22.05.1957
Neðri deild: 103. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

147. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég þarf aðeins að leiðrétta eitt atriði í ræðu hv. þm. Borgf. Það er á misskilningi byggt hjá honum, að ekki hafi fengizt afgreiðsla á frv. til laga um Fiskveiðasjóð Íslands, 18. máli Alþ. Sjútvn. hefur afgreitt það mál. Hún var að vísu ekki sammála um þá afgreiðslu, og það féll í minn hlut að hafa hér framsögu fyrir meiri hl. n., en málið var tekið fyrir til 2. umr. og vísað til ríkisstj. Hef ég fengið afrit af bréfi því, sem Alþ. hefur sent ríkisstj. um það mál, en þar segir:

„Hér með er ráðuneytinu tilkynnt, að frv. til laga um breyting á l. nr. 40 16. maí 1955, um Fiskveiðasjóð Íslands, á þskj. 18, var á fundi Nd. í dag, er málið var til framhalds 2. umr., vísað til ríkisstjórnarinnar samkvæmt till. frá meiri hl. sjútvn. Var sú till. samþ. með 17:10 atkv.

Ég gat þess í minni framsöguræðu fyrir þeirri till. að vísa málinu til ríkisstj., að það væri engan veginn meining meiri hl. sjútvn. að koma í veg fyrir það, eins og sumir hv. sjálfstæðismenn vildu nú vera láta, að málið fengi eðlilega afgreiðslu, heldur væri þessi afstaða meiri hl. sjútvn. byggð á því, að það gætu allt eins vel komið til greina aðrar leiðir til þess að afla fiskveiðasjóði aukinna tekna heldur en beint ríkisframlag. Og það frv., sem hér er nú til umr. og afgreiðslu, stendur að sjálfsögðu í nokkuð beinu sambandi við þá afgreiðslu, sem varð á því frv., sem hv. þm. Borgf. gat um. Hér eru sem sagt till. ríkisstj. um aukið framlag til fiskveiðasjóðs í þessu frv., sem liggur fyrir.

Varðandi það, hversu miklar auknar tekjur þetta frv., ef að l. verður, gefur fiskveiðasjóði, skal ég taka fram, að sú tala, sem ég nefndi, um það bil 41/2 millj., er byggð á útreikningi, sem gerður mun hafa verið í atvmrn., þar sem lagðar eru til grundvallar þær upplýsingar, sem fyrir lágu um útflutninginn 1956. En eins og getið er um í athugasemdunum við lagafrv., voru tekjur fiskveiðasjóðs af þeim útflutningi 11 millj. 316 þús., en ef fiskveiðasjóði hefðu verið reiknaðar tekjur samkv. þeim till., sem hér eru gerðar í þessu frv., þá hefðu tekjur hans af þeim sama útflutningi orðið 15 millj. 741 þús., eða tekjuhækkun 4 millj. 425 þús. Þetta er að sjálfsögðu alltaf breytilegt frá ári til árs eftir því, hvað útflutningurinn er mikill, og ég vildi mega vænta þess, að það væri ekki fjarri lagi að áætla, að þetta mundi auka tekjur fiskveiðasjóðs um 41/2 millj. árlega.

Ég skal að lokum taka undir það með hv. þm. Borgf., að það er ekki ýkja mikill munur á því, hvort framlag til fiskveiðasjóðs er veitt beint úr ríkissjóði eða með þeim hætti, sem hér er lagt til. Það er nú einu sinni svo í okkar þjóðfélagi, að þegar við rekjum það, hvaðan tekjurnar eru yfirleitt upprunnar, komum við oftast nær niður í einn og sama stað, að langverulegastur hluti þeirra er upprunninn hjá útveginum sjálfum. Og það er vissulega alveg rétt hjá hv. þm. Borgf., að eðlismunur er ekki stór á því, hvort tekjurnar eru teknar með þessum hætti eða veittar beint úr ríkissjóði. En ég vænti þess, að með samþykkt þessa frv. verði bætt úr brýnustu þörf fiskveiðasjóðs. Enda þótt mér sé ljóst, að ekki muni út af þeim sjóði fljóta þrátt fyrir samþykkt þessa frv., þá vona ég þó, að þar verði bætt úr brýnustu þörfunum og að það megi takast að halda starfsemi þess sjóðs áfram, þannig að hann megi koma sjávarútvegi landsmanna að sem allra mestu gagni.