12.04.1957
Efri deild: 88. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er vafalaust rétt, að húsnæðismálin hafa lengi verið eitt af allra erfiðustu vandamálum okkar Íslendinga, en sjaldan munu þau samt hafa verið jafnerfið jafnmiklum fjölda fólks eins og tvö síðustu árin. Þetta kann að hljóma illa í eyrum þeirra, sem trúðu því, að með löggjöfinni um hið almenna veðlánakerfi væri þetta vandamál leyst á nokkurn veginn fullnægjandi hátt og til frambúðar. En þessi löggjöf var sem kunnugt er sett fyrir um það bil tveimur árum.

Með setningu laganna um hið almenna veðlánakerfi var látið í veðri vaka, að kerfið fengi a.m.k. 100 millj. kr. til útlánastarfsemi sinnar hvort árið 1955 og 1956. Þessi áætlun var á því byggð, að bankarnir skyldu leggja fram 20 millj. kr. til íbúðalána hvort árið og enn fremur skyldi Landsbanki Íslands ábyrgjast sölu á vísitölutryggðum bankavaxtabréfum fyrir allt að 20 millj. kr. á ári. Þó skyldu vísitölulánin ekki vera hærri en 2 á móti 5 til hvers lántakanda. Þá tryggði Landsbankinn einnig 4 millj. kr. framlög á ári frá tryggingarfélögum, sem ekki eru í opinberri eign. Þessi hluti áætlunarinnar, sem l. um hið almenna veðlánakerfi hvíldu á, stóðst að öðru leyti en því, að vísitöluféð varð ekki 20 millj. á ári vegna ákvæðisins um hlutfallið 2 á móti 5 milli A- og B-lána. Enn fremur var út frá því gengið, að Tryggingastofnun ríkisins legði veðiánakerfinu 11/2 millj. kr. á ári og Brunabótafélag Íslands 1/2 millj. kr. Tryggingastofnunin stóð við sína skuldbindingu, en Brunabótafélagið hefur ekki lagt fram nokkurn eyri til þessa. Í þessari 100 millj. kr. áætlun var reiknað með, að frá sparisjóðum og lífeyrissjóðum kæmu inn í veðlánakerfið 40 millj. kr. á ári, en reyndin varð sú, að lífeyrissjóðirnir og sparisjóðirnir beindu lánastarfsemi sinni að mjög litlu leyti gegnum veðlánakerfið, heldur lánuðu beint utan þess. Þannig kom í ljós um síðustu áramót, að húsnæðismálastjórn hafði ekki fengið neinar 200 millj. kr. til útlánastarfsemi sinnar á þessu tveggja ára tímabili til árslokanna 1956, heldur aðeins 75 millj. kr. bæði árin, eða um 37.5 millj. hvort árið um sig að meðaltali. Auk þessa fékk byggingarsjóður Búnaðarbankans 12 millj. kr. úr veðlánakerfinu hvort árið í A- og B-lánum samanlagt.

Þegar lögin um hið almenna veðlánakerfi voru sett, var sá gleðiboðskapur birtur öllum landsins lýð í blöðum og útvarpi, að nú gæti hver sá, sem réðist í byggingu eigin íbúðar, fengið 100 þús. kr. lán, þegar hús hans væri komið undir þak og orðið fokhelt. Út á þessi gullnu loforð hóf mikill fjöldi manna byggingarstarfsemi, og hafði húsnæðismálastjórnin ekki starfað nema nokkra mánuði, þegar henni höfðu borizt margar þúsundir umsókna um lán, sem auðvitað var enginn möguleiki til að fullnægja.

