18.05.1957
Efri deild: 102. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (1388)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Frsm. minni hl. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. N. hefur haft frv. þetta til athugunar og rætt það og reifað á nokkrum fundum, en nm. hafa ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. n. hefur þegar lagt til, að frv. verði samþ., en minni hl., hv. 2. þm. Árn. (SÚÓ) og ég, hefur sérstöðu í málinu.

Meginuppistaðan í frv. þessu er núgildandi lög um þetta efni, en það eru lög nr. 55 frá 1955, um húsnæðismálastjórn, veðián til íbúðabygginga og útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Hins vegar virðist breytt um nafn og orðalag á ýmsu því, sem efnislega er hið sama í meginatriðum. Það er þó yfirleitt ekki til bóta, enda er svo að sjá sem frv. hafi verið samið í allmiklum flýti. Verður að telja þessi vinnubrögð harla vafasöm.

Eðlilegast er að láta lög nr. 55 frá 1955 standa, en gera á þeim þær breytingar, er nauðsynlegar kunna að þykja. Löggjöf þessi var á sínum tíma vandlega undirbúin. Hún markaði greinileg tímamót í sögu húsnæðismála hér á landi og myndar traustan grundvöll, sem eðlilegt er að reisa á í framtiðinni við lausn þessara mála.

Með tilliti til þessa leggur minni hl. til, að formi frv. verði breytt þannig, að það verði ekki frv. til sjálfstæðra laga, heldur frv. til breytinga á lögum nr. 55 frá 1955.

Minni hl. er andvígur sumum ákvæðum frv., sem telja má vægast sagt varhugaverð. Má t.d. nefna 2. gr. þess, sem m.a. fjallar um heimild fyrir húsnæðismálastjórn til að láta undirbúa byggingu íbúðarhúsahverfa í kaupstöðum. Segir svo í gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar slíkir skipulagsuppdrættir hafa verið samþykktir af skipulagsnefnd ríkisins“ — eins og því er breytt af meiri hl. — „og félagsmálaráðherra, er viðkomandi bæjarfélagi skylt að heimila byggingarnar og láta af hendi eða útvega landssvæði fyrir þær, ef með þarf með eignanámi. Sömuleiðis er viðkomandi bæjarfélagi skylt að leggja nauðsynlega vegi og leiðslur um slík hverfi innan hæfilegs tíma að mati húsnæðismálastjórnar og félagsmálaráðherra.“

Þarna er raunverulega allt vald og sjálfsforræði í þessum málum tekið af sveitarstjórnunum og fengið í hendur húsnæðismálastjórn. Fæ ég ekki betur séð en að húsnæðismálastjórn geti með þessu ákvæði haft allan hag sveitarfélaganna í hendi sér og ráðskað með fjárreiður þeirra að eigin vild.

Segja má, að hér sé aðeins um heimild að ræða, en reikna verður með, að allar heimildir verði notaðar af þeim, sem völdin hafa, þegar það þykir henta. Það verður að teljast varhugaverð þróun, sem birtist í þessu ákvæði: Að fjötra sveitarfélögin svo mjög undir alræðisvald ríkisins, skylda þau til að láta af hendi lönd og lausafé og takast á hendur viðtækar skuldbindingar eftir óskum og geðþótta eins aðila í höfuðstaðnum. Er það máske eitt spor í áttina til að auka jafnvægi í byggð landsins að svipta sveitarfélögin ráðstöfunarrétti eigin mála og draga úr sjálfstæði þeirra í sívaxandi mæli?

Í frv. eru aftur á móti aðrar breytingar, sem minni hl. leggur ekki á móti, svo sem vikið er að í nál. Hið sama má segja um ýmsar af brtt. meiri hl. n. Fjöldi þeirra sýnir, að ekki var vanþörf á að hefla nokkra vankanta af frv. Að þessu leyti hefur frv. breytzt nokkuð til bóta í meðförum nefndarinnar.

Hv. frsm. meiri hl. lagði áherzlu á það í ræðu sinni í gær, að ákvæði frv. um byggingarsjóð væru alger nýmæli, og var hann mjög hrifinn af þeim. Þetta er að vísu nýtt orð, en minni hl. telur enga ástæðu til þeirrar nafnbreytingar á varasjóði hins almenna veðiánakerfis, sem felst í ákvæðum frv. um byggingarsjóð. Aðalatriðið er að efla varasjóðinn. Það mun alltaf hafa verið gert ráð fyrir, að lán ríkisins til lánadeildar smáíbúða og A-flokkabréf ríkisins, er keypt voru fyrir tekjuafgang ríkissjóðs 1955, gengju til varasjóðs hins almenna veðiánakerfis, og er rétt að ganga formlega frá því með löggjöf.

Þá getur minni hl. einnig mælt með því, að 2/3 af væntanlegum stóreignaskatti og 1% álag á tekju- og eignarskatt og stríðsgróðaskatt og aðflutningsgjöld renni til íbúðarlána, svo sem ráð er fyrir gert í frv.

