18.05.1957
Efri deild: 102. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Frsm. minni hl. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá atriði. — Til leiðréttingar við það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, vil ég einungis taka það skýrt fram, að ég vék síður en svo að öllum ákvæðum frv., sem ég taldi athugaverð, heldur nefndi aðeins dæmi nánast af handahófi.

Hv. síðasti ræðumaður fór nokkrum orðum um það öryggi, sem hann taldi að fælist í skyldusparnaði. Það má vel vera, að nokkurt öryggi sé í þessu, en ég hygg þó, að útreikningar höfunda frv. séu dálitið hæpnir að þessu leyti. Út af því, sem hann sagði, að tíminn mundi skera úr því, hvort meira kæmi inn af fé samkv. 9. eða 10. gr. frv., vil ég einungis benda honum á það, að ef farið er að till. minni hl. og eingöngu miðað við að breyta og víkka svið hins frjálsa sparnaðar samkv. 9. gr., þá er það meginmunur, að samkv. okkar tillögum verður hinn frjálsi sparnaður gerður skatt- og útsvarsfrjáls, og mætti segja mér, að þetta gæti orðið öruggur tekjustofn í framtíðinni, þótt að sjálfsögðu sé ekki hægt að fullyrða um það á þessu stigi.

Þá talaði hv. frsm. meiri hl. um það, að brtt. okkar væru óaðgengilegri, vegna þess að þær miðuðu að fleiri reglugerðarákvæðum. Ég held nú satt að segja, að fleiri reglugerðarákvæði stuðli að því að hafa löggjöfina skýra og einfalda. Að vísu er nokkurt öryggi að hafa sem flest ákvæði í löggjöf, en það á þó ekki að koma að sök, og ég tel alveg tvímælalaust, að fara eigi eftir þeirri meginreglu að hafa löggjöfina fáorða, gagnorða og skýra, en geyma hitt í reglugerðum, sem meira telst til upptalninga og smáatriða.

Ég vil svo ekki hafa þessi orð fleiri, en treysti forseta til þess að fara höndum um þetta mál, svo sem lög og reglur gera ráð fyrir.