Engin ákvæði voru um það í l., að það fólk ætti að sitja fyrir lánum, sem væri í húsnæðishraki, væri efnalítið eða hefði fyrir stórri fjölskyldu að sjá. Það var engu líkara en út frá því hefði örugglega verið gengið, að veðiánakerfið gæti leyst allra vanda og þyrfti því ekki neinna takmarkana við um lánveitingarnar. Um stærð íbúða, sem lán mætti veita út á, voru heldur engin ákvæði, enda fór svo, að íbúðir fjögurra og jafnvel fimm herbergja og stærri urðu um það bil helmingur allra íbúða, sem byggðar voru á þessum árum. Á sama tíma sparaði ríkasta þjóð Norðurlanda, Svíar, svo bæði byggingarefni og fjármagn til íbúðabygginga, að fjögurra herbergja íbúðir eða stærri voru aðeins 10–12% af þeim íbúðum, sem þar voru byggðar á þessum sama tíma. Nú hafa þeir að vísu rýmkað svolítið um stærð á íbúðum hjá sér, vegna þess að húsnæðisvandamálið þrengir ekki eins að þeim og það gerði.

Engin ákvæði voru heldur um það í lögunum um hið almenna veðlánakerfi, að ekki mætti veita einum og sama manni nema eitt lán, enda er nú komið á daginn, að ein lánsstofnun lét eina og sömu fjölskylduna hafa 24 af 49 lánum, sem þessi fjármálastofnun veitti á s.l. ári. Við lánveitingarnar þurfti ekki heldur að taka tillit til þess, hvort menn, sem um lánin báðu, áttu íbúð fyrir, og mun mörgum hafa verið veitt lán, sem átti eigin íbúð sæmilega og var aðeins að selja hana til þess að flytjast inn í nýja og stærri íbúð og var þannig ekki í neinni húsnæðisneyð.

Á s.l. sumri stóðu sakir þannig, að um 3 þús. umsóknir um lán voru óafgreiddar og lánakerfið peningalaust. Þó hafði enginn fengið 100 þús. kr. lán, eins og lofað hafði verið. Húsnæðismálastjórnin hafði nefnilega strax orðið að færa lánahámarkið ofan í 70 þús., en við það var ekki heldur hægt að standa nema í sumum tilfeilum og samkv. skýrslum reyndist meðallánsupphæð hafa orðið milli 50 og 55 þús. kr.

Þannig hafði flest brugðizt, sem lofað var. Þeir, sem lán höfðu fengið, fengu helming lofaðrar lánsupphæðar, en hitt var þó miklu verra, að tala þeirra, sem ekkert lán fengu, var nálega þreföld móts við tölu hinna, sem lánaúrlausn höfðu hlotið.

Þegar svona var komið, mátti öllum vera ljóst, að hið almenna veðlánakerfi var fjarri því að hafa reynzt þess megnugt að leysa vanda húsnæðismálanna. Þau mál höfðu aldrei komizt í meira óefni, aldrei verið meira áhyggjuefni þúsunda heimilisfeðra, húsnæðismálin höfðu sem sé aldrei verið fjær fullnægjandi lausn. Þau voru svo sannarlega komin í algert öngþveiti.

Eins og kunnugt er, voru lögin um hið almenna veðiánakerfi, þ.e. fjárhagsgrundvöllur þeirra, fyrst og fremst byggð á samningum við bankana um ákveðin framlög til íbúðalána. Þessir samningar áttu aðeins að gilda um tveggja ára tímabil eða til ársloka 1956, og runnu þeir þannig út um síðustu áramót. Þannig kom það af sjálfu sér, að setja yrði nýja löggjöf til lausnar húsnæðismálunum með byrjun þessa árs. Var leitað til bankanna um að lána 10 millj. kr. til húsnæðismálanna á þessum fyrsta ársfjórðungi, meðan á undirbúningi nýrrar húsnæðislöggjafar stæði. En eftir langan umhugsunartíma varð svar þeirra, sem nú er kunnugt, neitandi. Samt hefur tekizt að útvega um 20 millj. kr. til bráðabirgða, síðan fé veðlánakerfisins þraut á s.l. sumri.

Á þskj. 436 er nú lagt fyrir Alþ. frv. til laga um húsnæðismálastofnun, byggingarsjóð ríkisins, sparnað til íbúðabygginga og útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, og enn fremur eru í þessu frv. nokkrar bráðabirgðabreytingar á l. um verkamannabústaði. Tvö mikilsverð nýmæli eru í þessu frv. auk ýmissa minni háttar. Þessi tvö nýmæli eru stofnun byggingarsjóðs ríkisins með 118 millj. kr. stofnfé og svo ákvæðið um skyldusparnað ungs fólks á aldrinum 16–25 ára til þess að tryggja því möguleika til að eignast eigin íbúð. Mun ég síðar víkja að þessum atriðum báðum.

