10.05.1957
Neðri deild: 95. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (1343)

138. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til 2. umr., er flutt af hæstv. ríkisstj. og fjallar um breytingu á 4. og 5. gr. l. nr. 46 16. maí 1955, um Fiskveiðasjóð Íslands.

Samkvæmt 4. gr. laganna eiga fiskiskip, sem eru minni en 200 rúmlestir, að sitja fyrir lánum úr sjóðnum. Þetta þýðir í framkvæmd, að sjóðurinn lánar ekki til stærri skipa en 200 rúmlesta. Í frv. er lagt til, að rúmlestatölunni verði breytt þannig, að skip allt að 300 rúmlestum sitji fyrir lánum. Ef sú breyting verður samþykkt, yrði þá veitt lán til skipa allt að 300 rúmlestum. Ástæðan til þess, að farið er fram á þessa breytingu, er sú, að samið hefur verið um smíði nokkurra fiskiskipa, sem eru nokkuð yfir 200 rúmlestir, og er gert ráð fyrir, að veitt verði lán til þeirra úr fiskveiðasjóði, en vafi getur leikið á, að það sé heimilt að óbreyttum lögum. Hér er um að ræða þau skip, sem ríkisstj. var heimilað að semja um kaup á í 5. gr. l. um heimild fyrir ríkisstj. til skipakaupa, lántöku og sérstakra ráðstafana í útgerðarmálum til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, sem samþykkt voru hér á Alþingi í lok s.l. árs. Í lögunum var stærð þessara skipa ákveðin 150–250 rúmlestir, en niðurstaðan hefur orðið sú, að skipin verða nokkuð yfir 200 rúmlestir, eins og ég hef áður sagt. Gert er ráð fyrir, að skip þessi, sem smíðuð eru erlendis, komi til landsins á árinu 1958, en nokkuð af verðinu þarf að greiðast þegar á þessu ári.

Í 5. gr. laganna eru ákvæði um hámarkslán úr sjóðnum. Þar er í fyrsta lagi ákveðið, hve mikill hluti lán megi vera bæst af verði skips eða fasteignar, sem lán er veitt til. Til fiskiskipa, sem smíðuð eru innanlands, mega lánin vera allt að 3/4 verðs, er þá miðað við virðingarverð eða kostnaðarverð, til skipa, sem smíðuð eru erlendis, allt að 2/3 verðs og til fiskvinnslustöðva allt að 3/5 verðs. Auk þess eru svo í sömu grein ákvæði um hámarksupphæðir einstakra lána, þannig að lán til fiskvinnslustöðva má ekki fara fram úr 600 þús. kr. og lán til skipa ekki fram úr 1250 þús. kr. á skip. En í frv. er lagt til, að þessi ákvæði um hámarksupphæðir séu felld niður, þannig að lán til skips megi hér eftir fara fram úr 1250 þús. kr., ef 2/3 eða 3/4 af verðinu nemur hærri upphæð, og að lán til fiskvinnslustöðvar megi fara fram úr 600 þús. kr., ef 3/5 af verði fiskvinnslustöðvar nema hærri upphæð.

Ástæðan til þess, að farið er fram á þessa breytingu, er bæði sú, að nú er gert ráð fyrir lánveitingum til stærri skipa en fyrr, og svo það, að stofnkostnaður skipa og mannvirkja er nú hærri en áður var. Þykir því ekki rétt, að sjóðurinn sé alveg bundinn við þær hámarksupphæðir, sem tilgreindar eru í lögunum.

Hitt er svo annað mál, að ekki má líta svo á, að sjóðnum sé talið skylt að veita jafnan að fullu lán, sem nemi 2/3, 3/4 eða 3/5 af verði skipa og mannvirkja, sem lánað er til, og hlýtur það að fara eftir fjármagni því, sem sjóðurinn hefur til umráða á hverjum tíma. Einkum má teljast vafasamt, að þetta reynist unnt, þegar um mjög stór og dýr mannvirki í landi er að ræða, enda hefur sjóðurinn yfirleitt hingað til ekki fullnotað heimildir laga um lánveitingu til slíkra framkvæmda. En lánveitingar til eflingar og uppbyggingar bátaflotans verða að sjálfsögðu að sitja í fyrirrúmi á svipaðan hátt og verið hefur, aðeins með þeirri breytingu, að hámarkið er nú hækkað upp í 300 rúmlestir, þ.e. hámark skipastærðarinnar, sem lánað er til.

Sjútvn. hefur rætt þetta frv. á nokkrum fundum og leitað um það umsagnar stjórnar Fiskveiðasjóðs Íslands, og með tilliti til þeirrar umsagnar ber nefndin fram brtt. við 2. gr. frv., brtt. á þskj. 496, varðandi útborgun lána til skipa. Er lagt til í brtt., að í reglugerð verði kveðið á um, hversu haga skuli útborgunum lána, meðan skip er í smiðum, enda munu ákvæði laganna yfirleitt ekki hafa verið framkvæmd bókstaflega eins og þar er gert ráð fyrir.

Þá leggur nefndin til, að breytt sé einu orði í sömu grein, þ.e. í 2. gr. frv., og er þar um að ræða lagfæringu á orðalagi, en ekki efnisbreytingu. Að öðru leyti leggur nefndin til að frv. verði samþykkt óbreytt.