Aðalnýmæli frv. munu vera ákvæði þess um skyldusparnað. Sú hugmynd er óneitanlega athyglisverð, en nokkuð umdeild. Hún er ekki ný, eins og fram kom við 1. umr. um málið hér í hv. d., en hefur þó lítið verið rædd og athuguð almennt, svo að mér sé kunnugt. Það vekur athygli, að höfundar frv. bera þessa hugmynd fram sem barn í reifum án þess að gera nokkra teljandi grein fyrir henni. Það er aðeins örstutt aths., sem fylgir 10. gr. frv. Hvergi er vikið að því, hvernig svipuð ákvæði hafa reynzt í öðrum löndum eða hvort þau yfirleitt eru finnanleg eða tíðkanleg í löggjöf annarra þjóða. Ekkert er minnzt á skyldusparnað í skýrslunni á fskj. í um athugun á íbúðabyggingum í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, þótt sú skýrsla sé „gerð á ferð“ um Norðurlönd í marz 1957, eins og þar segir. Það kemur og fram, að höfundar frv. hafa gert sér mjög óljósa hugmynd um þennan skyldusparnað og framkvæmd hans. Í frv. stóð: „Vegna framkvæmda á ákvæðum þessa kafla skulu gefin út sparimerki.“ Nú er þessi skylda orðin að heimild í brtt. meiri hl. n. víð frv. Þetta sýnir, að óttazt er, að framkvæmd þessara ákvæða verði mjög erfið.

Í n. kom fram sú aths., að eðlilegast og þægilegast mundi vera að miða greiðslu fjár þess, sem skylt er að leggja til hliðar sem skyldusparnað, við skattskýrslur og innheimta það eftir á með öðrum gjöldum, en það þótti bera of sterkan keim af skattgreiðslu, og af sköttum hafa allir fengið nóg. Enn fremur var því svarað til, að lítt stoðaði að rýja gemlinginn, þegar hann væri genginn úr reyfinu, og má það til sanns vegar færa, ef ákvæði frv. að þessu leyti byggjast fyrst og fremst á því að rýja.

Hv. frsm. meiri hl. n. sagði í ræðu sinni, að bann fengi ekki skilið afstöðu okkar í minni hl. til skyldusparnaðarins. Við því er ekkert að segja. Ég geri þó ráð fyrir því, að hann geti fallizt á, að frjáls sparnaður sé æskilegri, ef hann leiðir til sömu niðurstöðu.

Í Vestur-Þýzkalandi starfa að sögn sérstakir byggingasparisjóðir, sem gera sparnaðarsamninga við fólk í þessu skyni. Hef ég heyrt, að kerfi þetta hafi reynzt mjög vel þar í landi. En það er sama sagan. Um þetta atriði lágu engar upplýsingar fyrir n. Veit ég þó ekki betur en maður eða menn hafi verið sendir til Vestur-Þýzkalands á vegum hins opinbera, að vísu kannske ekki alveg nú nýlega, einmitt til þess að kynna sér hinar stórfelldu byggingarframkvæmdir þar í landi og hafa spurnir af hinni glæsilegu og öru þróun og uppbyggingu húsnæðismálanna þar.

Að öllu þessu athuguðu telur minni hl. rétt að gera nú þegar gangskör að því að koma á fót frjálsum, samningsbundnum sparnaði til íbúðabygginga, svo sem ráð var fyrir gert í lögum nr. 55 frá 1955. Leggur því minni hl. til, að sett sé á stofn undir yfirstjórn húsnæðismálastjórnar og veðdeildar Landsbanka Íslands sérstakt form spariinnlána í bönkum og sparisjóðum í þessu skyni. Er lagt til, að vextir af þessum innlánum verði hærri en almennir sparisjóðsvextir og að það fé, sem sparað er á þennan hátt, verði undanþegið tekjuskatti og útsvari. Þá er og lagt til, að eigendur þessara innlána fái forgangsrétt að íbúðalánum hins almenna veðlánakerfis, er séu 25% hærri en venjulegt lánshámark er. Með þessu móti ætti að geta fengizt mikið fjármagn til íbúðalána með frjálsri sparifjármyndun.

Með tilliti til þess, sem að framan greinir, ber minni hl. fram allmargar brtt. Ég skal ekki tefja lengi við að rekja þær allar nákvæmlega, en get að sjálfsögðu bent á, að aðalbreytingartill. eru við 2. gr. frv. og svo ákvæði frv. um skyldusparnað, auk ýmissa minni háttar breytinga, en margar þeirra leiðir beinlínis af því, að breytt er um form á frv. En ég ætla ekki að tefja við að rekja allar þessar brtt. nákvæmlega, enda mjög orðið áliðið þingtímans, eins og sagt er.

Ég vil þó alveg sérstaklega leggja áherzlu á það, að þetta eru miklu minni breytingar en menn halda fljótt á litið. Kemur það skýrt í ljós, þegar frv. er borið saman við lögin frá 1965. Þótt lagt sé til, að formi frv. verði breytt svo mjög, að því er virðist, eru þó brtt. minni hl. einni færri en brtt. meiri hl. Að sjálfsögðu gera bæði meiri og minni hl. n. ráð fyrir því, að sett verði reglugerð, er geymi nánari fyrirmæli um þetta efni, en minni hl. telur, að sum ákvæði frv. eigi aðeins heima í reglugerð, en ekki í lögunum sjálfum. Kosta þarf kapps um það að hafa þessa löggjöf skýra, einfalda og aðgengilega fyrir almenning, svo mjög sem þessi mál varða heill og hamingju fólksins í landinu.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, en vil aðeins að lokum taka það fram, að þótt leiðir hafi skilið í n., er ég sammála ýmsu því, sem hv. frsm. meiri hl. sagði í ræðu sinni hér í gær um þessi mál almennt. Og ég hygg, að við séum á einu máli um það, að málum þessum þurfi að skipa sem bezt í framtíðinni.