Í öllum nágrannalöndum okkar starfar sérstakt húsnæðismálaráðuneyti. Í þessu frv. er lagt til, að komið skuli á fót húsnæðismálastofnun ríkisins, sem fari með stjórn húsnæðismálanna. Húsnæðismálastjórn skal skipuð 5 mönnum, og skal hún veita húsnæðismálastofnun ríkisins forstöðu. Í þessari stjórn skulu eiga sæti 5 menn, 4 kosnir hlutbundinni kosningu af sameinuðu Alþ., en sá fimmti skipaður af félmrh. eftir tilnefningu Landsbankans. Landsbankinn hefur átt fulltrúa í húsnæðismálastjórn á þessum tveimur síðustu árum, og er fyrirkomulag á vall þess manns hugsað óbreytt. Skal hann ekki hafa atkvæðisrétt um lánveitingar, enda gæti það varla talizt eðlilegt, að fulltrúi bankans hefði það. Formaður húsnæðismálastjórnar skal vera skipaður af félmrh., en að öðru leyti skal húsnæðismálastj. sjálf skipta með sér verkum. Framkvæmdastjóra, sérfróðan um byggingarmál, skal húsnæðismálastj. ráða með samþykki félmrh. Ég vek athygli á því, að hér er lagt til, að kosningu húsnæðismálastjórnar skuli þannig hagað, að stjórnarandstaðan eigi einnig fulltrúa í henni. Er þar með horfið frá því fyrirkomulagi, sem stjórnarandstaðan varð að sæta, bæði þegar lögin um lánadeild smáíbúða voru sett og eins þegar lögin um hið almenna veðlánakerfi tóku gildi. En þá var húsnæðismálastjórn einvörðungu skipuð fulltrúum stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunni algerlega haldið áhrifalausri á stjórn og meðferð þessara örlagaríku og þýðingarmiklu mála allrar þjóðarinnar.

Verkefni húsnæðismálastofnunar ríkisins er ýtarlega lýst í I. kafla þessa frv., og er verkefnið í fáum orðum sagt að beita sér fyrir hvers kyns umbótum í byggingarmálum, hafa á hendi stjórn byggingarsjóðs ríkisins og yfirumsjón lánsfjáröflunar og lánveitingar til íbúðabygginga í landinu. Af einstökum verkefnum húsnæðismálastofnunar ríkisins má nefna, að hún á að gera grein fyrir raunverulegri þörf landsmanna fyrir íbúðabyggingar á hverjum tíma, gera till. og áætlanir um, hvernig þeirri þörf verði fullnægt á sem kostnaðarminnstan hátt og með hagkvæmustu móti. Það er talið nauðsynlegt í þessu skyni að koma upp fullkominni spjaldskrá yfir allt íbúðarhúsnæði í landinu, en komið hefur í ljós, að allt of ófullnægjandi upplýsingar liggja nú fyrir um húsnæðismálin hér á landi.

Þá er húsnæðismálastofnuninni ætlað að fylgjast ávallt vandlega með byggingarkostnaði í því skyni að finna, hverjir byggi ódýrast og hvaða gerðir íbúðarhúsnæðis reynist beztar og hagkvæmastar og jafnframt ódýrastar. Húsnæðismálastjórnin má láta fara fram samkeppni um uppdrætti og byggingu hagkvæmra íbúða og veita þeim lán, sem getur tekið að sér að byggja hagkvæmastar íbúðir af ákveðinni meðalstærð með minnstum kostnaði. Húsnæðismálastjórnin má setja þau skilyrði fyrir lánum, sem ætla má að stuðli að því, að byggðar verði fyrst og fremst hagkvæmar íbúðir af hóflegri stærð. Húsnæðismálastjórnin á enn fremur að kosta kapps um að koma á hvers konar umbótum í húsagerð, vinnutækni við byggingu íbúðarhúsnæðis, og hún á líka að leggja áherzlu á stöðlun sem flestra hluta til íbúðabygginga og fjöldaframleiðslu slíkra hluta. Hún á að gangast fyrir tæknirannsóknum og kynningu nýjunga í byggingariðnaði, og hún má sjálf láta byggja tilraunahús, þar sem einkum verði reyndar nýjungar í húsagerð. Húsnæðismálastjórninni er einnig ætlað að útvega hagkvæmar teikningar íbúðarhúsa, og hún skal líka beita sér fyrir, að úthlutun lóða tefji ekki fyrir byggingarframkvæmdum. Þá skal hún og í hvívetna reyna að stuðla að því, að vinna við íbúðabyggingar geti verið sem samfelldust árið um kring og jafnframt sem jöfnust frá ári til árs, en sveiflur í þessum málum frá ári til árs geta komið þjóðfélaginu í talsverðan vanda.

