, hvað ríkissjóður hefur einmitt aukið framlög sín, bein framlög sín til annarra þarfra og góðra mála, sem að vissu leyti eru sama eðlis og hliðstæð þessum, svo sem ég vakti athygli á, eins og til rafvæðingar landsins, til ýmissa landbúnaðarframkvæmda og til aukins jafnvægis í byggð landsins. Ég taldi eðlilegt og tel eðlilegt, að hér hefði fiskveiðasjóður átt að fylgjast með, og þar sem framlagið var ákveðið 2 millj.kr.,ríkissjóðsframlagið 1955, hefði mátt verulega hækka það nú. Lögðum við sjálfstæðismenn til, að það væri hækkað um 10 millj. kr., og það hefði að vissu leyti gert gagn, þó að það hefði verið eitthvað minna.

Mér finnst ástæða til að minna á þessar staðreyndir án þess að fara nú um það fleiri orðum. Eins og ég sagði um þetta frv., er eðlilegt, að það fari til nefndar, og finnst í sjálfu sér efnislega skiljanlegar og eðlilegar þær breytingar, sem það gerir á fiskveiðasjóðslögunum, en endurtek það, sem ég sagði áðan, að það gerir náttúrlega aðstöðu sjóðsins enn verri og miklu erfiðari en áður, ef ekki verður þessu samfara séð fyrir nýrri tekjuöflun. Vil ég því tengja nokkrar vonir við það, sem fram kom í ræðu hæstv. sjútvmrh., að það mál væri enn í íhugun hjá hæstv. ríkisstjórn.