22.05.1957
Neðri deild: 103. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

147. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þegar ég sá þetta frv., sem hér liggur fyrir, um útflutningsgjald af sjávarafurðum, datt mér í hug hið gamla máltæki, að ekki er öll vitleysan eins, því að það að fara að hækka útflutningsgjald af sjávarafurðum virðist mér vera fráleitara en flest annað, sem komið getur til mála, eins og nú standa sakir í okkar þjóðfélagi. Öll útflutningsgjöld, hvort sem er á sjávarafurðir eða landbúnaðarafurðir, ætti að afnema, því að ósanngjarnari gjaldstofn er ekki, eins og nú standa sakir, hægt að finna, vegna þess að öll útflutningsframleiðsla er rekin með miklum halla, sem verður að bæta upp úr ríkissjóði. Ég held, að það væri þess vegna sanni nær að breyta þessu frv. í það horf að afnema útflutningsgjöld af sjávarafurðum heldur en að hækka þau, og ég fæ ekki séð, að það sé sambærilegt að auka tekjur fiskveiðasjóðs með framlagi úr ríkissjóði eða með útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, því að það er ekki sami grundvöllur sem þar liggur fyrir.

Ég efast ekkert um, að það sé rétt, það vitum við, að það er mikil tekjuþörf fyrir fiskveiðasjóð eins og flesta okkar sjóði og peningastofnanir nú, en að hugsa sér að gera það með þessum hætti, það tel ég vera fráleitara en flest annað, sem hægt er að hugsa sér. Ég mun því alveg hiklaust greiða atkv. gegn þessu frv.