Í I. kafla frv. er húsnæðismálastjórn heimilað að láta undirbúa byggingu íbúðarhúsahverfa í kaupstöðum, láta gera skipulagsuppdrætti að þeim í samráði við skipulag bæja, og skal þá bæjarfélögum skylt að heimila byggingar og láta afhenda eða útvega hæfileg landssvæði fyrir þessi hverfi, ef með þarf með eignarnámi, og skal bæjarfélögum skylt að byggja vegi og leiðslur um slík hverfi innan hæfilegs tíma. Slíkt samstarf bæjarfélaganna og þeirra, sem byggja, er bráðnauðsynlegt, einkum ef um nokkur hverfi er að ræða.

Til þess að hagnýta sem bezt þekkingu og áhuga sérfróðra manna í samstarfi við húsnæðismálastjórnina er í I. kafla þessa frv. gert ráð fyrir 9 manna nefnd, sem starfa skuli með húsnæðismálastjórninni henni til aðstoðar og ráðuneytis um tæknileg mál. Hún skal skipuð einum fulltrúa frá hverjum eftirtalinna aðila: Húsameistarafélagi Íslands, Verkfræðingafélagi Íslands, Sveinasambandi byggingamanna, Landssambandi iðnaðarmanna, og einnig skulu eiga í n. sæti skipulagsstjóri ríkisins, húsameistari ríkisins, forstöðumaður byggingarannsókna atvinnudeildar háskólans og 2 menn skipaðir af ráðherra.

Með þessu, sem nú er sagt, hef ég gert grein fyrir I. kafla frv. um húsnæðismálastofnun ríkisins og verksvið hennar. Þessu næst vil ég þá ræða nokkuð annað þeirra höfuðnýmæla, sem ég gat um áðan að fælust í þessu frv., nefnilega um byggingarsjóð ríkisins, en um hann er fjallað í II. kafla þess.

Hlutverk byggingarsjóðsins er að annast lánveitingar til íbúðabygginga og standa straum af framkvæmdum húsnæðismálastjórnar. Stofnfé sjóðsins er þetta: Í fyrsta lagi varasjóður hins almenna veðlánakerfis, sem nú er 20.9 millj. kr. Í öðru lagi lán ríkisins til smáíbúða, sem ríkissjóður hefur nú tekið að sér gagnvart Landsbankanum og verður þannig eign byggingarsjóðs ríkisins, en er að upphæð 32.8 millj. kr. Í þriðja lagi fé, sem lánað var veðiánakerfinu af tekjuafgangi ríkissjóðs 1955, en er nú afhent byggingarsjóði ríkisins til eignar, og eru það 11.3 millj., og í fjórða lagi er svo hluti af stofnfé byggingarsjóðs ríkisins 2/3 hlutar af væntanlegum stóreignaskatti, og er áætlað, að sá hluti verði um 53 millj. Samtals nemur þá þetta stofnfé byggingarsjóðs ríkisins, eins og áður var sagt, 118 millj. kr., og hefur verið reiknað út, að eign sjóðsins eigi að vera orðin 292 millj. kr. að 10 árum liðnum, eða m. ö. o. fast að 300 millj. kr. Eftir því sem næst verður komizt eftir athugun bankafróðra manna, en að meðtöldum tekjum skv. a- til d-liðum 3. gr., á að vera óhætt að gera ráð fyrir, að árlegt fé sjóðsins til útlána verði fljótlega um 40 millj. kr. á ári, en með ári hverju eiga tekjur sjóðsins að fara vaxandi. Það er þetta eigið fé byggingarsjóðs ríkisins, sem að mínu áliti hefur ómetanlega þýðingu fyrir varanlega lausn húsnæðismálanna í framtíðinni.

Þá er í þessu frv. ákvæði um árlega tekjuöflun til byggingarsjóðs, og er gert ráð fyrir árlegum tekjum til hans á þessa leið:

Í fyrsta lagi er það 1% álag á tekjuskatt og eignarskatt með stríðsgróðaskatti og á tolltekjur ríkissjóðs skv. tollskrá. Telst mönnum til, að þessi tekjuliður nemi 4–5 millj. kr.

Í öðru lagi eru það afborganir og vextir lána, sem veitt hafa verið og veitt verða af framlögum ríkisins til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði.

Í þriðja lagi er það lántökugjald af lánum, sem húsnæðismálastjórnin veitir, svo og vaxtatekjur þeirra lána, en þetta lántökugjald er 1% af lánsupphæðinni.

Í fjórða lagi kemur til árlegra tekna byggingarsjóðs höfuðstóll og vaxtafé, sem fallið er í gjalddaga, ef þess er ekki vitjað innan 20 ára. Má nú búast við, að það verði lítið og kannske ekkert.

Samkvæmt 4. gr. frv. er gert ráð fyrir, að áfram starfi undir stjórn húsnæðismálastjórnar og veðdeildar Landsbankans veðlánakerfi til íbúðabygginga. Veðdeild Landsbankans er heimilað að gefa út bankavaxtabréf í þessu skyni, og mega þau nema allt að 100 millj. kr. á ári í næstu 10 ár. Þessi vaxtabréf skulu vera þannig, að annar hluti, A-flokkur, verði með föstum afborgunum og vöxtum, vextirnir 7%, og er lánstími þeirra lána allt að 2b ár. Hinn hlutinn, B-flokkur, má vera allt að 50 millj. kr. á ári og skal vera með vísitölukjörum, þannig að afborganir og greiðsla afborgana og vaxta séu bundnar vísitölu framfærslukostnaðar. Þessi ákvæði eru mjög áþekk ákvæðum III. kafla laganna um hið almenna veðlánakerfi frá 1955, en í stað þeirra skuldbindinga, sem við setningu þeirra laga lágu fyrir frá Landsbankanum, þá lýsir ríkisstj. nú yfir, að hún muni sjá um, að húsnæðismálastjórnin fái til úthlutunar á árinu 1357 ekki minni fjárhæð auk tekna byggingarsjóðsins en 44 millj. kr., og mun hún taka upp samninga við banka og tryggingarfélög til þess að tryggja þetta. Af þessu fé er gert ráð fyrir að byggingarsjóður Búnaðarbankans fái allt að sömu upphæð og hann hefur fengið s.l. 2 ár, þó eftir þörfum í sveitum til slíkra byggingarlána. Þá mun ríkisstj. einnig beita sér fyrir því, að sparisjóðir og aðrir aðilar, sem lagt hafa fram fé til veðlánakerfisins undanfarin 2 ár, leggi ekki minna fé fram árið 1957 en hvort hinna áranna um sig.

Til þess nú að glöggva sig betur á því, hvaða fjármagn á nú að fara til húsnæðismálanna, móts við það, sem áður fór til sömu verkefna, er rétt að minna á það til viðbótar, að framlag til verkamannabústaða hefur nú verið tvöfaldað á fjárlögunum, er nú rétt við 4 millj., en var áður innan við 2. Komi sama framlag frá sveitarfélögum, eins og lögin um verkamannabústaði gera ráð fyrir, þá gæti sú byggingarstarfsemi, sem fram færi fyrir þetta fé, numið 8 millj. Auk þess útvegar svo ríkissjóður aðrar 8 millj. kr. á þessu ári til byggingar verkamannabústaða, og hefur það fé þegar verið tryggt.

Til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði eru nú á fjárlögum 4 millj., og ef ég man rétt, eru til 5 millj. í þessu skyni af fjárveitingu fyrri ára. Þetta fé verður því aðeins greitt af hendi skv. lagaákvæðum, að sveitarfélög leggi fram jafnmikið fé á móti, og verður því unnt að verja allt að 18 millj. kr. til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði, ef sveitar- og bæjarfélög leggja mótframlög móti því fé, sem nú er til á þessa árs fjárlögum og sem geymslufé. Það er margfalt hærri upphæð en nokkru sinni áður hefur verið varið í því skyni að útrýma heilsuspillandi húsnæði á einu ári. Ef þessar tölur eru hins vegar teknar án mótframlaga bæjanna, er hér samt um að ræða 33 millj. kr. af nýju fé á árinu 1957 til húsnæðismálanna.

Kem ég þá að III. kafla frv., um sparnað til íbúðabygginga. Í þeim kafla er í fyrsta lagi gert ráð fyrir, að menn eigi kost á því að leggja til hliðar 5 þús. kr. á ári, og ef það hefur verið gert í 5 ár, þannig að að þeim tíma liðnum sé til slíkt sparað fé 25 þús. kr., þá skal húsnæðismálastjórn veita þessu fólki lán til íbúðabygginga umfram aðra, miðað við sömu aðstæður, og má það lán til þess fólks vera allt að 25% hærra. En þetta er sem sé alveg frjálst, og maður veit ekki, hvort þetta kann að gefa meira eða minna eða kannske að það gefi ekki neitt. Það er því ekki tekið með í neina útreikninga um tekjuöflun til húsnæðismálanna á árinu. Þetta fé á að leggjast í sérstaka innlánsdeild, sem starfa skal á vegum byggingarsjóðs ríkisins.

Þá kemur að því ákvæði þessa lagabálks, sem óefað mun vekja mesta athygli og sumir munu kannske telja að sé árás á unga fólkið, en ég vil þó telja, að sé fyrsta alvarlega viðleitnin til þess að hjálpa ungu fólki til að geta eignazt þak yfir höfuðið. En í þeirri grein, 10. gr. frv., er gert ráð fyrir því, að öllum einstaklingum á aldrinum 16–25 ára skuli vera skylt að leggja til hliðar 6% af launum sínum, hvort sem þau eru greidd í peningum eða sambærilegum verðmætum að öðru leyti. Þetta skal gert í því skyni, að þessum einstaklingum myndist sjóður til íbúðabygginga eða til bústofnunar í sveit. Það fé, sem á þennan hátt safnast, skal ávaxtað í innlánsdeild byggingarsjóðs ríkisins fyrir alla þá, sem búsettir eru í kaupstöðum og kauptúnum, en fyrir þá, sem búsettir eru í sveitum, skal sparifé þeirra ávaxtað í veðdeild Búnaðarbanka Íslands.

Það fé, sem sparast á þennan hátt, á að njóta vissra hlunninda, og eru þessi hlunnindi í fyrsta lagi þau, að af upphæðinni skal það ár, sem hún er lögð til hliðar, ekki greiðast tekjuskattur og ekki heldur útsvar af upphæðinni. Þá skal spariféð í annan stað vera vísitölutryggt þannig, að þegar það borgast út, þá borgast það með uppbót vegna vísitöluhækkunar. Í þriðja lagi skal þetta skyldusparifé veita forgangsrétt til lána að öðru jöfnu, og það skal í fjórða lagi tryggja 25% hærra lán en öðrum er veitt á sama tíma við sams konar aðstæður, þegar til útborgunar kemur, en til útborgunar á þessu fé skal koma, þegar viðkomandi er orðinn 25 ára eða við stofnun heimilis og giftingu.

Það hefur verið lauslega gerð athugun á því hér á hagstofunni, hvað líklegt þætti að þessi skyldusparnaður unga fólksins gæti numið miklu á ári, og telja menn, að það gæti orðið 15–16 millj. kr. á ári.

Bankamenn hafa gert töflu yfir það, hvernig þessar tekjur af skyldusparnaðinum ættu að aukast á næstu 10 árum frá 1957 til 1966, og teist þeim til, að miðað við óbreytt verðlag og tekjur fólks að krónutölu ætti þessi sjóður eftir þeim reglum, sem honum er ætlað að starfa, að nema 98 millj. kr., eða rétt við 100 millj. kr. í árslok 1956, og eftir það, ef þessum skyldusparnaði væri haldið áfram, ætti þessi sjóður að ná yfir 10 árganga ungs fólks og eflast frá ári til árs nokkuð þrátt fyrir lánveitingar.

Ég get vel búizt við því, að einhverjir telji, að þarna séu lagðar þungar kvaðir á hið unga fólk í íslenzku þjóðfélagi, en það er líka jafnframt verið að tryggja því lausn á því vandamáli, sem lengstum hefur verið unga fólkinu hvað erfiðast í skauti að leysa, þ.e.a.s. að geta stofnað heimili og eignazt eigin íbúð.

Ég er því ekki í nokkrum vafa um það, að a.m.k. þegar fram í sækir mun það unga fólk, sem nú verður að taka þessa skyldu á sínar herðar, þegar kemur að því að njóta ávaxtanna af þeim skyldum, þakka fyrir það, að því var með þessu móti tryggt að þurfa ekki að horfast í augu við óleysanlegan vanda íbúðarhúsnæðismálsins nokkrum árum síðar.

Það þótti sjálfsagt að láta þennan skyldusparnað ekki leggjast á allra herðar án undantekninga, og eru undantekningarnar þessar, að gift fólk, sem hefur stofnað heimili, skal ekki þurfa að taka á sig skyldusparnaðinn, þó að það sé á þessu aldursskeiði, enn fremur skólafólk, sem stundar nám í skóla 6 mánuði eða lengur á ári, og iðnnemar, meðan þeir stunda iðnnám; þá eru enn fremur þeir, sem hafa börn eða aðra skylduómaga á framfæri, ekki skyldugir til þess að taka á sig skyldusparnaðinn, og enn fremur hafa sveitarstjórnir heimild til að veita tímabundna undanþágu frá sparnaðarskyldu, ef sérstaklega stæði á, veikindi eða slys bæri að höndum.

Það er ætlunin, að framkvæmdin á þessu verði á þann veg, að gefin verði út sparimerki líkt og orlofsmerkin og að unga fólkið fái afhent sparimerki við launagreiðslur á sama hátt og orlofsmerkin eru gefin út, og eiga ákvæði þeirra laga að gilda um þetta, að svo miklu leyti sem við á, en að öðru leyti verður kveðið nánar á um þetta fyrirkomulag með reglugerð.

IV. kafli frv. er svo um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis. Er þeim kafla ekki í neinu verulegu breytt frá núgildandi lögum, og skal ég því ekki fjölyrða neitt um hann.

Þá er að lokum V. kafli frv. Hann er um nokkrar breytingar á lögunum um verkamannabústaði. Það þótti ógerlegt að láta þau lög standa alveg óbreytt að öllu leyti, þegar ýmsar þær takmarkanir væru gerðar, sem í þessum lögum eru ákveðnar, bæði um stærðir íbúða, efnahag og aðstöðu fólks, sem gæti notið lána, en eins og kunnugt er, er um hin hagkvæmustu lán að ræða samkvæmt lögunum um verkamannabústaði.

Breytingarnar, sem samkomulag fékkst um, eru þær í fyrsta lagi, að frá og með 1958 skuli sveitarsjóðir greiða ekki minna en 24 og ekki meira en 86 kr. fyrir hvern íbúa sveitarfélagsins og geti sveitarstjórnin ákveðið upphæðina með sérstakri samþykkt. Þetta er tvöföldun á þeim greiðslum, sem nú er gert ráð fyrir í lögum til verkamannabústaðanna af hendi sveitarfélaganna, og er það aðeins til samræmis við það, að fjárlagaupphæðin, sem á að mæta framlögum sveitarfélaganna til byggingar verkamannabústaða, hefur nú verið tvöfölduð og er þegar miðuð við þessa krónutölu af hendi sveitarfélaganna nú á árinu 1957.

Þá er enn fremur þarna bætt við lögin um verkamannabústaði því ákvæði, að ráðh. geti, um leið og hann hefur vald til þess að ráða nokkru um fyrirkomulag íbúðanna, sem byggðar eru samkvæmt lögum um verkamannabústaði, einnig ákveðið um stærð þeirra. Það hefur engin stærðartakmörkun þar verið og þannig ekki nægilega tryggilega um það búið, að ekki verði byggðar allstórar, kannske óhóflega stórar íbúðir fyrir þetta fé, sem ríkið borgar þó niður vexti af og veitir lengri lánstíma en nokkrum öðrum.

Nauðsyn þótti til bera að breyta mörkunum um tekjur og eignir þeirra manna, sem rétt ættu til að fá byggt fyrir sig á vegum byggingarfélags verkamanna, og hafa þau tekjumörk nú verið ákveðin hér í frv. 50 þús. kr. árstekjur, miðað við meðaltal þriggja síðustu ára, að viðbættum 5 þús. kr. til viðbótar fyrir hvern ómaga á framfæri. Þá er það skilyrði einnig sett, að viðkomandi fólk megi ekki eiga yfir 75 þús. kr. skuldlausa eign, miðað við þann tíma, þegar félagsmaður kaupir íbúðina.

Nýtt ákvæði er hér í 20. gr. um það, að heimilt skuli eða skylt að bjóða byggingar verkamannabústaða út.

Þetta eru helztu ákvæðin varðandi breytingu á verkamannabústöðum. Um formið skal ég játa það, að ég hafði undirbúið þessar breytingar á verkamannabústöðunum og nokkrar fleiri sem sérstakt frv., sem væri til breytinga á lögunum um verkamannabústaði, en um það varð ekki samkomulag að breyta þeim í svo verulegum atriðum, og varð þá að sætta sig við þetta afkáralega form, að hafa breytingu á lögunum um verkamannabústaði sem sérstakan kafla í þessu frv. Hins vegar er inn á það gengið og því heitið, að á næsta ári, fyrir næsta þing, skuli fara fram endurskoðun á lögunum um verkamannabústaði og lögunum um byggingarsamvinnufélög.

Með því, sem ég nú hef sagt, tel ég, að ég hafi gert grein fyrir meginefni þessa frv. um húsbyggingamálin, og tel þetta frv. vera skref í rétta átt og til mikilla bóta. Það er ekki hægt að neita því, að það er allmyndarlega að verki verið með því stofnfé byggingarsjóðs ríkisins, sem nú er tryggt, um nær 120 millj. kr., og það hefur verulega þýðingu fyrir varanlega lausn þessara mála.

Ef húsnæðismálaástandið í landinu væri núna „normalt“ eða eitthvað nálægt því, þannig að aðeins þyrfti nú að ráðgast um við þá íbúðaaukningu, sem þjóðin þarf, svona í kringum 1000–1100 íbúðir, þá held ég, að þetta frv. leysti nokkurn veginn vandann. En hins er ekki að dyljast, að við verðum enn um skeið í nokkrum vanda, vegna þess að þúsundir hálfbyggðra húsa bíða nú eftir því að fá fé, svo að hægt sé að ljúka þeim, og sumt af þessu fólki er búið að biða jafnvel nokkuð á annað ár með húsin, sum hver a.m.k. hálfstöðvuð eða alstöðvuð.

Það má því alveg búast við því, að á þessu ári og kannske á því næsta verði nokkur fjárþröng í þessum málum, en eftir það tel ég, að vonir standi til, að það fari heldur að vænkast um fjárhagshlið þessa máls, ef engar vonir bregðast um tekjur byggingarsjóðsins og aðrar tekjur, sem tryggja verður áframhaldandi í gegnum veðlánakerfið.

Ég vil vænta þess, að þetta mál verði gaumgæfilega athugað í nefnd, og víst get ég búizt við því, að svona mikill lagabálkur þurfi einhverra breytinga eða lagfæringa við nánari athugun, því að öll frumsmíð stendur vissulega til bóta, og að sumu leyti er þessi lagabálkur frumsmíð.

Ég legg svo til, að þessu frv. verði að umr. lokinni vísað til hv. fjhn.